18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (4203)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég heyrði það af orðum hv. þm. Snæf., að n. á eftir að athuga málið til hlítar, og væntanlega lætur hún ekki sitt eftir liggja um að koma efni málsins áfram, eftir því sem um semst, en það mun sýna sig, að það er ekki aðeins það, sem 1. og 2. gr. frv. fjalla um, er fjalla um ábyrgð hins opinbera, heldur hitt, hvort lán fást. Það er það,sem nú er í sjálfu sér meira áríðandi og raunhæfara, hvort lán fást, heldur en hvort ábyrgð fáist. Það er rétt, að það, sem 3. gr. frv. fjallar um, er nokkuð nýmæli, en byggist áreiðanlega á reynslu síðustu tíma, því að lánsstofnanir hafa oft neitað sveitarfélögunum um lánveitingar, og því hefur ákvæði verið sett í 3. gr. frv. um, að Landsbanka Íslands skuli skylt að kaupa skuldabréf sveitar- og bæjarfélaganna, að veittri ábyrgð ríkissjóðs, ef svo kæmi til, að þau af nauðsyn leituðu þangað um lán til framkvæmda, sem hafa verið lögfestar og af ríkinu — þegar það veitti sína ábyrgð — viðurkenndar sem sjálfsagðar. Náttúrlega geta menn sagt, að það sé enn verra, þegar byrjað er á ýmsu, eins og nú er, að allt þurfi að stranda af þeirri ástæðu, að lánsstofnanir, sem hafa ærið fé og lána til hins og þessa eftir eigin geðþótta, yrðu skyldaðar til að kaupa þessi skuldabréf. Þetta sé ég ekki, að komi við hinu stjórnmálalega þjarki í sambandi við stjórnarmyndun, en þar virðist nú allt gert að bitbeini, heldur er hér um framkvæmdaratriði að ræða, þar sem tryggja verður, að einhverjum tilgangi verði náð. Mín orð eru rökstudd af því, að þessi mál verður að taka föstum tökum, til þess að ekki verði slegið slagbrandi fyrir þær framkvæmdir, sem héruðin eru að gera, eiga að gera og ætla sér að gera. Ég skil, hvað hv. þm. Snæf. átti við, en það er að sjálfsögðu annað atriði, sem er gersamlega óskylt því, sem hér er um að ræða, og það má ekki binda öll mál, sem hljóða upp á skyldu til lánveitinga, við það atriði, sem í rauninni er hreint pólitískt atriði.