16.12.1946
Neðri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (4183)

107. mál, bátaútvegurinn o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Það er fyrst viðvíkjandi flutningi hæstv. atvmrh. á þessu frv. Rök hæstv. ráðh. fyrir þessari óvenjulegu málsmeðferð eiga að vera þau, að málið hafi verið komið í eindaga og ekki hafi verið annar kostur fyrir hendi til að flýta fyrir málinu. En hafi þetta vakað fyrir hæstv. ráðh., þá hefur honum áreiðanlega mistekizt. Hafi aftur á móti vakað fyrir ráðh. að setja sinn pólitíska stimpil á frv. og eigna sér það, en ekki stj., þá er það skiljanlegt, að ráðh. flutti þetta stórmál inn í þingið án þess að hafa samvinnu um það við samstarfsflokkana í ríkisstj. Ef hæstv. ráðh. hefði viljað fá skjótan endi á þetta bundinn, þá vissi hann líka, að leiðin var sú að tala við okkur um málið, einkum þar sem honum var ljóst, að ég hafði fyrir nokkrum vikum rætt um þetta við báða samstarfsflokka mína í ríkisstj. Og ég endurtek það, að ég tel, að fyrir hendi hafi verið möguleikar til þess að leysa þessi mál þannig, að útgerðin hefði mátt við una, án þess að það hefði haft raunverulega áhættu í för með sér fyrir ríkissjóð.

Ég vil vegna þess, sem hv. 1. þm. S–M. sagði, leiða athygli manna að því, að það er fleira en vöxtur vísitölunnar, sem veldur því, að útgerðin þarf að fá hærra fiskverð en hún nú fær. Ég hef heyrt fróða menn minnast á það, að vísitalan þyrfti að vera 220 stig, ef útgerðin ætti að standa undir 50 aura verði á fiski. Varðandi spurningar hv. þm. um það, hvort ekkert hafi verið gert til þess að afla markaða, þá vil ég í fyrsta lagi segja frá því, að í októbermánuði átti hæstv. atvmrh. tal við mann, sem hér hafði dvalið, hr. Semenow, umboðsmann frá Exportkhlub, sem er innkaupastofnun Sovétríkjanna og sú stofnun, sem Íslendingar sömdu við um afurðasölurnar á s.l. vori. Þessi maður lét í ljós, að Sovétríkin mundu hafa áhuga á því að kaupa mjög mikið magn af íslenzkum sjávarafurðum eða jafnvel allar, sem Íslendingar framleiddu til útflutnings. Eftir því sem hæstv. atvmrh. tjáði mér og eftir því sem staðfest var af öðrum mönnum, sem áttu tal við hr. Semenow, þá lá það nokkuð víst fyrir, að ef Sovétríkin gætu fengið verulegt magn af síldarolíunni íslenzku og þorskalýsi, þá mundu þau kaupa verulegt magn af þeirri vöru, sem Íslendingar óskuðu helzt að selja. Í bréfi, sem Landssamband ísl. útvegsmanna skrifaði atvmrh. að gefnu tilefni, þar sem rætt var um verðhugmyndir, var talað um tvenns konar verð. Annað var 25 aurum lægra en það, sem frv. atvmrh. fer fram á, en rætt var um, að Íslendingar þyrftu að fá nokkru hærra verð fyrir hraðfrystan fisk en áður. Og mér hefur skilizt á hæstv. atvmrh. og n., sem tilnefnd var til þess að tala við hr. Semenow, að ekki þyrfti að stranda á þessu. Hins vegar skal ég viðurkenna það, að fram kom ákveðin tregða frá hendi Íslendinga um að láta strax þá vöru, sem Rússar óskuðu helzt eftir að fá. Þetta mun hafa komið fram við umboðsmann Exportkhleb. N. átti tvo fundi með herra Semenow, 24. og 29. okt. Á fyrri fundinum kom í ljós, að hr. Semenow taldi, að Sovétríkin hefðu áhuga á að kaupa sjávarafurðir Íslands, en þó að því tilskildu, að þau fengju verulegt magn af síldarolíu og þorskalýsi. En þar sem ekki lá fyrir verðtilboð um neinar þessar vörur, ákvað n. að beita sér fyrir að leita slíkra tilboða. Síldarútvegsnefnd kvaðst ekki geta gert nein tilboð . vegna þess: 1) að ógerlegt væri að ákveða ferska verðið, meðan ekkert væri vitað um verð á bræðslusíld, 2) ekkert væri vitað um, hvort atvmrh. fæli n. sölu síldarinnar að ári, og 3) kosning ætti bráðlega að fara fram í n., og vissi því enginn, hverjir skipuðu n. næsta ár. Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins kvaðst ekki hafa hugsað sér að bjóða síldarolíu að sinni, þar sem verð færi mjög hækkandi. Svipað svar fékk n. frá þeim, er aðallega fara með sölu þorskalýsis. Þessir aðilar vildu sem sagt ekki gera nein verðtilboð, nema því aðeins, að ríkisstj. krefðist þess af þeim og tæki jafnframt þessi mál í sínar hendur. Þannig stóðu málin, þegar ég átti tal við samstarfsmenn mína um það, hvort ekki væri rétt, að ég kallaði saman sem utanrrh. nokkra þá aðila, sem hér áttu hlut að máli, og reyndi að knýja fram tilboð í þá vöru, sem Sovétríkin óskuðu eftir að fá, en það taldi ég nauðsynlegt til þess að geta tryggt hagsmuni útvegsins á öðrum sviðum, enda var það ekki nema sanngjarnt, að þeir, sem vildu kaupa fiskafurðir okkar, fengju einnig verulegt magn þeirrar vöru, sem þeir óskuðu meir eftir. Um þetta var svo haldinn fundur í utanrmn. 24. okt., að ég hygg, og samkv. skýrslu, sem um það hefur verið gefin til hæstv. atvmrh., var niðurstaða fundarins þessi: Þar voru mættir níu menn frá ýmsum greinum sjávarútvegsins, og þar með tveir nm., sem atvmrh. hafði skipað til þess að semja við Semenow, umboðsmann frá Exportkhleb. Svo gefa þeir skýrslu, þessir nm., til atvmrh., og í henni segir:

