19.12.1946
Neðri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (4177)

107. mál, bátaútvegurinn o.fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég sendi hv. fjhn. þetta frv. með beiðni um, að hún flytti það hér á Alþ., en svo einkennilega brá við, að 4 af nm. sáu sér ekki fært að flytja frv., svo að það er aðeins flutt af minni hl. n. Þetta mun nokkuð óvenjulegt, því að vitanlega er ekki til þess ætlazt, þó að ráðh. biðji að flytja mál, að nm. taki afstöðu til málsins í heild eða einstakra atriða, þó að þeir flytji þannig málið sem nm.

Viðhorfið til sölu sjávarútvegsafurða okkar er mjög líkt því, sem var á fyrri vertíð um sama leyti. Sem sagt, það ríkir óvissa um, hvaða verð fæst fyrir sjávarútvegsafurðir. Í fyrra var útlitið þannig, að ef ekki væri hægt að slá neinu föstu um verð á frosnum fiski og ef ekki fengist 50 aurar eða meira fyrir kg. af honum, þá var varla búizt við, að hægt yrði að fá menn á bátana þegar í vertíðarbyrjun. Það fór svo, að allir voru sammála um það í fyrra, að það væri nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til að tryggja það, að bátaútgerðin gæti hafizt í vertíðarbyrjun. Og ég býst við því, að menn séu sammála um það, að ekki megi frekar nú láta reka á reiðanum í þessu efni. Í fyrra voru gerðar tvenns konar ráðstafanir í þessu máli. Í fyrsta lagi, að ríkið ábyrgðist allt að 5 aura hækkun á hverju kg. af frystum fiski, þó þannig, að verðið yrði ekki með þessari ábyrgð, ef það v æri 50 aurar eða meira pr. kg. Gert var ráð fyrir, að í mestu fiskihrotunum yrði að salta nokkurn hluta aflans, og þess vegna var tekin sú ákvörðun, að ríkið ábyrgðist visst verð fyrir kg. af saltfiski, miðað við visst magn, og var sú ákvörðun tekin til þess að tryggja frystihúsunum öruggari afkomu. Í fyrra var verðið 98 aurar fyrir hvert enskt pund af hraðfrystum flökum, að því er ákveðið var. Vitað var þó, að Englendingar höfðu haft við orð að kaupa engan fisk af framleiðslu þessa árs. Engan veginn var þá hægt að segja um, hvort flökin seldust á þessu verði, og átti því ríkissjóður á hættu að þurfa að greiða mismuninn. Þetta fór þó svo, að ekki kom til þess, að ríkissjóður þyrfti neitt að greiða. Afurðirnar seldust fyrir nægilega hátt verð, nefnilega 1,10 kr. Nokkuð seldist til Englands og Ameríku fyrir enn þá hærra verð, og þurfti ríkið því ekkert að greiða, en ákveðið var, að það, sem salan yrði yfir 1,10 kr. og undir 1,12 1/2 kr., skyldi renna í ríkissjóð. En þannig fór í fyrra, að salan tókst fram yfir allar vonir. En allar þær aðstæður, sem voru í fyrra, eru nú einnig fyrir hendi. En það, sem nú ber að leggja aðaláherzluna á, er það að koma flotanum af stað, því að vertíðin verður að byrja innan ákveðins tíma, og ef ekki verður nú þegar hafizt handa, þá glatast dýrmætur tími, og yrði það óbætanlegt tjón fyrir þjóðarbúið og enn þá tilfinnanlegri skaði fyrir ríkissjóð en þó að hann þyrfti að greiða eitthvað vegna sjávarútvegsins. sem alls ekki er víst að verði. Þegar talað var um það í fyrra að ákveða saltfiskverðið 1,70 kr., töldu allir, sem kunnugir voru þeim málum, að það verð væri allt of hátt. Síðan var þó reynt að selja fiskinn með þessu verði, og tókst það, og er ekki útilokað, að hægt hefði verið að selja hann fyrir enn hærra verð, en allir bundu sig við 1,70 kr., því að það var ábyrgðartala ríkissjóðs. Sjávarafurðir okkar hafa undanfarið hækkað stöðugt í verði, einkum þó síldarlýsi og saltsíld. Þetta eru mjög eftirsóttar vörur, og ef sala þeirra væri bundin þeim skilyrðum, að kaupendur þeirra keyptu einnig aðrar fiskafurðir okkar, er ekki ómögulegt, að hægt væri að selja fiskframleiðsluvörurnar með hærra verði en í fyrra.

Samkvæmt því frv. á þskj. 191, er hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því að hækka verðið á ferskum fiski, þorski og ýsu úr 50 aurum upp í 65 aura hvert kg. Þessi hækkun, 30%, er allmikil, en eftir nákvæmar athuganir, gerðar í samráði við fiskimenn og aðra þá, er hlutlausir eru, var komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi hækkun væri brýn nauðsyn. Aðrar fisktegundir skulu svo hækka í samræmi við þetta, að fengnum tillógum Landssambands íslenzkra útvegsmanna.

