18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (4208)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég heyri nú af ræðu hv. þm. A-Sk., að það hefur ekki verið nein vanþörf á því, að ég tæki hér til máls til þess að glöggva hann og fleiri hv. þm. á þýðingu þessa máls, en mér virðist sem hann sé nú fyrst að vakna til vitundar um, að þetta mál hafi nokkra þýðingu. Það getur verið, að hann þurfi að bíða eftir, að hans flokkur láti í ljós skoðun sína um málið, en það hefur ekki áður komið fram í n., að nauðsynlegt væri að ræða þetta mál meðal stjórnmálaflokkanna. Þess vegna var það vel til fallið á þessu fyrsta stigi málsins, að fleiri tóku til máls en einn maður, en ekki þögðu allir hinir. En nú veit ég, að þetta mál verður tekið til rækilegrar meðferðar í hv. menntmn., og þá er tilganginum náð, svo langt sem það nær. En fleiri þm. en þeir, sem eru í menntmn., verða líka að athuga málið.