19.03.1947
Neðri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (4019)

20. mál, vinnumiðlun

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég get verið stuttorður og látið nægja að vísa til orða þeirra, sem hv. frsm. minni hl. lét hér falla um þetta mál.

Mér finnst það í fyllsta máta óeðlilegt og ósanngjarnt, eins og undirstrikað var af minni hl. n., að ríkið leggi fram að sínum hluta verulegt fé til rekstrar vissra stofnana, en eigi svo enga íhlutun að hafa um rekstur þeirra stofnana. Ég get bent á hliðstætt mál, þar sem þetta þykir sjálfsagt, og eru það skólanefndir, þar sem kosning þeirra skiptist milli hlutaðeigandi sveitarfélaga og ríkisins. Og stjórnir bæjanna kjósa skólanefndir, en ríkisstj. velur formann n. af þeirri einföldu og eðlilegu ástæðu, að ríkið leggur fram verulegt fé til skólamálanna og vill hafa þar aðila, sem getur fylgzt með rekstri og störfum þeirra fyrirtækja.

Í öðru lagi vil ég benda á, að með frv. um fjárhagsráð er gert ráð fyrir því, að fjárhagsráð sem landsstofnun leiti til vinnumiðlunarskrifstofa úti um land til þess að afla upplýsinga um það, hvernig varið er vinnukrafti og öðru slíku, til þess að jafna og dreifa vinnunni og hafa reksturinn sem hagkvæmastan. Mér finnst eðlilegt, að þessar stofnanir hafi mann eða menn í forsvari af ríkisins hálfu, þeim mun eðlilegra sem ríkinu sem heild er ætlað að leita til þessara stofnana um upplýsingar og ráðagerðir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, en ég teldi það algert brot á eðlilegum reglum, sem eru í íslenzkum l., óeðlilegt og óráðlegt af hv. Alþ. að ætla að taka úr höndum ríkisvaldsins fulltrúa til þess að starfa í fyrirtækjum, sem ríkið stjórnar að verulegu leyti. Ég sé ekki að fram hafi komið eða til sé nein röksemd, sem geti réttlætt það. Hins vegar má telja fram ótal röksemdir, sem mæla gegn því, að þessari nýju skipan eftir frv. verði komið á. Ég vil því vænta þess, að hv. d. telji sjálfsagt og eðlilegt að láta þetta frv. ekki ná fram að ganga.