06.11.1946
Neðri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Þegar sauðfjársjúkdómarnir, sem flestir álíta, að hafi borizt hingað með karakúlfénu 1933, byrjuðu að geisa hér á landi, hafa menn ekki gert sér almennt nægilega grein fyrir, hvílíkur vágestur var á ferðum. Sjúkdómurinn var áður óþekktur hér, og það, sem sjúkdómnum olli, fannst ekki. Veiku fé var sleppt á fjall og það einnig látið vera í heimahögum innan um ósjúkt fé. Afleiðingin varð sú, að sjúkdómarnir breiddust mjög ört út. Þegar ljóst varð, hvílíkur vágestur var á ferð, var veikin orðin svo útbreidd, að ekki þótti tiltækilegt að útrýma henni, og var þá gripið til annarra ráða. Ýmislegt hlaut að mæla með því, að sjúkdómurinn yrði verstur fyrst, en rénaði svo smám saman og svo kæmi að lokum, að upp yxi fjárstofn, sem væri því nær ónæmur fyrir veikinni. Má segja, að eigi sé séð fyrir endann á því enn, þar sem eigi er svo langt um liðið, síðan veikin barst hingað. Hitt er svo annað mál, hve lengi menn vilja bíða. Þær ráðstafanir, sem upphaflega voru gerðar til varnar, virðast vera miðaðar við þessa skoðun, og beindust þær aðallega að tvennu:

Í fyrsta lagi að leitast við að hindra útbreiðslu veikinnar, eða a.m.k. tefja hana með girðingum og annars konar vörnum, þ.e.a.s. varðmönnum. Þessar ráðstafanir hafa að sjálfsögðu átt mikinn þátt í að tefja útbreiðslu sjúkdómanna, sérstaklega mæðiveikinnar, en margt bendir til, að garnaveikin berist öðruvísi, en með samgangi fjár.

Þetta voru aðrar ráðstafanirnar. Hinar voru fólgnar í því að örva sauðfjáreigendur til að halda við fjárstofni sínum og leggja ekki árar í bát með alls konar styrkjum, og er uppeldisstyrkurinn langveigamestur af þeim. Grundvöllurinn undir þessu var sú von, að smátt og smátt kæmu fram ónæmir stofnar, eða stofnar, sem þyldu veikina sæmilega, og um tíma voru menn vongóðir um, að það mundi svo fara, en ég hygg, að þær vonir muni að engu hafa orðið, er þingeyska mæðiveikin fór að breiðast út. Er ólíklegt, að takist að ala upp stofn, sem er ónæmur fyrir henni eða garnaveikinni, en um hana er þó það sérstætt, að menn þekkja ráð til að finna hana, áður en hún er komin á mjög hátt stig. Ýmiss konar lækningatilraunir hafa verið gerðar, bæði af því opinbera og einstaklingum, en óhætt er að segja, að þær hafa lítinn sem engan árangur borið.

Nú eru hugir manna sem óðast að beinast að útrýmingu með fjárskiptum. Menn halda það borgi sig, þó að eigi yrði um fullkomna útrýmingu að ræða, þó að sagan endurtæki sig. Ég hef heyrt greinagóða og athugula bændur halda því fram, að þrír mundu ekki hika við niðurskurð, þó að hann þyrfti að endurtaka á 5 ára fresti. Lög voru sett um fjárskipti 1941. Fyrir þann tíma áttu fjárskipti sér þó stað, og er því lýst í grg., og get ég vísað til þess. Ég hygg, að segja megi um þau fjárskipti, að þau hafi aðeins átt sér stað í þeim sveitum, þar sem ekki er um annað, en sauðfjárbúskap að ræða og því nauðsynlegt, til að sveitirnar færu ekki í auðn, t.d. Mývatnssveit og Bárðardalur og fleiri sveitir þar, en sauðfjárstofninn er þar grundvöllurinn undir búskapnum.

Á öndverðu ári 1946 var samþ. í 6 hreppum í Þingeyjarsýslu og 3 hreppum í Eyjafjarðarsýslu, að fjárskipti skyldu fara þar fram. Þessir 3 hreppar í Eyjafjarðarsýslu. og raunar sumir í Þingeyjarsýslu einnig, höfðu áður lifað að nokkru á mjólkursölu og því annað viðhorf þar.

