06.12.1946
Neðri deild: 33. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (4141)

96. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Mál þetta er flutt af mikilli nauðsyn. Það er ekki ástæða til að fara nákvæmt út í það hér, því að allýtarleg grg. fylgir. En þó skal það tekið fram, að fyrir árið 1921 var slæmt ástand í þessu efni. Unnu þá togarasjómenn sleitulaust, og hvíldartíma þeirra var mjög ábótavant, og mætti nefna mörg dæmi um, hvað sjómenn áttu við slæm kjör að búa. Var svo komið árið 1921, að Alþ. sá sig neytt til að samþykkja l. um ákveðinn hvíldartíma fyrir sjómenn. Margir risu þá upp og töldu, að togaraútgerðin mundi stöðvast við þessa lagasetningu. En þetta reyndist ekki rétt. L. voru samþ. og útgerðin blómgaðist, og svo fór, að allir töldu þetta nauðsynlegt. Árið 1928 breytti Alþ. hvíldartímanum úr 6 stundum í 8 stundir, og frá 1928 til þessa dags hefur það ástand haldizt, og eru því togarasjómenn bundnir við 16 stunda vinnu á sólarhring. Nú hefur sú breyt. orðið á, að verkalýðsfélög hafa hlotið viðurkenningu. Verkamenn í landi hafa 8 stunda vinnudag, en togarasjómenn 16 stunda, eða helmingi lengri, og er þó vitað, að vinna þeirra er hið mesta erfiði. Togarasjómenn hafa fundið þennan órétt og margir séð, að slíkt mátti ekki láta við svo búið standa. Það er yfirleitt viðurkennt, bæði af skipstjórum og útgerðarmönnum og þeim, sem þekkja til þessarar vinnu, að fyrstu 6 stundirnar eru afköstin mest. Má þess vegna halda því fram, að þótt þetta þýði, að vinnutíminn er styttur, þá muni afköstin ekki minni. Margir munu kannske segja, að frv. hafi aukinn kostnað í för með sér. Ég er á öðru máli. Stytting vinnudagsins þýðir aukin afköst, og þekkist þetta bæði til sjávar og sveita. Það er skoðun margra, sem til þekkja, að menn vinna mest fyrstu 6 stundirnar, og sést af því, að ekki yrði um mikinn kostnaðarauka að ræða. Árið 1942 var flutt sams konar frv., bundið við það, að sólarhringnum v æri skipt í tvær 12 stunda vökur. Meðal sjómanna eru skiptar skoðanir um þetta. Okkur flm. fannst rétt, að þetta væri óbundið, þannig að sjómenn gætu ráðið, hvort þeir vildu heldur hafa tvær 12 stunda eða fjórar 6 stunda vökur.

Um aðrar breyt. er það að segja, að útgerðin er látin bera ábyrgð á framkvæmd þessara l., sbr. 2. gr. Í 3. gr. er sektarákvæðum breytt, sem eðlilegt er, vegna breytts peningagildis, því að í l. segir, að 10 þús. kr. greiðist fyrir brot, sem áður greiddist með 5 þús. kr.

Frá 1942, þegar frv. var lagt fram, hefur sú breyt. orðið, að ég held, að þá hafi ekki verið almenn skoðun, að breyta þyrfti vinnutímanum, enda dagaði frv. þá uppi. Nú hefur sú breyt. orðið, að sjómenn hafa sannfærzt um, að meiri hvíld þýðir aukin afköst, og nú, þegar saltfiskveiðar eru að hefjast, sem reyna meira á vinnuþrek manna, er skoðun sjómanna, að hvíldartíminn sé lengdur, og álítum við, að sú skoðun eigi rétt á sér. Ég vil minnast á það, að á síðasta þingi alþýðusambandsins var samþ. samhljóða, að hvíldartími sjómanna væri aukinn.

Að síðustu er eitt atriði, sem athugandi er. Nú eru Íslendingar að stækka skipastólinn, og þegar stærri togarar koma, verður allt úthald lengra. Þess vegna er nauðsyn, að vinnutíminn sé styttur. Ég vænti þess, að hv. d. sýni þessu máli skilning og velvild, því að eins og ég hef sagt er þetta mikið nauðsynjamál. Ég vil svo óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.