13.12.1946
Neðri deild: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (4190)

110. mál, landshöfn og fiskiðjuver á Rifi

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Mér finnst ekki mega minna vera en ég þakki samrh. mínum, hæstv. atvmrh., fyrir þá hugulsemi, sem hann hefur nú sýnt mér með því að bera hér fram frv., sem ég hef verið að undirbúa nú um nokkurt skeið og látið gera athuganir í sambandi við. En þessi hæstv, ráðh. hefur tekið af mér ómakið um að flytja málið og borið það fram í frv.- formi og látið fylgja teikningu af fyrirhuguðum mannvirkjum þarna, lýsingu á hafnarstæðinu og áætlun vitamálastjóra. Ég er honum náttúrlega þakklátur fyrir þessa alveg sérstöku hugulsemi, fyrst og fremst af því, að það er engum ljósara en mér, hver þörf er á, að höfn sé byggð á þessum stað, eða a.m.k. nálægt þessum stað, af ástæðum, sem hann nú lýsti að nokkru leyti.

Þarna hagar svo til, að þær hafnir, sem þarna eru nærri, Sandur og Ólafsvík, eru mjög ófullkomnar. Hins vegar eru fiskimið þarna skammt undan ströndinni, og er því mikil þörf á, að úr sé bætt þarna um hafnarskilyrði.

Hæstv. atvmrh. segir í grg. frv., að íbúarnir við utanvert Snæfellsnes hafi fyrir löngu séð, að við svo búið mætti ekki standa. Þeir hafi komið auga á Rif á Snæfellsnesi sem líklegt hafnarstæði, og að tilhlutun þeirra hafi vitamálastjóri látið fram fara rannsókn á hafnarskilyrðum þarna, látið fram fara nauðsynlegar mælingar og kortlagt staðinn. — Þetta er nú að vísu ekki fyllilega rétt. Ég leyfi mér að fullyrða, að það er að mjög verulegu leyti rangt, því að íbúarnir á utanverðu Snæfellsnesi hafa ekki alls fyrir löngu ekki verið á því, að höfn skyldi byggð þarna. Þegar ég hafði verið vitamálastjóri um nokkurra ára skeið, kom ég á þennan stað og skoðaði hann. Ég sá strax, hve góð hafnarskilyrði voru þarna, og athugaði ég þá staðinn að nokkru leyti. Þá var mér ekki kunnugt um eina einustu rödd, sem nokkurn tíma hefði komið fram um, að höfn þyrfti að byggja á þessum stað. — Nokkru síðar, eða 1942 um vorið, kom til mín sendinefnd frá Snæfellsnesi, sem vildi láta endurbæta hafnirnar á Sandi og í Ólafsvík og í Grundarfirði. Ég hafði orð á því við þessa sendinefnd, hvort ekki mundi vera heppilegra að gera eina góða höfn á Rifi í stað þriggja, sem væru heldur ófullkomnar. — Einn af þessum sendinefndarmönnum var flokksbróðir núverandi hæstv. atvmrh. — Nokkru eftir að þessi orð höfðu farið á milli mín og sendinefndarinnar, kom heilsíðugrein í blaði hæstv. ráðh., og var sagt þar, að Alþfl. ætlaði að taka upp íbúana á Sandi og í Ólafsvík og flytja þá nauðungarflutningi á annan stað. Svona var andinn hjá þessum flokksmönnum þá í þessu efni. Og að segja, að athugun eða rannsókn hafi verið gerð í þessu efni að tilhlutun íbúanna á utanverðu Snæfellsnesi, er fjarri sannleikanum. Ég fékk því til vegar komið, að nokkur athugun var gerð á hafnarskilyrðum á þessum stað. Aðeins bráðabirgðarannsókn þarna leiddi í ljós, að þarna eru frá náttúrunnar hendi góð skilyrði til hafnargerðar. Þarna er klappar. botn, sem rís rétt fyrir utan höfnina uppi í sjávarmáli og getur skýlt höfninni vel, ef ofan á hann er byggt, og má nota hann að mjög verulegu leyti sem skjólgarð fyrir höfnina. En þarna er svo grunnt, að höfnin er alveg ónothæf fyrir nokkurt skip. Það voru gerðar bráðabirgðarannsóknir á því, hvernig mundi vera að grafa þarna upp höfnina. Hæstv. atvmrh. sagði í sinni ræðu, að þarna væri ægissandur, sem mætti með tiltölulega litlum tilkostnaði grafa burt. Það er mjög fjarri sanni. Mjög verulegur hluti af botninum í þessari höfn er mjög grýttur. En þó mun vera hægt með tækjum, sem væntanleg eru til landsins, að vinna bug á þeim erfiðleikum. En af því að hæstv. forseti hefur bent mér á, að fundartími væri að verða á þrotum, skal ég fara fljótt yfir sögu.

