18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (4218)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Forseti (BG):

Hv. þm. V-Sk. og hv. 6. þm. Reykv. vilja halda því fram, að þetta frv., sem nú hefur verið til umr. hér, sé sambærilegt við skólalöggjöfina og löggjöfina um almannatryggingar, og þarna kemur einmitt í ljós sá mikli misskilningur, sem verður vart hjá þeim, þegar þeir vilja, að þetta mál sé í menntmn. Ég benti á það áðan, að það, sem mér virðist a.m.k., að eigi að ráða um það, til hvaða n. þessu máli sé vísað, sé það, hvert sé höfuðefni frv., hver sé þungamiðja þess. Og er hér að mínu áliti ekki um neitt að villast í því sambandi. Í þessu frv. er þungamiðjan, að ríkisstj. sé heimilað að ábyrgjast lán. Aftur á móti var þungamiðjan í frv. um almannatryggingar að tryggja almenning í landinu gegn ýmsu, sem ég ætla ekki að telja upp nú, en mönnum er kunnugt um. Og þungamiðjan í skólalöggjöfinni er stofnun skóla og fyrirkomulag þeirra. (SigfS: En hvað um byggingu kirkna?) Ég hef eindregið lagt á móti því, að það mál færi í menntmn. — Annars skal ég ekki tala meira um þetta, því að það mundi leiða til þess, að forseti yrði að fara úr forsetastóli og tala frá þingbekkjum. En ég sé ekki ástæðu til og vil ekki tefja málið á því.