13.12.1946
Neðri deild: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (4189)

110. mál, landshöfn og fiskiðjuver á Rifi

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Þetta er mál, sem mikið hefur verið um rætt, og fylgir frv. nokkuð ýtarleg grg. ásamt álitsgerð frá vitamálastjóra. Það er því ekki þörf á langri ræðu frá minni hendi um málið nú.

Tilefni þessa máls er það, að svo er háttað á utanverðu Snæfellsnesi, að þar er engin höfn, sem sæmileg geti talizt, til þess að þaðan sé hægt að stunda fiskveiðar. Þó eru þarna á utanverðu nesinu tvö þorp, sem að vísu hafa staðið í stað undanfarin ár, vegna þess að aðstaða til sjósóknar er svo erfið þarna, sérstaklega þó eftir að aðstaða batnaði í öðrum verstöðvum, þannig að hinir athafnasamari menn hafa yfirleitt leitað með stærri báta á aðra staði, þar sem betri eru hafnir. — Nú er svo komið fyrir íbúunum þarna á þessu nesi, að annaðhvort er að gera, að fólkið verði að fá þarna hafnarskilyrði, sem tryggi því að geta sótt sjó í flestum veðrum, þegar hægt er að sækja sjó í öðrum verstöðvum, og að geta rekið atvinnuveg sinn uppihaldslaust, sem það gæti, ef það fengi einnig fiskiðjuver, eða það verður að hætta að búa þarna og flytja burt. Á síðustu tímum hefur mikið borið á því, að íbúarnir þarna í þessum þorpum hafi flutzt þaðan og hingað til staða við Faxaflóa, og þá ekki sízt til Reykjavíkur. Og það er til þess að reyna að stöðva þennan straum og gera þetta pláss byggilegt aftur, að þarna er lagt til, að komið verði upp höfn. — Ýmis fleiri rök liggja að því, að rétt sýnist að koma þarna upp höfn. Þarna eru góð fiskimið rétt uppi í landsteinum, þannig að þarna er nokkurra mínútna ferð út á fiskimiðin, sem eru að ýmsu leyti sambærileg við beztu fiskimið okkar við Faxaflóa. Ef þarna væri höfn, væri hægt að reka þarna bátaútveg með fullt eins miklum árangri eins og þar, sem bezt er hér við Faxaflóa. En þessi fiskimið hafa ekki verið hagnýtt að þessu, nema að tiltölulega litlu leyti. Þó hefur verið nokkuð um það, sérstaklega hafa bátar af Vestfjörðum verið gerðir út þarna til útilegu til að verka fiskinn um borð og flytja burt. En á meðan á stríðinu stóð, hefur verið minna um þetta en áður, að bátar hafi lagt stund á veiðar þarna, en einkum verið gerðir út frá Grundarfirði. — Það virðist erfitt að halda bátum þarna út til útilegu, þegar betri aðstaða er til þess á öðrum stöðum. Má því gera ráð fyrir, að þessi útgerð muni dragast mjög mikið saman þarna, og kannske falla alveg niður, ef hafnarskilyrði verða ekki bætt. En þá yrði svo komið, að þarna væru mjög dýrmæt fiskimið, sem þá lægju mikið til ónotuð. Þannig er nú ástatt fyrir mönnum, sem eiga báta þarna vestur frá, að þeir verða að liggja í landi dögum saman, þegar sæmilegt sjóveður er, vegna þess að þeir komast ekki frá landi. Loks, þegar þeir komast á sjóinn verða þeir að bíða eftir sjávarföllum til þess að geta lent. Og ef nokkuð breytist veður, getur svo farið, að þeir verði að fara langar leiðir til þess að komast í höfn annars staðar eða fara suður fyrir nesið og liggja þar. Vegna þessa ástands er útlit fyrir, að ekki verði lengi stunduð útgerð með þessu móti á þessum stað, enda eru menn í hópum að gefast upp við það.

Rifsós er gömul höfn, og frá náttúrunnar hendi eru þarna nokkuð einstakir hlutir, sem ég býst við, að séu hvergi til á landinu annars staðar, stórgrýtisgarður til varnar gegn öllum sjóum úr tveimur áttum — algerlega frá náttúrunnar hendi. En innan við þann garð er ægissandur, nægilega djúpur til þess, að þar sé hægt að koma upp fullkominni hafskipahöfn með því einu að grafa upp sandinn og setja upp hafnarbakka. Þeir, sem þarna eru kunnugir, og þeir, sem rannsakað hafa þennan stað, telja, að þarna sé mjög æskileg aðstaða að öllu leyti til þess að koma upp höfn, og telja, að hún ætti ekki að þurfa að verða svo mjög dýr. Ég álít, að framkvæmdum megi haga þannig — og hef rætt um það við kunnáttumenn — , að hægt sé með tiltölulega litlum tilkostnaði að koma þarna fyrir mjög sæmilegri bátahöfn, þannig að hægt væri að nota mannvirkin mjög fljótt, eftir að byrjað væri á að byggja bryggjuna.

Rifsós liggur á milli Hellissands og Ólafsvíkur, og mun ekki vera þangað nema 3 til 4 km frá Sandi og 11 km frá Ólafsvík. Með því að setja bæði þessi þorp í vegarsamband við Rifsós mundi því hafnargerð þar koma þessum tveimur þorpum að mjög miklu gagni, þannig að menn, sem byggju í þessum þorpum, gætu hafi útgerð sína á þessum stað, á Rifi. Gæti þannig fólkið í þessum þorpum haft betri afkomu en það býr nú við, ef þessi mannvirki, sem í frv. er gert ráð fyrir, yrðu reist. Og það er ekki vafi á því, að ef höfn væri komið upp á Rifi, eins og það er utarlega á nesinu, gætu mörg skip leitað þarna hælis í vondum veðrum, í stað þess að leita upp á von og óvon þess úrræðis að fara fyrir Snæfellsnesið og hingað í flóann. Maður veit, að illa hefur farið fyrir mörgum skipum, sem reynt hafa að fara þannig fyrir nesið í vondum veðrum.

Vil ég leyfa mér að leggja til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.