Svo hagar til, að í Ólafsvík eru líka talsverðir möguleikar á hafnargerð í stórum stíl, ef ekki er haldið sig að því sama fyrirkomulagi þar, sem verið hefur, heldur flutt um set. Það hefur verið ósk manna í Ólafsvík og þar í grennd, að sá möguleiki yrði mjög vel athugaður, áður en nokkru yrði slegið föstu um Rif. Þetta var vitamálaskrifstofunni falið að gera árið, sem leið. En mér hafa ekki borizt skýrslur um rannsókn á hafnarskilyrðum í Ólafsvík og Rifi eða um samanburð á þeim stöðum í þessu efni. Og það var ein ástæðan til þess, að ég treysti mér ekki að svo komnu að flytja frv. um þetta efni, heldur vildi ég fá úr því skorið, hvort ekki væri hægt með svipuðum eða sama kostnaði að koma upp höfn þarna í Ólafsvík eins og á Rifi. Annað atriði, sem hæstv. atvmrh. gengur fram hjá, er, að vegarsambandið milli Ólafsvíkur og Rifs og Ólafsvíkur og Sands er þannig, að það er mjög erfitt að gera þar varanlegar umbætur, sem tryggi þar vegarsamband á öllum tímum árs. Það mundi kosta mjög mikið fé, svo að skipti milljónum kr. Ekki hefur hæstv. atvmrh. séð ástæðu til að taka það með í reikninginn. En óneitanlega er höfn á Rifi gagnslítil, ef ekki eru samtímis og hún er gerð gerðar ráðstafanir til þess að koma þarna á góðu vegarsambandi.

Aðalniðurstaða mín er því sú í þessu máli, að það þurfi miklu betur en gert hefur verið að athuga möguleikana á hafnargerðum á þessum tveimur stöðum og gera þar á samanburð og setja upp nákvæmari áætlun um það en vitamálastjóri hefur sett hér upp í bréfi, sem hér fylgir frv. og er, að ég ætla, skrifað til samgmrn., þó að það sé hér komið sem fskj. — Þá voru þær áætlanir, sem þá voru gerðar, eingöngu lauslegar bráðabirgðaáætlanir og tæplega það ýtarlegar, að hægt sé að hugsa sér að byggja á þeim sérstaka lagasetningu.

Enn fremur vil ég geta þess, að enn er annar staður, sem einnig kemur til álita, er gera þarf út um, hvar heppilegast sé að gera vandaða höfn á Snæfellsnesi, og það er Grundarfjörður. Sá staður er frá náttúrunnar hendi að mörgu leyti ágæt höfn, svipað eins og Rif, og að ýmsu leyti hægt að gera þar hafnarbætur, og hafa verið gerðar þar hafnarbætur fyrir nokkur hundruð þús. kr. á undanförnum árum, svo að skip geti fengið þar sæmilega afgreiðslu. En það er um þennan stað að segja, að hann liggur að vísu nokkru innar og fjær miðunum en Rif, og þess vegna er náttúrlega ekki eins stutt að sækja sjó þaðan eins og frá Rifi. En sá munur er þó ekki meiri en það, að ef það út af fyrir sig væri það eina, sem á milli bæri, þá þyrfti það ekki að mínu viti að valda neinum úrslitum.

Ég tel þess vegna, að það þurfi að liggja fyrir miklu ýtarlegri upplýsingar um málið en nú eru fyrir hendi, áður en hægt sé að taka ákvörðun um það að lögfesta, hvern af þessum stöðum eigi að velja til þess að koma þar upp fullkominni höfn á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. Og það hef ég falið vitamálaskrifstofunni að gera og býst við að fá frá henni þær niðurstöður, sem óskað hefur verið eftir.

Ég fyrir mitt leyti hef sízt á móti því, að þetta frv. gangi hér áfram til afgreiðslu. En ég vildi eindregið mælast til þess, að áður en hv. sjútvn., sem væntanlega fær málið til athugunar, afgreiðir það, kynni hún sér ástæður í málinu samkv. því, sem ég hef nú tekið fram, kynni sér það, hvað liggur fyrir af upplýsingum varðandi þessi atriði, sem ég hef minnzt á, og hvað kann að vanta af nauðsynlegum upplýsingum og hvort ekki væri eðlilegra, að þær upplýsingar, sem væntanlegar eru, komi, áður en málið er afgr. Ég viðurkenni þörfina fyrir höfnina. Ég hef — alveg skrumlaust sagt — sennilega meira en hæstv. atvmrh. athugað þetta mál og það kannske áður en nokkrir aðrir höfðu beint huga sínum að því, þó að það hafi ekki verið borið fram í frv.- formi hér enn. En það er af þeim ástæðum, sem ég hef greint. — Ég vil þess vegna allra manna helzt mæla með því, að þetta mál geti fengið mjög ýtarlega og nákvæma athugun, en hins vegar, að því verði ekki flaustrað af, án þess að þær athuganir séu fyrir hendi.