17.12.1946
Neðri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (4194)

110. mál, landshöfn og fiskiðjuver á Rifi

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti: Hæstv. atvmrh. hafði ekkert við það að áthuga þó að hann flytti þetta frv. sem þm. Siglufjarðar. Þó að mér finnist flutningur þessa frv. óeðlilegur frá ráðh., mun ég ekki deila við hann um það atriði. En burt séð frá því hef ég sitthvað við frv. að athuga. Ég tel málið alls ekki nægilega undirbúið til þess að bera það fram hér. Hæstv. ráðh. sagði, að lokið væri að rannsaka skilyrði fyrir höfn á Rifi til fulls. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt. Staðurinn hefur verið kortlagður, en aðeins örfáar prufur gerðar af því, hvað djúpt væri á fastan botn, en slík rannsókn er hvergi nærri fullnægjandi, ef byggja skal þarna landshöfn. Ráðh. sagði enn fremur, að rannsóknin hefði dregizt af völdum mínum, en þetta er alls ekki rétt. Ég hef fyrir löngu óskað eftir því við vitamálaskrifstofuna, sem hefur með þessi mál að gera, að hún framkvæmdi þessa rannsókn, en sökum anna hjá þessari stofnun hefur það ekki verið hægt. Sá óhóflegi dráttur, sem ráðh. kennir mér um, er því óviðráðanlegur af gildum orsökum, en alls ekki mér að kenna. En eins og ég hef áður sagt, tel ég, að þessi rannsókn sé ekki nægilega langt komin, til þess að hægt sé að hetja byggingu hafnarmannvirkja, sem kosta tug, ef ekki tugi millj. kr. Í þessu frv. er að vísu gert ráð fyrir 5 millj. kr. til hafnargerðar, en 4 millj. til fiskiðjuvers. En ég er sannfærður um, að hafnargerðin kostar ekki 5, heldur 10 millj. kr., því að þessar 5 millj., sem hér er gert ráð fyrir, fara allar í skjólgarð, sem verður að byrja á að byggja. Með öðrum orðum, þó að þessar 5 millj. verði lagðar fram, fæst örlítið afdrep, en þá er engin bryggja fengin. Af þessu er það sýnilegt, að slík mannvirki sem hér er gert ráð fyrir kosta ekki undir 20 millj. kr., en til þess að leggja í slíkt fyrirtæki tel ég þurfa traustari grundvöll en hér er fyrir hendi, meðan rannsóknir eru ekki fullkomnari en nú á þessum stað.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki mætti stilla dæminu upp þannig, að ætlazt væri til, að þessi höfn yrði endilega fyrir öll þorpin á Snæfellsnesi, heldur bæri að gera þar víðar góðar hafnir, ef þess þyrfti. En þá hygg ég, að við Íslendingar séum ríkari en ég hingað til hef haldið, ef við getum byggt hafnar mannvirki fyrir tugi milljóna með 6 km. millibili.

Þá var ráðh. að tala um, að hann hefði hitt vegamálastjóra þar vestra í sumar og hefði hann talið kleift að leggja veg frá Ólafsvík að Rifi. Þetta er að sjálfsögðu rétt, en það liggja bara engar áætlanir fyrir um þá vegarlagningu og alveg órannsakað, hvað hún mundi kosta. Við slíkt mannvirki sem þarna er gert ráð fyrir er nauðsynlegt að hafa vegarsamband til Reykjavíkur, en frá því hefur ekki verið gengið á viðunandi hátt. Þó að það sé mjög æskilegt, að byggð verði góð höfn á Rifi sem fyrst, þá tel ég nauðsynlegt að treysta betur grundvöllinn að því mannvirki, áður en lengra er haldið. Það getur vel verið, að hæstv. ráðh. telji það óhóflegan drátt hjá mér, að ég skuli vilja láta ljúka rannsóknum, áður en hafizt er handa um framkvæmdir, en ég vil benda honum á, að það er ekki hægt að hlaupa í að gera mannvirki, sem kosta tugi millj. kr., eins og reisa ætti fjárhúskofa.