11.11.1946
Neðri deild: 14. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (4062)

57. mál, félagsheimili

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. — Við hv. þm. Mýr. flytjum þetta frv. um félagaheimili. Þskj. hefur tafizt í prentsmiðjunni og er því seinna fram komið en ætti að vera, t.d. var 62. máli útbýtt fyrir helgi, en þetta er 57. mál.

Það er kunnara en frá þurfi að segja og öllum ljóst, að í öllum byggðum er nauðsynlegt, að til séu samkomuhús og félagsheimili fyrir ýmiss konar menningarfélög, er þar starfa. Þessi þörf er til staðar bæði í bæjum og sveitum. Þar sem strjálbýlt er, er mikil nauðsyn að halda uppi menningar- og skemmtanalífi. Ein orsök hins mikla straums nú undanfarið frá sveitum til þorpa er án efa sú, að unga fólkinu þykir vænlegra um skemmtanalíf í þéttbýlinu. Sízt er ástandið betra í þorpunum en sveitunum í þessu efni, en mjög mikil þörf er þar fyrir þróttmikið og lifandi menningarlíf, því að vinnan er þar yfirleitt fábreyttari en í sveitunum. Ég mun svo ekki orðlengja þetta en vísa til grg.

Það er langt síðan áhugi fór að vakna fyrir stofnun menningarfélaga og að koma upp samkomuhúsum í sveitum landsins, og munu fyrstu samkomuhúsin hafa verið reist upp úr síðustu aldamótum. Áttu ungmennafélögin mikinn þátt í því, er þau fóru að rísa upp. Eins og gefur að skilja, voru þessi fyrstu hús af vanefnum gerð, enda eigi gerðar eins miklar kröfur til bygginga þá eins og nú er.

Þegar heimavistarskólar fóru að rísa um landið, var það von ýmissa, að þeir gætu jafnframt verið félagsheimili og skemmtistaðir. Síðan munu nú liðin um 15 ár, og reynslan þessi ár sannar, að þar skiptir mjög í tvö horn. Hvort það hentar, fer eftir fjölmenni byggðarlagsins eða fámenni. Í fámennum sveitum getur þetta vel farið saman, enda hefur málið víða verið leyst á þann hátt, að leikfimisalir, sem eru við flesta skóla, eru jafnframt notaðir til skemmtifunda. En í fjölmenni er ekki hægt að leysa málið á þennan hátt, að samlaga félagaheimili og skóla. Það skapar átroðning í skólunum og hefur truflandi áhrif á starfsemi þeirra. Hafa kennarar og skólamenn oft kvartað undan þessu í ræðu og riti.

Menningarfélög eins og U.M.F.Í. hafa látið til sín heyra um þetta mál. Á síðasta þingi U.M.F.Í, sem haldið var á Norðurlandi í sumar, var skorað á Alþ. að taka málið til athugunar og veita félagaheimilum stuðning með framlagi úr ríkissjóði. Kvenfélög og skátar hafa og tekið í sama streng. Þessi félög vita bezt, hvar skórinn kreppir að, og því höfum við leyft okkur að flytja þetta mál.

Í 1. gr. er getið um, til hvaða félaga þetta skal ná, en það eru flest menningarfélög, sem ekki taka tillit til stjórnmálaskoðana manna.

Gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 1/3 kostnaðar og veiti lán fyrir 1/3. Gera má ráð fyrir, að ýmsum þyki hér of skammt farið, ef borið er saman við styrki til skólabygginga, en ríkið greiðir 1/4 kostnaðar við byggingu heimangönguskóla og 3/4 kostnaðar við heimavistarskóla, sökum þess að þeir eru miklu dýrari byggingar en heimangönguskólar. Nú mætti segja, að miða ætti framlag ríkisins til félagaheimila við framlagið til heimangönguskóla, en þar er að vísu ójöfnu saman líkt. Ríkið á að halda uppi fræðslu í landinu, og ber því að sjá um kostnað, er af því hlýzt, en hvað snertir félagaheimili, hefur ríkið ekki skyldur, en það er menningaratriði að stuðla að og halda uppi menningarstarfsemi í landinu.

Enn fremur felast í þessu frv. ákvæði til þess að tryggja aðstöðu ríkisins, ef félagaheimili yrði selt. Er þá lagt til, að styrkur sá, sem ríkið hefði veitt samkv. l. þessum, yrði endurgreiddur. Enn fremur er hér gerð grein fyrir væntanlegri aðstoð sveitarfélaga, en ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það nú við l. umr. málsins, enda geta hv. þm. gert sér grein fyrir því í grg., sem fylgir frv.

Þá er lagt til, að sá aðili, sem meta ætti þörfina á byggingu félagaheimilis á hverjum stað, sé íþróttanefnd ríkisins. Hún er skipuð þrem mönnum, einum frá Ungmennafélagi Íslands, einum frá Íþróttasambandi Íslands og hinum þriðja, sem er ráðunautur ríkisins, án tilnefningar. Okkur flm. finnst rétt, að þessi n. sjái fyrir þessum málum. Stuðningur á þessu sviði getur átt samleið með n. þeirri, sem fjallaði um íþróttalögin, og tel ég rétt, að sama n. meti slíka aðstoð í heild.

Ég hefði talið rétt, að allshn. hefði fjallað um þetta mál, en nú fyrir nokkrum dögum var sams konar frv., um byggingar í sveitum, lagt fyrir hv. menntmn. Teldi ég því rétt, að sú sama n. hefði með bæði þessi mál að gera.

Ég legg svo til, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.