14.11.1946
Neðri deild: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (4085)

69. mál, atvinnudeild háskólans

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Í maímánuði árið 1945 skipaði menntmrh. 6 manna nefnd til að gera till. um atvinnudeild háskólans og samband hans við þá stofnun. Atvinnudeildin hefur að vísu borið þetta heiti, en hefur ekki staðið í sambandi við háskólann og ekki verið deild úr honum.

Við meðferð málsins ræddi menntmn. það ýtarlega við sérfræðinga atvinnudeildarinnar, náttúrufræðinga og aðra, sem hlut áttu að máli. Í Ed. strandaði málið á því, að því vax vísað frá með rökst. dagskrá á þeim grundvelli, að það væri ekki nægilega undirbúið. Eigi kom þó fram, hvað á þótti skorta í því efni. Ég mun ekki ræða þetta mál mjög rækilega að sinni, en rekja lítils háttar þær meginbreytingar, sem gerðar eru með frv.

Fyrsta breyt. er, áð atvinnudeild háskólans skuli vera ein deild í Háskóla Íslands og standa í nánu sambandi við þá stofnun. Atvinnudeildin skal skiptast í þessar undirdeildir: Fiskideild, fiskiðnaðardeild, iðnaðardeild og landbúnaðardeild, og skal landbrn. hafa með höndum yfirstjórn þeirrar síðast töldu.

Önnur meginbreyt. er stofnun fiskiðnaðardeildar, og yrði hún skilin frá sjálfri fiskideildinni. Fiskiðnaður er sá iðnaður, sem menn ættu að gefa sérstakan gaum, því að hann kemur til með að verða sterkur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar, og deild þessi mundi verða til happadrjúgrar hagnýtingar krafta hinna mörgu og efnilegu manna, sem lagt hafa stund á fiskiðnað hingað til.

Þriðja breyt. er sú fjórskipting atvinnudeildarinnar, sem áður getur.

Fjórða meginbreyt. er sú, að taka upp kennslu í þeim greinum, sem að atvinnudeildinni lúta, og skulu sérfræðingar deildarinnar veita nemendum með stúdentsprófi eða öðru jafngildu prófi kennslu í þessum fræðigreinum: dýrafræði, grasafræði, jarðfræði, landafræði, stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Ekki er þó gert að skilyrði, að kennsla fari fram í deildinni sjálfri, heldur skal, eftir því sem þörf krefur, hafa samvinnu við aðrar deildir háskólans um að sjá nemendum fyrir þeirri kennslu í ofannefndum greinum, sem nauðsynleg er til undirbúnings prófs þess, sem ætlazt er til, að nemendur ljúki eftir 2–3 ára nám við deildina. Á þessu stigi málsins tel ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess, að hv. þm. taki frv. þessu vel og skilji gagnsemi þessara breyt.