20.11.1946
Neðri deild: 20. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (4106)

73. mál, byggingarstofnun ríkisins og byggingarfélög

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. — Ég ætla mér aðeins örfá orð, því að ég bjóst ekki við, að hv. 6. þm. Reykv. legði út í það að reikna hér dæmi fyrir okkur, sem hann og reiknaði skakkt. Menn verða að muna það, að frá árinu 1932 og fram á stríðsárin var lítill innflutningur á byggingarefni, og það var ekki það, að menn vildu ekki byggja á þeim tímum, að ekki var byggt, heldur skorturinn á byggingarefninu. Þetta atriði tók þessi hv. þm. ekki með í reikninginn.

Í öðru lagi er ekki hægt að draga ályktanir af skýrslum um þessi efni án þess að taka tillit til, að óstöðvandi straumur fólks hefur verið hingað til Reykjavíkur. Hitt er annað mál, að við verðum að reyna að leysa þetta ófremdarástand, sem nú ríkir í byggingarmálunum, á sem beztan veg. Í því get ég verið sammála hv. þm. Ég læt svo útrætt um þetta, en bendi aftur á, að fyrir stríð var við aðra örðugleika að stríða en nú. Þá voru það gjaldeyrisvandræðin, sem aðallega strandaði á og sköpuðu mestu erfiðleikana.