19.12.1946
Neðri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (4181)

107. mál, bátaútvegurinn o.fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég býst við því, að ástæðan fyrir þeim ummælum hv. þm. V-Ísf., að þetta mál heyrði ekki undir mig, en ríkisstj. í heild, sé sú, að hann heyrði ekki ræðu mína. Það er mjög algengt í frv., að láta standa, að ríkisstj. geri eitt eða annað, þótt einstakur ráðh. flytji mál, sem heyra undir hann. Mitt verkefni var í þessu tilfelli að vara þing og ríkisstj. við þeim voða, sem var á ferðum, og byggist það einkum á því, að sú ríkisstj., sem nú situr, er mjög óvenjuleg og þeir, sem hana skipa, eru aðeins menn, sem sinna ráðherrastörfum um stundarsakir. Hitt er annað mál, að ekki má ætla, að allar skuldbindingar ríkissjóðs heyri undir hæstv. fjmrh., en geta heyrt undir hvaða ráðh. sem er.

Hvað við kemur ræðu hæstv. forsrh., þá er ég dálítið undrandi yfir ummælum hans, að þetta frv. hefði orðið til á einkennilegan hátt. Ég tel, að nú sé orðið það áliðið, að ekki hefði mátt seinna vera, að þetta mál kæmi hér fram. Fram að þessu hefur ekkert verið gert í þessum málum, og má kannske ásaka mig, að ég hafi vanrækt skyldu mína. Eins og sakir standa, er vafasamt, hvort útvegurinn geti ráðið til sín menn fyrir komandi vertíð. Er því ekki hægt að draga afgreiðslu þessa máls lengur og segja útgerðinni, hvers hún má vænta. Ég kom því fram með þetta mál aðeins vegna nauðsynjar. Annað er ekki til í dæminu. Landssamband útvegsmanna hefur ákveðið að hreyfa ekki skipin, fyrr en búið er að gera ráðstafanir í þessu máli, sem teljast megi eðlilegar. Ég tel það fullsannað, að þess er full þörf, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir ákveðið verð. Það er óhjákvæmilegt skilyrði til þess að koma útgerðinni af stað. Það var því nauðsynlegt, að málið kæmi fyrir þingið, svo að það gæti tekið sína afstöðu og gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að koma útgerðinni af stað.