Allir vita, að þýðingarlaust er að setja svo hátt verð á fiskinn, ef ekki er jafnframt tryggður markaður fyrir hann. Er því í 2. gr. gert ráð fyrir því, að ríkið tryggi hraðfrystihúsunum 1,33 kr. fyrir hvert enskt pund af hraðfrystum þorsk- og ýsuflökum, og er þetta gert í samráði við eigendur hraðfrystihúsanna, en þó telja þeir þetta helzt til lágt, en þá er gert ráð fyrir því, að takast megi að flytja fiskinn fljótt út, svo að hraðfrystihúsin þurfi ekki að stöðva reksturinn vegna skorts á geymsluplássi. En það er afar mikil nauðsyn, að hægt sé að flytja fiskinn fljótt út, því að ef hann liggur lengi í geymslu, er hætt við, að hann skemmist, og eru nú t.d. 27 þús. kassar af fiski, sem eru orðnir svo skemmdir af geymslu, að þeir uppfylla ekki þau skilyrði um vörugæði, sem tilskilin eru í viðskiptasamningum við Sovétríkin. Ekki er ástæða til að ætla, að verðið verði lægra en 98 aurar, þar sem lægsta verð í fyrra var 1,121/2 kr., og er vel hugsanlegt að selja megi fiskinn fyrir hærra verð en í fyrra, jafnvel 1,33 kr., ef rétt er á haldið og sala síldarlýsis t.d. bundin því skilyrði, að einnig sé keyptur hraðfrystur fiskur. Er því ekki ástæða til að ætla, að ríkissjóður þurfi neitt að greiða vegna hraðfrysta fisksins. Gert er ráð fyrir í 2. gr., að ríkissjóður ábyrgist tilsvarandi verðhækkun á öðrum fisktegundum en þorski og ýsu, en ekki var talið fært á þessu stigi að kveða nánar á um verðið eða fisktegundirnar. Það er ákaflega flókið mál að ákveða það, og þarf margs að gæta í því sambandi, t.d. markaðsmöguleika. ríkissjóður getur ekki ábyrgzt allar fisktegundir eins, t.d. flatfiska ýmsa, sem litill markaður hefur verið fyrir. En um þetta ber að hafa samráð við Landssamband íslenzkra útvegsmanna og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.

Í 3. gr. er svo gert ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgist sölu á 30 þús. tonnum af saltfiski á 2,25 kr. hvert kg. Þetta er nokkur breyt. frá því í fyrra, en þá var gert ráð fyrir mun meiri ísfiskmarkaði í Englandi. En þótt Englendingar hefðu hagstæða samninga, var ísfiskmarkaðurinn ótryggur, og fór svo, að Englendingar settu toll á ísfiskinn og gerðu önnur ákvæði, er torvelduðu innflutning íslenzkrar ísfisksframleiðslu. En við þessu er að vísu ekkert að segja. Englendingar hugsa eðlilega fyrst og fremst um eigin sjómenn. En þá verðum við að hugsa um okkar hag, t.d. með því að setja það skilyrði fyrir sölu síldarlýsis, að einnig sé keyptur annar fiskvarningur. Nú má búast við, að ef sú hækkun, sem ráðgerð er í frv., gengur í gildi, þá verði enginn markaður fyrir ísfisk í Englandi, og þarf þá að salta mikið af aflanum, þó ber að leggja höfuðáherzluna á rekstur hraðfrystihúsanna, og er í því sambandi mjög mikilsvert að gera viðskiptasamninga hið fyrsta, svo að hraðfrystihúsin fyllist ekki, því að geymslupláss þeirra er mjög takmarkað og einnig takmarkað, hvað lengi má geyma fiskinn. Hraðfrystihúsin hafa verið í hröðum vexti, og hefur raunar aldrei reynt á, hve mikið þau geta fryst, vegna þess að þau hafa stöðvazt vegna skorts á geymsluplássi, og t.d. í fyrra var viðskiptasamningurinn við Ráðstjórnarríkin gerðu svo seint, að engin afskipun var gerð á vertíðinni þá. En það má ekki koma fyrir, að hraðfrystihúsin geti ekki fryst meira magn en geymslur þeirra einu sinni taka. Verður því að gera viðskiptasamninga fljótt til þess að tryggja skjótan útflutning, og einnig minnkar „kvalitet“ fisksins við geymsluna. Allmikil verðhækkun er ráðgerð á saltfiskinum, og byggist það á þeirri reynslu, er fékkst í fyrra. Gert er ráð fyrir 30 aura hækkun í samræmi við hækkunina á ferskfiskinum og auk þess 25 aura hækkun, því að í fyrra var saltfisksverðið of lágt, en það er nauðsynlegt að hafa fiskverðið svo hátt, að menn sjái sér hag í að salta. Ég býst ekki við, að menn fáist til að salta upp á þau kjör að fá ekki uppgert, fyrr en eftir alla vertíðina eða enn seinna, þegar menn geta fengið vinnu í landi, þar sem er útborgað vikulega. En saltfiskverðið er haft svo hátt, til þess að menn hafi þar hagnaðar von, einmitt með tilliti til þess, að ekki er búizt við ísfiskmarkaði. En ekkert yrði áhættuminna, þó að ríkið sjálft færi að salta.

