18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (4213)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Gísli Sveinsson:

Það er aðeins út af ummælum hæstv. forseta þessarar hv. d., reyndar kannske stundum fyrr, en ekki sízt nú, sem ég verð að láta þess getið, að þrátt fyrir góðan tilgang einstakra forseta til þess — eins og þessi hæstv. forseti sagði nú — að afnema ósiði í þinginu, þá er það staðreynd, að hér hafa myndazt venjur, sem ekki hefur verið talið svo auðvelt fyrir einn og einn forseta að vera að skaka með til og frá né hrófla mjög við upp á eindæmi. T.d. hafa skólamál — og hér er að verulegu leyti um að ræða mál, sem snertir mjög skóla — verið látin lenda í menntmn. ásamt ýmsum fleiri málum, sem sú venja hefur myndazt um.

Nú má um það deila, hvað er skynsemd, svo að maður noti orðalag hæstv. forseta. Hæstv. forseti sagði hér áðan, að hann ætlaði að beita sér fyrir því, að skynsemd væri höfð um skiptingu mála á milli n. hv. þd. En það er matsatriði um skynsemdina, og er betra að halda sér við einhverjar reglur, sem ekki ófyrirsynju hafa komizt á. En hvers skynsemd er hér um að ræða? Það er skynsemd hæstv. forseta. En hann er mannlegur maður, þó að hann sé í þessum stóli. — Öruggast er að halda sér við venjur, sem í þessum efnum hafa myndazt, og ef ætti að skipta um n. í þessu tilfelli, þá er ekki alveg á vísan að róa um það, í hvaða n. ætti að vísa ýmsum málum, því að hér kemur fram eitt atriði í frv., sem er veigamikill þáttur frv., sem sú regla hefur myndazt um á seinni árum, að heyra skyldi undir menntmn. að athuga. Þess vegna tel ég þegar af þeirri ástæðu eðlilegast að halda sér við það, að þetta frv. sé í menntmn. Þessi n., menntmn., hefur haft málið til athugunar. Og einn hluti hennar, að vísu minni hl., hefur borið fram þetta frv. í málinu. Hv. nm. hafa enn fremur lýst yfir, að þeir ætluðu sér að taka málið til meðferðar. — Og svo ætlar hæstv. forseti að rífa það af þeim. — Þeir eru að undirbúa málið, skilst mér. Mér virðist því till. hæstv. forseta koma úr hörðustu átt, a.m.k. að vilja láta málið þannig í miðjum klíðum hoppa á milli n. — Bezt er þá líka fyrir hvern forseta, að mínu áliti — og mæli ég það . að góðri tilætlan við hæstv. forseta nú, að það er rétt fyrir forseta, hverjir sem forsetar eru, að hafa samráð um það, ef breyta skyldi ýmsum reglum, sem komizt hafa upp í fulla venju, eins og viðkomandi því að vísa málum til n., en ekki láta skeika að því, hvort einum forseta þykir þetta hlýða á þessum fundi og annað á öðrum fundi, eftir því sem honum finnst málin liggja fyrir. Forseti á eftir þingsköpum að athuga þetta, og ef þarf að breyta þingsköpum, heyrir það undir lagasetningu. En þetta heyrir undir reglur, sem hlýtur að vera, að hafðar séu eitthvað á föstu.

Ég mælist þess vegna til þess við hæstv. forseta, að hann leyfi þessu máli að vera áfram í umsjá menntmn., svo að nm. gefist kostur á að gefa út rökst. álit um þetta mál, sem þeir hafa lýst hér, að þeir ætli að gera.