18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (4225)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Forseti (BG):

Svo er annað, sem ég gjarnan vil fá nánari skýringu á, þar sem hv. 6. þm. Reykv. sagði áðan, að ég hefði verið svo drukkinn í forsetastóli, að ég hefði ekki getað hrært tungu mína. Hér er mannorð mitt, sem liggur við, sem forseta. Og ég óska eftir, að einhver hv. þm. standi upp nú á eftir og nefni votta að þessu, ef einhver treystir sér til, því að annars mun enginn trúa hv. 6. þm. Reykv. eftir það, sem nú hefur skeð. (SigfS: Þeir, sem hafa séð og heyrt, trúa.) Ég leyfi mér — þó að fyrir tilstilli 6. þm. Reykv. ætli að nálgast hneyksli - samt sem áður að beina þeirri ósk til hv. þdm., að ef einhver þeirra hefur merkt vín á mér í forsetastóli — hvað þá, að ég hafi ekki getað talað sökum ölvunar í forsetastóli — þá standi hann nú upp og geti þess. — — — — — — — Vill enginn hv. þm. bjarga 6. þm. Reykv, frá því að vera opinber lygari hér innan hv. d.? (EOI: Forseti hefur bara ekkert vald til þess að tala svona.) — Þessum umr. er nú lokið.