Í 4. gr. þessa frv. er svo lagt til, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast verð á fiski, sem öðruvísi er verkaður en í salt og frost, t.d. á niðursoðnum fiski, ef til þess kæmi, og í 5. gr. er gert ráð fyrir. að ríkisstj. sé heimilt að kaupa fisk til útflutnings, eftir því sem þörf krefur og henta þykir, t.d. ef markaðsmálum er þannig háttað, að slíkt verði nauðsynlegt, þá er rétt að ríkisstj. hafi heimild til þessa, en til þess kemur tæplega. Í Englandi er ísfiskmarkaðurinn þrotinn og erfiðleikar á sölu ísfisks í Mið-Evrópu. Er þá ekki um aðra kaupendur að ræða en Ráðstjórnarríkin. Barst þetta í tal í fyrra, er viðskiptasamningurinn var í undirbúningi, og var ekki talið útilokað að selja þangað ísfisk, sem væri þá fluttur til Kaliningrad (Königsberg). Þetta gæti náttúrlega aðeins átt sér stað um vetrarmánuðina, því að á sumrin er sjávarhiti allt of mikill í Eystrasalti.

Ég hef nú gert grein fyrir öllum höfuðatriðum þessa frv. Ég hef heyrt, að það sé af sumum talið mjög glæfralegt, og hafa sumir haldið því fram. að ég væri hér í fullu ábyrgðarleysi að binda ríkissjóði óbærar byrðar. Ég neita því ekki, að svo getur farið, að einhverjar fjárhagskvaðir falli á ríkið, og ef miðað er við lægsta verð í fyrra, gæti sú upphæð numið allt að 30 millj. kr. Þetta er óneitanlega gífurleg upphæð, en ég leyfi mér að benda á, að sumt af hraðfrysta fiskinum seldist í fyrra fyrir hærra verð en núverandi ábyrgðarverð er, og er því sennilegt, ef rétt er á okkar málum haldið, að engar kvaðir falli á ríkissjóð vegna hans. Verðið á saltfiskinum er miðað við það, að menn fáist til að salta, og eru hans vegna engar fyrirsjáanlegar greiðslur fyrir ríkið, og ef við höldum rétt á okkar útflutningsverzlun, t.d. með því að binda sölu síldarafurða þeim skilyrðum, er ég áður hef nefnt, þá er fjárhagsáhætta ríkissjóðs vegna frv. þessa orðin innan við 7 millj. kr. Þetta eru að vísu tölur, sem ekki er hægt að taka alveg ábyrgð á.

Það er rétt að gera nokkra mynd af þeim horfum, sem fyrir eru, og þeim möguleikum, sem við höfum til bjargráða. Ýmsir menn hafa bent á þá leið, að það kæmi til mála að setja einhvers konar verðjöfnun á milli síldarverðs og fiskverðs. Hvað við kemur ábyrgð ríkisins, þá finnst mér það glæfralegt að láta vera að tryggja útveginn. Ef við tryggjum útveginn örugglega, þá er það tryggt, að við fáum gjaldeyri, en það er skilyrði fyrir blómlegu atvinnulífi. Allar atvinnugreinar byggjast á því. Ef útvegurinn stöðvast, þá leiðir það af sér hrun yfir allt atvinnulífið. Okkur ber að forðast það. Ef við spörum ríkissjóði þær milljónir, sem þarf til ábyrgðanna, þá eru það aðeins þær milljónir, en þá fáum við engan gjaldeyri, sem vel heppnuð vertíð veitir. Þess vegna er meiri áhætta að tryggja ekki, og ég bendi á, að Alþ. sá sér kleift á s.l. ári að fella niður 15–20 millj. kr. skatt, veltuskattinn, og væri það ekki nema sanngjarnt, að verzlunin bætti upp þann kostnað, sem ríkissjóður yrði að þola með tryggingu útvegsins, og þá áhættu af því, enda nýtur verzlunin bróðurparts þess gjaldeyris, sem útvegurinn skapar.

Frv. þetta er ekki flutt né samið af stj. í heild. Þar sem einstakir ráðh. gegna hinum ýmsu málum, sem undir þá heyra, þá er ekkert eðlilegra en að þeir gefi Alþ. skýrslu og raði þau vandamál, sem fyrir eru. Þetta frv. tel ég tryggja rekstur komandi vertíðar.

Að lokum vil ég lýsa því yfir, að ráðh. Sósíalistaflokksins munu ekki sjá sér fært að gegna störfum, fái þetta frv. ekki fram að ganga.