30.10.1946
Neðri deild: 7. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (4046)

30. mál, viðgerðarverkstæði landbúnaðarvéla

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Meginatriði þessa máls eru:

1. að stuðla að því, að viðgerðarverkstæðum verði komið upp fyrir vélakost landbúnaðarins,

2. að þess sé gætt við skipulagningu verkstæðanna og byggingu, að þau komi að sem beztum notum.

3. að styðja viðleitni bænda til aukinna afkasta og lækkunar framleiðslukostnaðar með því, að tryggð sé notkun vélanna.

Ég vík nú nánar að þessu.

Um nauðsyn þessa máls má benda á það, að bændur hafa lagt tugi milljóna króna í verkfæri til landbúnaðarstarfa. Það hafa verið miklir erfiðleikar að fá framkvæmdar viðgerðir á verkstæðum, og jafnvel þar, sem til eru verkstæði í héruðum, þá hafa þau haft öðrum störfum að sinna. Þess vegna er nauðsyn að sjá svo um, að hægt verði að fá viðgerð á þeim verkfærum og vélum, sem hér um ræðir.

Annað atriði er það, að þessi verkstæði verði tryggð í framtíðinni. Stofna þarf til verkstæðanna, svo að þau komi að gagni í nútíð og framtíð. Til þess er ætlazt, að búnaðarsamböndin hafi ásamt Búnaðarfélagi Íslands forgöngu í þessu máli og öllum bændum verði þar með tryggður aðgangur að verkstæðunum, en slíkt hefur ekki verið undanfarið. Hér er gert ráð fyrir, að tryggt verði það, sem hægt er. Gert er ráð fyrir, að Búnaðarfélag Íslands og verkfærakaupan. ríkisins hafi eftirlit með álagningu á vinnu og efni o.s.frv. Hér er ekki um gróðafyrirtæki að ræða, en gert ráð fyrir því, að verkstæðin taki aðeins nauðsynlega þóknun fyrir vinnu og efni. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að rekstrarkostnaði við landbúnaðarframleiðslu verði þokað niður með auknum vélakosti bænda. Gert er ráð fyrir því, að á næstu árum muni öflun heyja aðeins verða á landi, sem er í rækt, og þannig verði tryggt, að ræktunarkostnaðinum verði þokað niður og véla- og verkfærakaup bænda verði að því liði, sem að er stefnt. Og því megum við ekki gleyma, að ef ekki verður hafizt handa nú þegar til tryggingar viðhaldi landbúnaðarvélanna, þá er vafalaust hætta á því, að milljónir króna, sem liggja í þessum tækjum, fari í súginn. Hinar mörgu pantanir, sem hafa verið afgreiddar eða verða afgreiddar samkv. umsóknum til nýbyggingarráðs, tala sínu máli. Og það mega allir vita, að er slík risaskref eru tekin, þá er ekkert líklegra en að margar vélanna lendi í höndum manna, sem kunna lítt eða ekkert með þær að fara. Af þessu leiðir, að þörf viðgerðarverkstæða er mikil, og er því áríðandi að koma verkstæðunum upp sem fyrst.

Í mínum augum og þeirra, sem athugað hafa þessi mál, er þetta mjög áríðandi, hvernig sem á málið er litið. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en vísa til grg., sem fylgir þessu frv. Við flm. þessa frv. vildum geta gefið nánari og betri upplýsingar um þessi mál, en nákvæmar skýrslur eru ekki fyrir hendi. Að lokum legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn., en hún hefur farið með mál svipaðs eðlis og þetta.