19.03.1947
Neðri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (4017)

20. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Núgildandi l. um vinnumiðlun voru sett 1935, og í þeim er kveðið svo á, að í sérhverjum kaupstað á landinu sé sett vinnumiðlunarskrifstofa, ef hlutaðeigandi bæjarstjórn eða atvmrh. ákveða.

Í stjórn hennar séu 5 menn, 2 tilnefndir af viðkomandi bæjarstjórn, einn af verkamannafélagi eða fulltrúaráði verkalýðsfélaga á staðnum, einn af félagi atvinnurekenda og loks einn tilnefndur af atvmrh., og sé hann formaður stjórnarinnar. Kostnaður við skrifstofuna greiðist að 2/3 úr bæjarsjóði, en 1/3 úr ríkissjóði. Kostnaður af símtölum, póstsendingum og símskeytum greiðist þó allur úr ríkissjóði.

Höfuðákvæði þessa frv. er, að gert er ráð fyrir, að l. verði breytt svo, að hlutaðeigandi bæjarstjórn kjósi 3 menn af 5 í stjórnina, en atvmrh. tilnefni engan. Það er m.ö.o. gert ráð fyrir, að bæjarstjórnin fái meiri hl. í stjórn skrifstofunnar, en ríkisvaldið hafi þar engin áhrif.

Nú væri ekki mikið við þetta að athuga, ef þetta væru stofnanir fyrir bæjarfélagið eitt, en svo er ekki. Þær gegna ýmsum störfum fyrir ríkisvaldið í heild og þjóðina. Í 2. gr. gildandi l. segir, að hlutverk þeirra sé m.a. „að „úthluta vinnu þeirri, sem kostuð er af bæjum og ríki til atvinnubóta, svo og annarri vinnu, er ríki, bæir eða opinberar stofnanir fela skrifstofunni að úthluta,“ og enn fremur „að halda uppi innbyrðis sambandi á milli vinnumiðlunar í kaupstöðum og milli kaupstaða og sveita, eftir því sem við verður komið.“ Af þessu er ljóst, að þessar skrifstofur eru ekki fyrir bæjarfélögin einvörðungu, heldur gegna þær einnig starfi fyrir ríkið, og það hefur löggjafinn fundið og því gert ráð fyrir, að ríkið greiddi 1/3 kostnaðar og tilnefndi einn mann í stjórn. Minni hl. heilbr.- og félmn. lítur því svo á, að það sé eðlilegt, að ríkið fái að tilnefna 1 mann af 5 í stjórnina, og sízt of mikið, þar sem 4 menn af 5 eru úr bæjarfélaginu. Minni hl. n. getur því með engu móti fallizt á, að frv. þetta verði samþ., sérstaklega þar sem þó er gert ráð fyrir, að meira en 1/3 kostnaðar verði áfram greiddur úr ríkissjóði, því að samkv. frv. er ákveðið, að ríkisvaldið taki áfram þátt í kostnaðinum, en hafi engin áhrif á stjórnina:

Væri hins vegar svo, að áhrif ríkisins ættu alveg að hverfa og það tæki ekki heldur þátt í kostnaðinum, væri öðru máli að gegna, en svo er hér ekki. Minni hl. getur því ekki fallizt á þetta frv. og leggur til, að það verði fellt í því formi, sem það liggur fyrir.