„Í lok þessa fundar lýsti forsrh. yfir því sem niðurstöðu fundarins, að fulltrúar íslenzkra framleiðenda væru fúsir til þess að hefja nú þegar viðræður og samningaumleitanir við fulltrúa ríkisstj. eða verzlunarstofnana Sovétríkjanna um viðskipti milli landanna. Hins vegar óskuðu þeir ekki að nefna verð eða magn, fyrr en samningarnir hæfust við menn með umboði, en hann fyrir sitt leyti óskaði, að það gæti orðið sem fyrst, helzt innan viku eða svo. Bezt taldi hann, ef samningar gætu farið fram hér á landi, en þó væri það ekki nein krafa. Bað hann þá nm., sem mættir voru á fundinum, að tilkynna hr. Semenow þessa niðurstöðu fundarins.

Daginn eftir, 29. október, boðaði nefndin hr. Semenow til sín. Á þeim fundi voru hinir sömu og á fyrri fundinum, 24. október.

Skýrðum vér hr. Semenow frá því, að oss hefði ekki tekizt að fá fram tilboð, eins og vér höfðum lofað að reyna, en sögðum honum frá fundi þeim, sem forsrh. hafði haldið daginn áður, og hvað hann hefði sagt í fundarlokin. En frá því er greint hér að framan.

