09.12.1946
Neðri deild: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (4169)

99. mál, hlutatryggingafélög

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Árið 1939 var stofnaður í Bolungavík sjóður sá, er nefnist Tryggingarsjóður sjómanna. Að stofnun hans stóðu útgerðarmenn og sjómenn í Bolungavík. Tilgangur sjóðsins var að tryggja sjómönnum ákveðnar lágmarkstekjur af atvinnu sinni, þegar illa áraði. Tekna skyldi aflað þannig, að 2% af brúttóafla þeirra báta, er frá Bolungavík stunduðu sjó, skyldu árlega renna í tryggingarsjóð: Útgerðin í Bolungavík hefur greitt tilskilin gjöld í sjóðinn, og var hann 1. júní s.l. orðinn 148411,05 kr. Hefur nokkrum sinnum verið úthlutað fé úr honum til uppbótar á hluti sjómanna. Þegar sjóður þessi var stofnaður, hafði enginn slíkur sjóður verið stofnaður á öllu landinu. Sjómenn í Bolungavík hafa því í þessu máli verið algerir brautryðjendur. Það sýnir sig, að stofnun sjóðsins hefur þótt skynsamleg, því að víðar á landinu hafa nú verið stofnaðir sjóðir með svipuðu fyrirkomulagi og þessi. — Upprunalega mun það hafa verið hugmyndin, að hlutir útgerðarmanna og sjómanna yrðu bættir jöfnum höndum. En framkvæmdin hefur orðið sú, að einungis hlutir sjómanna hafa verið bættir. Tryggingarsjóður Bolvíkinga hefur, eins og að líkum lætur, lengstum verið févana. Hann hefur samt greitt nokkrar tryggingar, sem bót hefur verið að. Sjóðurinn hefur einskis styrks notið af opinberu fé. Nú er það ætlun þeirra, sem að sjóðnum standa, að breyta nokkuð fyrirkomulagi hans og hagnýta sér fyrstir manna l. þau, sem sett voru á Alþ. haustið 1943, og stofna hlutatryggingarfélag samkv. þeim og láta þá sjóðinn, sem nú er tæpar 150 þús. kr., renna í hið nýja hlutatryggingarfélag. Til þess að hægt sé að gera þetta, telja þeir nauðsynlegt, að gerðar verði nokkrar breyt. á l. um hlutatryggingarfélög. Þess vegna er þetta frv. flutt. Breyt. þær, sem í frv. felast, eru þessar:

Í fyrsta lagi, að hundraðshluti sá sem greiða ber af brúttóafla, verði hækkaður úr 0,7% í 1%. Þeim finnst þetta gjald of lágt og vilja fúsir hækka það í 1%, eins og áður segir.

Þá er það önnur breyt. Hún er gerð við 6. gr. l. og er á þá leið, að hlutatryggingarsjóðum verði aðeins varið til þess að bæta upp aflahluti skipshafna, ekki hluti útgerðarinnar. Það var upphaflega þannig, að rætt var um það, að hlutir útgerðarmanna og sjómanna skyldu bættir jöfnum höndum, en nú æskja sjómenn þess, að það verði aðeins hlutur sjómanna, sem bættur verður. Ég verð að segja það, að ég hef löngum verið iðinn við að flytja frv. sjávarútveginum viðkomandi, og ég er með því að hlutur hvorra tveggja, sjómanna og útgerðarmanna, verði bættur. Ég sá þó ekki ástæðu til annars en að flytja frv.

Þriðja breyt. er sú, að farið er fram á það, að hlutatryggingarsjóði Bolvíkinga verði með bráðabirgðaákvæðum greitt framlag úr ríkissjóði fyrir þau ár, sem liðin eru, síðan l. um hlutatryggingarfélög voru sett, þ.e.a.s. frá 1. jan. 1944. Það er þó aðeins ætlazt til, að framlag ríkissjóðs verði það, sem l. áskilja nú, en ekki það, sem brtt: frv. þessa fer fram á. Tryggingalöggjöfin var samþ. árið 1943, og við flm. teljum eðlilegt, að ríkissjóður greiði tilskilið gjald í hlutfalli við hlut sjómanna og útgerðarmanna. Þessi stuðningur, sem ríkissjóður veitti, mundi kosta hann sáralítil útgjöld.

Þetta eru þær þrjár breyt., sem í frv. felast, og ég sé ekki ástæðu til frekari umr. um málið. Þm. geta kynnt sér það á þskj. Það er skoðun okkar flm., að það beri að stuðla að eflingu hlutatrygginga almennt í landinu. Bolvíkingar hafa riðið á vaðið í þessum efnum. Þess vegna verður að vænta þess, að óskum þeirra, sem í þessu frv. felast, verði vel tekið. Ég leyfi mér að lokum að óska þess, að málinu verði að þessari 1. umr. lokinni vísað til 2. umr. og sjútvn.