19.12.1946
Neðri deild: 42. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mikið út í ræðu fyrri þm. Skagf. eða þrátta um það, hvort hér sé um nýja stefnu í þessum málum að ræða, enda hefur hv. þm. S–Þ. tekið af mér ómak með sinni ræðu. Það er langt frá því, að ég eða aðrir bændur höfum óskað eftir því að fara inn á fjárskiptaleiðina, en við höfum ekki séð annars kost. Fjöldi bænda, og þar á meðal ég, vonuðu, að þessi veiki mundi ganga sem farsótt, en rasa síðan út, en reynslan er á annan veg. Féð hrynur niður, og ekkert hægt við að gera. Þess vegna er þessi leið eina úrræðið til að vinna bug á veikinni, þó að það sé engan veginn tryggt. Varðandi brtt. á þskj. 220, um að fella niður 7. kafla, þá er það svo, að ég, 5. landsk. og 8. þm. Reykv. erum því mótfallnir í n. Við teljum nauðsynlegt, að 7. og 9. kafli haldist.

Ég er mjög á móti því að flytja inn í landið erlend dýr, en ég vil þó ekki ganga svo langt að útiloka alveg, að hrútar verði fluttir til tilrauna, en hins vegar tel ég um það þurfa mjög strangt eftirlit.

Það hefur komið fyrir, að flutt hafa verið inn í landið dýr í algerðu leyfisleysi. og hefur það komið dýralækni í mestu vandræði. Slíkt er algert lögbrot, sem alls ekki má eiga sér stað.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 219, um breyt. á orðinu „karakúl“ í „sauðfjár“. Ég tel þessa brtt. alls ekki rétta, sökum þess að við höfum svo marga sauðfjársjúkdóma. sem þessi l. alls ekki eiga að ná til, eins og t.d. kláða, lungnabólgu o.fl. En það virðist eðlilegt, að þessir sjúkdómar, sem um ræðir í þessum lögum, séu kenndir við sinn uppruna hér, þ.e. í hinu aðflutta karakúlfé. Það kom að vísu fram hér við 1. umr., að talið var mjög vafasamt um þennan uppruna og ekkert sannað um það. Sem svar við þessu vil ég benda á það, að allir okkar færustu menn, sem glímt hafa við þessa veiki, telja engan efa á því, að hún hafi hingað borizt með karakúlhrútum, má þar nefna prófessor Dungal o.fl., og virðist þá alveg eins mega tala hér um karakúlsjúkdóma, eins og talað hefur verið um spánsku veikina, svartadauða o.fl. Það má segja, að þetta sé ekki stórt atriði, en ég tel það hótfyndni að vera að gera málalengingar út af því, þó að sjúkdómur sé kenndur við uppruna sinn. Ég fjölyrði svo ekki frekar um þetta að sinni.