19.12.1946
Neðri deild: 42. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að mæla fyrir þeim brtt. n., er hv. frsm. hennar hefur gert grein fyrir. Um þær varð fullt samkomulag í landbn., eins og þskj. 217 ber með sér. En á þskj. 220 er brtt. frá okkur hv. 2. þm. Skagf. um það, að 7. kafli falli niður, og öll n. leggur til, að 8. kafli falli niður, og hefur hv. frsm. gert grein fyrir ástæðunum til þeirrar niðurfellingar. 7. kafli fjallar um innflutning kynbótahrúta og tæknifrjóvgun. Ég lít svo á, að okkur vanti tilfinnanlega löggjöf um innflutning búfjár. núgildandi löggjöf í því efni er ófullnægjandi og gagnslaus. Hinni nýju löggjöf þarf að hraða sem mest og hana má ekki eingöngu binda við innflutning sauðfjár, hún þarf að ná til allra dýra, sem flutt eru inn. Það þarf ekki að gera ráð fyrir, að allur innflutningur lifandi dýra verði heftur um lengri tíma, dýr verða flutt inn á leyfilegan hátt, eða óleyfilegan, ef ekki vill betur til. Í ár hafa t.d. verið flutt inn hænsni og kjúklingar, sennilega eða sjálfsagt með einhvers konar leyfi. En þannig er það, að ekki þýðir að halda fram þeirri kenningu, að bannaður verði innflutningur allra dýra, spendýra og annarra. Fyrsta skilyrðið er, að dugandi löggjöf um þetta sé til. Hér þarf að fá sóttvarnarstöð og einangrun, og um það er einn kafli í frv., sem er ágætt að fá inn í sambandi við innflutning búfjár, og í því augnamiði. að sett verði almenn löggjöf um innflutning allra skepna, legg ég til, að 7. og 8. kafli frv. verði felldir niður. Ég hefði kosið, að 9. kafli væri einnig felldur niður, því að hann á einnig heima í almennri löggjöf um innflutning búfjár. Ég hef þó ekki viljað leggja það beint til, því að hann er ágætur út af fyrir sig og gott að fá hann inn, ef dragast kynni, að almenn löggjöf yrði sett um þetta efni, en þegar þar að kæmi, yrði að taka hann upp í almennu löggjöfina. Frá þessu sjónarmiði er ég því fylgjandi, að 7. kafli verði felldur niður, en tekinn upp í almenna löggjöf. Ég get búizt við, að hv. meðflm. minn hafi nokkuð öðruvísi sjónarmið um það, en við erum sammála um, að kaflinn verði felldur niður, eins og nú horfir. Ég lít svo á, að með tiltölulega stuttum undirbúningi sé hægt að setja almenna löggjöf um innflutning búfjár. Þetta mál hefur verið mikið undirbúið áður, og undirbúningi verður haldið áfram í samráði við yfirdýralækni og aðra sérfræðinga. Það er meginatriðið, að búa svo tryggilega um einangrun skepnanna, eftir að þær koma til landsins, að ekki hljótist tjón af vegna nýrra sjúkdóma. Ég hef sagt það áður og vil taka það enn einu sinni fram, að það er mesta fjarstæða af okkur, frekar en öðrum þjóðum, að ætla að girða okkur alveg af um innflutning dýra í sambandi við búfjárrækt. Og reynslan mun sýna, að þeim innflutningi verður haldið áfram þrátt fyrir þau mistök, sem orðið hafa í þessu efni. Ég ætla svo ekki að ræða þetta mál frekar almennt, og frsm. n. hefur gert grein fyrir brtt. hennar. Það má nú segja, að hvorki frv. né brtt. landbn. marki nýja stefnu í þessum málum. Þar er reynt að vinna bug á sjúkdómunum, eins og gert hefur verið að undanförnu, með girðingum, útrýmingu stofnsins og innflutningi ósýkts fjár. Ég vil ekki liggja á þeirri skoðun fremur en áður, að ég er lítt trúaður á, að þessar aðgerðir nægi til að útrýma þeim sjúkdómum, sem nú eru í landinu. Ef gera ætti alvarlega tilraun til að útrýma sjúkdómunum til fulls, nægja ekki heimildarlög til að ná því takmarki. Þá yrði að taka þetta mál allt öðrum tökum og sennilega gripa til meira valdboðs, en hér hefur verið gert, og væri þó tvísýnt um alveg fullkomna útrýmingu. En fjárskipti geta þó haft sína þýðingu. Reynslan hefur sýnt, að með þeim er hægt að fá hraustan fjárstofn, er skilar nálega fullum arði, a.m.k. um nokkurt árabil. En ég taldi þó rétt að taka fram, um leið og ég mælti fyrir brtt. okkar á þskj. 220, að ég hef persónulega ekki mikla trú á, að þetta frv. marki tímamót varðandi útrýmingu sjúkdómanna, þótt það yrði samþ. En mér er vel ljóst, að það er erfitt að finna örugg úrræði. Læt ég svo máli mínu lokið.