Það var svo borin fram í þáltill.-formi till. um það að skora á ríkisstj. að leggja fram frv. til þess að styðja að fjárskiptum á þessu svæði. Þegar sú till. var til umr. hér á Alþ., lét ég í ljós þá skoðun mína, að úrslit hennar mundu marka straumhvörf í málinu, ef hún næði fram að ganga. Ég leit svo á, að samþykkt till. mundi tákna það, að horfið yrði frá styrkveitingum og einnig frá vörzlu í því formi, sem hún áður hafði verið, og horfið aftur að hinu, að reyna fjárskipti, fyrst og fremst með því að gera tilraun til þess að útrýma sýktum stofni og fá heilbrigða stofna. Hins vegar var mér ljóst frá upphafi, að ef fjárskipti ættu að fara fram á sýktum svæðum, þá væri nauðsyn á nýrri löggjöf um þetta efni. Fjárskipti mega ekki vera háð neinni tilviljun, ef þau eiga að vera framkvæmd meið einhverri skynsemd, heldur verða þau að fara fram eftir fyrirfram gerðri áætlun og á þann hátt, sem mestar líkur eru til, að takast megi að ala upp heilbrigðan stofn í landinu aftur. Auk þess var það, að hinar eldri reglur voru að ýmsu leyti flóknar og reglurnar um bætur fyrir afurðamissi að ýmsu leyti mjög vafasamar, svo að ekki sé meira sagt. Ég taldi svo, að hið opinbera, ríkisvaldið, yrði að fá aðstöðu til frekari íhlutunar um fjárskipti, en það hefði haft eftir l. frá 1941. Þetta leiddi til þess, að landbrn. skipaði þriggja manna n. til þess að endurskoða eldri löggjöfina um sauðfjársjúkdóma, og voru skipaðir í n. Árni Eylands, fulltrúi landbrn., formaður, Jón Pálmason og Jónas Jónsson. Álit þessarar n. liggur nú fyrir í frv.-formi á þskj. 73, 47. mái. Ég skal taka það fram, að frv. n. er lagt fram hér sem stjórnarfrv., eins og það ber með sér. Ég hef tekið orðrétt frv. n., en skal geta þess, að það eru viss atriði í því, sem ég er ekki viss um, að ég geti að öllu leyti fellt mig við, og vildi ég gjarnan hafa nokkurt samráð við hv. landbn., sem auðvitað fær þetta mál til meðferðar.

Frv. þessu fylgir ýtarleg grg., svo að ég get stytt mál mitt mjög, því að ég tel ekki ástæðu til að taka allt það upp, sem í grg. stendur, heldur aðeins drepa á þá höfuðstefnu, sem fram kemur í frv. Ég hygg að segja megi, að höfuðbreytingin, sem frv. markar frá eldri löggjöfinni, sé þessi, að áður var miðað að því að styðja bændur til þess að stunda atvinnu sína þrátt fyrir sjúkan fjárstofn, en nú er ætlunin að styðja þá til þess að fá heilbrigðan stofn í staðinn fyrir þann sjúka. Í 2. gr. frv. er lýst, hvernig ætlað er að ná þessu marki. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þá gr. upp: „Markmið framkvæmda þeirra, er lög þessi fjalla um, er að hindra útbreiðslu sjúkdóma, þeirra, sem taldir eru í 1. gr., og vinna að útrýmingu þeirra með fjárskiptum innanlands, svo og með kynbótum og tæknifrjóvgun frá erlendum sauðfjárkynjum, er inn kunna að verða flutt í þeim tilgangi.“ Eins og þessi gr. ber með sér, þá eru aðferðirnar, sem ætlazt er til, að notaðar verði til þess að ná þessu marki, tvær. Annars vegar eru það fjárskipti innanlands og hins vegar kynblöndun við erlent sauðfé. Ástæðan til þess, að þessar tvær leiðir eru farnar, er augljós, og byggist hún á því, að ekki þykir tryggt, þó að ætlazt sé til, að vörnum sé haldið áfram, að smit geti ekki borizt á milli sýktra sveita og hinna, sem skipting hefur farið fram í. Ég drap á það áðan hvað snertir garnaveikina, að það eru miklar líkur til þess, að ætla megi, að hún berist á annan hátt, en með samgöngu sauðfjár. Reynslan hefur og sýnt með þingeysku mæðiveikina. og mæðiveikina svo kölluðu, að torvelt hefur reynzt að halda uppi þeim vörnum, að sýkin bærist ekki inn á ósýkt svæði og héruð. Þessi sjónarmið gera það nauðsynlegt, að það fari saman að fá heilbrigðan stofn í sýktu héruðunum og samtímis séu gerðar ráðstafanir til þess að ala upp stofn, sem yrði ónæmari fyrir sjúkdómum en sá, sem fyrir er. Nokkur reynsla er fengin fyrir þessu hér á landi. Eins og kunnugt er, var flutt hér inn fyrir 14 árum nokkuð af Border-Leicester fé, og kynblöndun hefur farið fram milli þess og hins sjúka fjár, og bendir reynslan til þess, að kynblendingarnir af þessum stofnum muni ónæmari fyrir veikinni, en okkar gamli fjárstofn. Erlend reynsla bendir og til þess sama. Það er talið, að mæðiveikin sé landlæg í mörgum nágrannalöndum okkar, en hennar gætir a.m.k. ekki svo mikið, að hún valdi stórtjóni, þó að nokkurra vanhalda kunni að gæta.