Hr. Semenow spurði, hvort hann mætti síma þessi ummæli forsrh. til Moskvu og bera hann fyrir þeim, og svöruðum vér játandi. Hann kvaðst þá mundu gera það. Bjóst hann við, að það mundi taka nokkra daga að fá svar að austan, en hann mundi láta n. vita, þegar svarið kæmi.“

Í lok þessarar sömu skýrslu, sem er dagsett 13. nóvember 1946, segir einnig frá því, að hr. Semenow sé farinn af Íslandi og muni varla væntanlegur hingað til landsins aftur fyrr en eftir tvær vikur, og lýkur skýrslunni á þessa leið:

N. hefur því komið sér saman um að beina því til yðar, herra atvmrh., hvort ríkisstj. mundi ekki telja rétt að leita eftir því með milligöngu utanríkisþjónustunnar, að þessum málum verði hraðað, svo sem unnt er.“

Ég hef fengið þessa skýrslu og tel heimilt að skýra frá þessu. En ég hef ekki fengið nein tilmæli um það frá hæstv. atvmrh. að hefjast handa í málinu. Ég gerði mér vonir um, að hr. Semenow mundi koma aftur, til þess að eitthvað væri hægt að gera í málinu, og ég hygg, að hans muni vera bráðlega von hingað. En vegna þess að dregizt hefur, að hr. Semenow kæmi úr för þessari, sem sjálfsagt stendur í sambandi við það, að hann er mikils virtur maður hjá stjórn sinni og stjórn Sovétríkjanna stendur í samningum við mörg ríki, og af því að við erum sjálfsagt ekki þeir einu menn í veröldinni, sem þeir þurfa að tala við um víðskiptamál, — vegna þess að koma hr. Semenow hingað aftur hefur dregizt, sneri ég mér til sendiráðs okkar í Moskvu og lagði fyrir það að óska, að hraðað yrði svari um það, hvort Sovétríkin vildu senda hingað nefnd, og ef ekki, hvenær við mættum senda samninganefnd. Tjáði sendiráðið, að dráttur á svari mundi stafa af margvíslegum önnum, en ekki af því, að Sovétríkin hafi ekki hug á að kaupa vörur okkar. En ég hygg, að hr. Semenow hafi sagt við hæstv. atvmrh., að málið væri í athugun. En það er ekkert undarlegt um eitt af stærstu ríkjum heims, þegar það fær skilaboð um, að við viljum selja þeim afurðir okkar, þó að stjórnendur þessara mála hjá því telji sig ekki tilbúna á þeirri stundu að tala við okkur um þetta. Við höfum reynslu fyrir okkur í þessum efnum. Svo var það í fyrra, þegar við leituðum hófanna um samninga við Sovétríkin. Það var fyrst orðað sem möguleiki, þegar Pétur Benediktsson og Einar Olgeirsson voru í Moskva í októbermánuði. Þá munu þeir hafa orðað það, hvort Sovétríkin mundu vilja gera samninga um kaup á okkar vörum. En ég man ekki, hvort það var fyrr en í febrúar eða marz eitthvað var það um það bil —, að svar kom um þetta. Það þarf oft að bíða þannig eftir svari frá ríkjum í svona málum, meðan þau eru í athugun. Ég geri mér þess vegna fullkomlega vonir um, að Sovétríkin muni vera fús til þess að kaupa af okkur mikið magn af vörum okkar, og ég býst við, að ýtt hafði verið eftir svari um þetta frá þeim, eftir því sem eðlilegt þykir. En við getum ekki gengið inn í ráðuneyti hjá stórveldi og sagt: „Við erum nú tilbúnir til að semja við ykkur um viðskipti, og ef þið eruð ekki tilbúnir, getum við ekki beðið eftir því, að þið verðið það.“

Ég skal geta þess, að 10. nóvember s.l. tjáði hæstv. atvmrh., að hr. Semenow hefði, áður en hann fór frá Íslandi, skýrt sér frá, að komið væri svar frá Moskvu, þar sem sagt var, að málið væri í athugun. Að öðru leyti hefur hæstv. atvmrh. ekki frá dagsetningu þessarar tilfærðu skýrslu rætt málið við mig, að því einu undan skildu, að mánudaginn 2. desember talfærði ég við atvmrh., hvort ekki væri nauðsynlegt, að við færum að ræða þetta mál til þess að flýta fyrir svari frá Moskvu. Taldi hann það æskilegt. Úr þessu samtali varð þó ekki af ástæðum, sem ég hirði ekki að greina hér. En reynt var að hraða málinu með því, að ég sneri mér til sendiráðs okkar í Moskvu til að óska eftir, að það reyndi að hraða því, að svar kæmi frá Sovétríkjunum viðkomandi samningaumleitunum samkv. því, sem ég tók fram áðan. Af því, sem sendiráð okkar í Moskvu tjáði okkur, er ljóst 1) að mál þetta hefur verið rætt fullkomlega í tæka tíð við Sovétríkin og 2) að Sovétríkin hafa, bæði í viðtali við hæstv. atvmrh. og n., tjáð sig vilja kaupa íslenzkar afurðir og talið líklegt, að verðið þyrfti ekki að standa í milli.

