19.12.1946
Neðri deild: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (4227)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Á fundi s.l. miðvikudag fóru fram nokkur orðaskipti milli mín og hæstv. forseta, m.a. um störf forseta í menntmn. Hv. þm. Snæf. fann þá ástæðu til að bera vitni í málinu, og svo hefur forseti séð ástæðu til að gera málið að umræðuefni í leiðara, sem svo er kallaður, í morgun. Ég tel mér af þessum ástæðum rétt og skylt að gefa skýrslu um þetta mál, sem um er að ræða, en eins og ég orðaði á umtöluðum fundi, hafði ég hugsað mér að láta það niður falla: Eins og hv. þm. rekur minni til, talaði ég í þessu sambandi um tvö síðustu Alþ. Um þetta er það að segja, að á því reglulega Alþ., sem saman kom 1945, hélt menntmn. 37 fundi. Á 14 þeirra er bókað, að forseti hafi mætt, á 20 er bókað, að hann hafi verið fjarverandi, en um 3 fundi brestur heimildir. Á þessu þingi hefur sama n. haldið 10 fundi, og hefur forseti mætt á 6, en ekki 4. Niðurstaðan verður því sú, að á þessum tveimur þingum hafa verið haldnir 47 fundir og heimildir liggja fyrir um, að forseti hafi mætt á 20, ekki á 24, en um 3 fundi brestur heimildir. Þarf ekki að bæta neinu við þessa skýrslu. Hún talar sínu máli. En það ætla ég, að ef svo væri háttað störfum allra þm. í n., þá mundu treglega sækjast þingstörfin, og er það þó skylda hæstv. forseta að sjá um, að þau megi greiðast sem mest.

Varðandi önnur ummæli, sem ég viðhafði um forseta á þessum fundi, þá tek ég þau ekki aftur né biðst afsökunar á þeim, því að ég veit, að þau eru sönn og rétt, og má forseti vel gera upp við samvizku sína, hvort ég hef hallað réttu máli. Í þessu sambandi vil ég segja, að hinu virðulega embætti forseta fylgir sú skylda að láta þm. halda virðulegar ræður, svo að sæmi virðingu Alþ. En á þessum umrædda fundi tel ég, að forseti hafi viðhaft orðbragð, sem á engan hátt var þinglegt og hann hefði talið sér skylt að víta hvern þm. fyrir. — Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta, og er ástæðan til þess, að ég hef tekið mál þetta upp að nýju, sú, að það hefur verið gert að opinberu umræðuefni á opinberum vettvangi öðrum en þingsins.