Hins vegar er mér ljóst, að hér á landi gætir nokkuð almenns ótta gagnvart innflutningi sauðfjár, sem er að vísu eðlilegt, því að sú reynsla, sem fengizt hefur við innflutning karakúlfjárins, er ekki uppörvandi. En þess er þá að gæta, að það er ekki úr háum söðli að detta, því að segja má, að meginhluti af sauðfjárhéruðum landsins sé nú svo kominn, að litlar líkur eru til, að menn endist lengi til þess að berjast þannig við þessa sjúkdóma, eins og þeir hafa orðið að gera undanfarið, ef ekkert verður að gert. Hins vegar er ekki ætlunin að flytja fé inn af handahófi, heldur viðhafa allar þær sóttvarnir, sem auðið er.

Í raun og veru eru það þrenns konar tilraunir, sem hugsað er að gera á þennan hátt. Með innflutningi sauðfjár, sem gert er ráð fyrir, að verði frá Noregi eða Bretlandi, og það verði hreinræktað hér. Og það er einnig gert ráð fyrir því, að því verði eftir vissan tíma blandað saman við heilbrigt íslenzkt sauðfé og enn fremur við sýkt. Loks er gert ráð fyrir því, að samhliða þessari blöndun fjárins verði gerð tilraun áfram með tæknifrjóvun. Þessum ákvæðum er nánar lýst í 7. og 8. kafla frv., og skal ég þá aðallega vekja athygli á ákvæðum 46. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að hið erlenda sauðfé, sem flutt er inn, sé alið og ræktað til reynslu á tveimur stöðum í landinu og ræktun þess þannig hagað, að sem fullkomnust reynsla, fáist um eftirfarandi atriði: Í fyrsta lagi, hvort innflutt fé, sem alið er með íslenzku fé, sem sýkt er af karakúlsjúkdómum, svo og kynblendingar út af því og íslenzku fé, hafi meira mótstöðuafl gegn sjúkdómum þessum, en íslenzkt fé. Í öðru lagi, hvort komið verði hér upp fjárstofnum, bæði af hreinræktuðu, erlendu fé og kynblendingum, er séu þeim kostum búnir, bæði um heilbrigði og afurðir, að réttmætt sé að útbreiða ræktun slíkra fjárstofna í þeim héruðum, þar sem fjárskipti hafa átt sér stað. — Benda má á það, að samkvæmt ákvæðum 47. og 48. gr. er gert ráð fyrir, að hið erlenda sauðfé sé flutt til Hríseyjar, eftir að það hefur verið í sóttvörn um tíma, og sé blandað þar saman við heilbrigðan fjárstofn. Í þessu sambandi má svo minnast á það, að í 9. kafla er gert ráð fyrir. að komið verði hér upp fullkominni sóttvarnarstöð og einangrun. Slíkt fyrirtæki hefur vitanlega skort tilfinnanlega hér fram til þessa tíma, því þó að hömlur hafi verið lagðar á innflutning fjár, og ef eitthvað verður flutt inn til landsins af erlendu fé, er nauðsynlegt að hafa slíkt öryggi fyrir hendi. Leiðirnar, sem ætlað er að fara, eru þær, að útrýma sýkta fjárstofninum og fá heilbrigðan innlendan stofn í staðinn og reyna kynbætur í því skyni að koma upp heilbrigðari stofni en þeim, sem fyrir er.