Hins vegar tel ég mig mega segja það, að eins og Sovétríkin hafa áhuga fyrir að kaupa vörur okkar, þá hafa Bretar það líka. Ég geri mér vonir um, að Bretar vilji kaupa af okkur ekki aðeins lýsið, sem allir sækjast eftir, heldur einnig hraðfrysta fiskinn fyrir hátt verð. Mér er einnig kunnugt um, að fleiri ríki hafa meiri og minni áhuga fyrir að kaupa afurðir okkar.

Það verður vitanlega ekkert sagt um það á þessu stigi málsins, hvort þessi ábyrgð, sem þetta frv. er um viðkomandi verði á sjávarafurðum, leggur nokkurn bagga á ríkissjóðinn. Og enn síður hefur þetta verið rætt sem liður í því heildarskipulagi, sem nokkuð hefur verið rætt sem samningsgrundvöllur á milli ráðh. núverandi stjórnar. En ég hygg, að heildarniðurstaðan af því, sem við vitum um sölumöguleika okkar afurða, sé sú, að við megum vera vongóðir, þannig að allar þær upplýsingar, sem nú eru fyrir hendi um þessi mál, heimili Íslendingum að líta björtum augum á söluhorfurnar. Og það er a.m.k. ástæða til fyrir þjóðina að vera vonglaðari um þessi efni á þessari stundu en hún hefur verið á sama tíma á undanförnum árum. Eins og nú standa sakir, tel ég miklu líklegra, að við getum selt vörur okkar við sæmilegu verði, bæði í Bretlandi og Sovétríkjunum og kannske eitthvað í Bandaríkjunum líka, heldur en ég hefði þorað að staðhæfa um svipað leyti í fyrra. Þegar farið var fram á þessar ábyrgðir vegna útgerðarinnar, vissi útgerðin ekki eins um þetta og almenningur veit nú á þessari stundu. Útgerðin hefur farið fram á, að samþ. væru þessar ábyrgðir ríkissjóðs, og henni kann að hafa verið vorkunn með það. Ég býst við, úr því sem komið er, að vart verði komizt hjá að veita þessar ábyrgðir. Ég vil ekki hafa margar fullyrðingar um það. En því minni sem áhættan er í sambandi við þessar ábyrgðir fyrir ríkissjóð, því fúsari er ég til að vera með því, að þær verði veittar. Ég er sammála því, að auðvitað verði að finna ráð til þess, að útgerðin hefjist nú upp úr áramótunum.

Ég skal svo aðeins bæta því við, að um leið og ég tel skyldu mína að segja hæstv. Alþ. frá því, sem ég er um spurður í þessum efnum, þá er ég náttúrlega ekki maður til þess frekar en neinn annar að taka neina fulla ábyrgð á því, sem fram hefur komið í þessum málum um afurðasöluhorfur, fyrr en tilboð liggja á borðinu. Ég hef ekki talað eitt einasta orð við hvorugan aðilann, gildir það jafnt á báða bóga, en það, sem ég hef sagt um þetta, hef ég sumpart eftir trúnaðarmönnum ríkisins og sumpart hef ég það frá hæstv. atvmrh., að Sovétríkin láti í ljós, að þau séu reiðubúin til að athuga möguleika á að kaupa þá vöru, sem við viljum helzt selja, ef þau fái nægilegt magn af þeirri vöru, sem þau vilja helzt kaupa.