Í 2. kafla frv. er svo lýst framkvæmdastjórninni. Höfuðatriði þess kafla eru svipuð og áður hafa verið í l. Það er gert ráð fyrir því, að yfirstj. málanna hafi landbrn., en það skipi fimm manna framkvæmdanefnd, sauðfjársjúkdómanefnd, sem hafi með höndum framkvæmd þeirra mála. Verkefni þeirrar n. breytist eðlilega nokkuð í samræmi við þann breytta tilgang löggjafarinnar. Hirði ég ekki um að fara nánar út í það.

3. kaflinn er svo um varnir gegn útbreiðslu sjúkdómanna. En þar er horfið frá því að hafa varnir og girðingar fastbundið með lagaákvæðum, en gengið út frá, að girðingum og vörnum sé hagað eftir því, sem hentugast þykir á hverjum tíma, og í samræmi við það, sem fjárskipti krefjast.

4. 5. og 6. kaflinn fjalla svo um fjárskiptin sjálf. — 4. og 5. kaflinn fjalla um fjárskiptafélögin og 6. kaflinn um stuðning ríkissjóðs. Undirbúning fjárskiptanna er ráðgert, að sauðfjársjúkdóman. annist samkvæmt 24. gr., og segir þar, að sauðfjársjúkdóman. sé ætlað að gera till. um hagfellda skiptingu þeirra landshluta, þar sem sauðfé er sýkt af karakúlsjúkdómum, í fjárskiptasvæði. Samkvæmt 25. gr. getur n. haft frumkvæði um málið, en þó er gert ráð fyrir, að það verði fyrst og fremst félagssamtök bænda, er hafi frumkvæði að fjárskiptum.

Í 5. kafla er svo ákvæði um framkvæmd fjárskiptanna, en þau eiga að vera undir umsjá sauðfjársjúkdóman., og skal þá bent á ákvæði 32. gr., sem leggur þá skyldu á fjáreigendur, sem hafa heilbrigt sauðfé, að selja öll gimbrarlömb, er þeir hafa til förgunar, og hrútlömb eftir þörfum til þeirra fjáreigenda, sem hafa fjárskipti samkvæmt l. þessum. Og enn fremur getur sauðfjársjúkdóman. ákveðið með samþykki landbrh., að fjáreigendur, sem lausir eru við karakúlsjúkdóma, séu skyldir til að selja öll sín gimbrarlömb þriðja hvert ár, á meðan fjárskiptum til útrýmingar sjúkdómunum er ekki lokið. Vel má vera, að sumum þyki nokkuð nærri eignarrétti manna gengið. En þess ber að gæta, að það er ekki hægt að semja löggjöf um slíkt efni, sem að gagni geti komið, án þess að það komi við einhverja.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á ákvæðum 35. gr. Þar er lögð sú skylda á herðar þeim, sem féð kaupa, að hafa það í strangri gæzlu fyrsta missirið. eftir að það hefur verið flutt, og hafa eftirlit með sjúkdómum, sem kynnu að berast með þessu fé inn á hreinsuð svæði.

Í 6. kafla eru svo aftur ákvæði um fjárframlög ríkisins til fjárskiptanna. Þar er að vissu leyti alveg horfið að nýju ráði. Það er hætt við bætur fyrir afurðamissi, en er gert ráð fyrir að greiða bætur í eitt skipti fyrir öll. Og það hefur verið gripið til þess úrræðis að leggja ríkissjóði þær skyldur á herðar að leggja fram fyrir hverja fullorðna kind og gemling, og fái fjáreigendur frá ríkisins hálfu eitt haustlamb heimflutt. Bætur eiga samkvæmt 37. gr. að miðast við skattaframtöl árið 1946, en að hálfu leyti við framtöl þess árs, er síðast var heilbrigt fé í viðkomandi hreppi. Það er óhjákvæmilegt að miða þessar bætur við eitthvað, en það gæti orðið vandkvæðum bundið að miða þær við skattaframtal 1946, því að gert er ráð fyrir að hætta greiðslu uppeldisstyrkja. og auk þess er það óskynsamleg aðferð að greiða árið 1946 uppeldisstyrk á fé, sem ætlað er að slátra næsta ár eða eftir stuttan tíma. Þetta er freisting fyrir menn að setja á fé á sýktum svæðum, ef framtöl eiga að miðast við árið 1946. Aftur á móti hygg ég, að það orki meira tvímælis að miða að einhverju leyti við skattframtöl þess árs, sem siðast var heilbrigt fé á viðkomandi svæði. Ég vil benda hv. landbn., sem fær þetta mál til athugunar á, að þetta atriði þarf alveg sérstaklega að athuga. Það er að vísu svo, að eftir þeim skýrslum, sem ég hef fengið um þetta, þá hefur fjárfækkun verið miklu minni, en búast hefði mátt við eftir því, hve þessir sjúkdómar eru búnir að herja í sveitunum. Þetta er kannske ekki svo mikið fjárhagsspursmál fyrir ríkissjóð, en það er annað, sem kemur til greina, að fjárfækkun hefur átt sér stað í ýmsum sveitum, án þess að sjúkdómar hafi valdið þeirri fækkun. Það er kunnugt, að á síðari árum hafa menn á stórum svæðum, sérstaklega hér á Suðurlandi, breytt búskap sínum úr kjötframleiðslu og í mjólkurframleiðslu. Og það hefur ekki síður átt sér stað í þeim héruðum, þar sem laust hefur verið við sauðfjársjúkdóma, að fénaði hefur fækkað. Má þar til nefna Rangárvallasýslu, en þar fækkaði fénu um 8.600 á árunum 1931 til ársloka 1935 að meðaltali. Augljóst er, að þessi fækkun hefur ekki átt sér stað af völdum sjúkdóma, því að árið 1944 eru þeir ekki farnir að gera vart við sig þar. Þessar ástæður og margt fleira gera það að verkum, að þessi ákvæði þurfa meiri athugunar með.

Það væri ekki nema eðlilegt, að menn spyrðu um það, hve mikinn kostnað þetta hefur í för með sér fyrir ríkissjóð, en ég er því miður ekki undirbúinn að svara því enn þá. Ég hef að vísu gert nokkra tilraun til þess að afla mér upplýsinga um þetta efni, en það er hvort tveggja, að síðustu skýrslur liggja ekki fyrir, og svo hitt, að það liggur ekki nægilega ljóst fyrir a.m.k., hver munurinn mundi verða á verði lambanna og fullorðna fjárins, sem slátrað yrði, sem sagt. hver milligjöf ríkissjóós yrði á þessu tvennu. Eftir framtalsskýrslum 1944, sem liggja fyrir, er sauðfé í sýktum sýslum 350,000, sennilega að það sé heldur færra árið 1946. En árið 1936 var fé á sama svæði 440,000. og fækkunin frá 1935 virðist þá vera sem næst 25%. Ef það ætti að fara eftir þeirri reglu, sem stungið er upp á í frv., þá lítur út fyrir, að það yrði um 400 þús. fjár, sem þyrfti að bæta, þó sennilega eitthvað neðan við það, eða 350 til 400 þús. Og ef reiknað væri með 50 kr. milligjöf milli lambs og fullorðinna kinda, þá væri kostnaðurinn, sem ríkissjóður ætti að bera, eitthvað 17–20 millj. kr. Náttúrlega mundi þetta skiptast á nokkurt árabil, því að fjárskipti verða ekki framkvæmd nema á löngum tíma, vegna þess að það er ekki hægt að fá nægilega mörg lömb á stuttum tíma. En ef menn vilja leyfa sér þá bjartsýni, að hægt verði að koma upp heilbrigðum fjárstofni hér á landi, þá verð ég að segja það, að ekki sé rétt að setja fjáreyðsluna fyrir sig. Það mun vera búið að eyða hærri upphæð en þessari, sem ég nefndi, í styrki og í meiri og minni káktilraunir á undanförnum árum og lítill árangur eftir það.

Ég hef þá bent á helztu nýmæli þessa frv., og ég þykist vita, að ýmislegt sé í frv., sem geti orkað tvímælis og skiptar verði skoðanir um. Ég tel þó ýmislegt, sem vera mun til bóta, og ég tel, að sú stefna, sem mörkuð er í frv., sé rétt, og svo framarlega sem Alþ. Íslendinga vill stuðla að því, að áfram verði stunduð sauðfjárrækt hér á landi, þá verður ekki hjá því komizt að leggja inn á þær brautir, sem hér eru markaðar.

Ég vil svo leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. landbn. og til 2. umr.