21.01.1947
Neðri deild: 57. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (4238)

131. mál, Faxaflóasíld

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. — Það er kunnara er frá þurfi að segja, að undanfarin ár hefur skapazt allþýðingarmikil atvinnugrein, sem er síldveiðar hér í Faxaflóa. Það hefur jafnhliða komið í ljós, að frekari ráðstafana hefur verið þörf í þessum efnum en framkvæmdar hafa verið, sérstaklega að því er snertir markaðsöflun fyrir síldina, sem hér hefur aflazt. Sérstaklega hefur þetta komið skýrt í ljós í ár og í fyrra, þar sem síldveiðin fyrir norðan hefur brugðizt. Þá hagar svo til fyrir sunnan, að uppgripaveiði var í fyrra rétt fyrir utan Reykjavík og svo núna í Kollafirði. Þessi veiði hefur ekki verið hagnýtt eins og skyldi, því að svo mikil hefur síldin verið, að mjög mikið magn hefði getað komið á land á hverjum degi, og ástæðan til þess er sú, að það hefur vantað markað fyrir þessa síld. Að vísu hefur töluvert verið selt af síld, en útgerðarmenn hafa orðið að salta hana upp á von og óvon um það, hvernig fara mundi um söluna.

Í sambandi við síldarútveg og síldarverkun, aðra en þá, sem lýtur að verksmiðjuvinnu, þá var það áður komið undir síldarútvegsn. og hún látin fjalla um þetta, og reyndust störf þeirrar n. pósitív fyrir landsmenn, hvað snerti öflun markaða fyrir síld og hagnýta þýðingu fyrir vinnuaðferðir. Það má því slá því föstu, að síldarútvegsn. hafi verið hagnýt fyrir síldarútgerðina, sérstaklega síldarútgerðarmenn fyrir norðan land.

Aftur á móti hefur síldarútvegsn. ekki rækt störf sín sem skyldi, frá mínu sjónarmiði, hvað snertir síldina fyrir sunnan.

Með hliðsjón af þessu er till. flutt til þess að koma fastari skipan á ráðstafanir fyrir faxasíld, og er hér mjög líkt að farið eins og þegar síldarútvegsn. var stofnuð.

Um einstaka liði þessa frv. er ekki þörf að ræða, nema ég vil aðeins segja það í sambandi við 1. liðinn, að það liggur í hlutarins eðli, að þeir menn, sem í þessa n. veljast, hljóta að hafa búsetu nálægt þeim stað, þar sem n. á að starfa, við Faxaflóa, annaðhvort í Reykjavík eða í Hafnarfirði. Um tilgang n. er það að segja, að hún á að sjálfsögðu að hafa það verkefni með höndum að afla markaða fyrir faxasíld, eins og segir í frv.

Um fyrsta liðinn sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Um annan lið er það að segja, að það liggur í hlutarins eðli, að n. er ætlað að vera raunhæft starfandi við að semja áætlanir um það, hvernig aflinn skuli hagnýttur, en sú áætlun skal samin í samræmi við markaðsmöguleika á hverjum tíma. Skal n. athuga, hvort möguleikar séu á því að selja frysta síld eða verkaða á aðra lund N. skal veita veiðileyfi til skipa og verkunarleyfi til þeirra, sem vinnu stunda í landi. N. skal einnig hafa forgöngu um nýjar verkunaraðferðir, en verkunaraðferðir okkar, svo sem söltun síldar, geta orðið úr sögunni eftir skamman tíma.

Það er vitað, að margar þjóðir eru lengra á veg komnar en við í slíkum verkunaraðferðum, og við Íslendingar ættum að hætta þeim ósið að selja síldina óunna og hálfunna úr landi. Það á að selja hana sem mest fullunna og niðursoðna.

Fimmti liðurinn er um löggildingu útflytjenda. Að sjálfsögðu koma bæði einstaklingar og félög til greina með að hafa sölu síldarinnar á hendi, en þessir aðilar löggildast því aðeins sem útflytjendur, að það sé framkvæmt af n. Í sambandi við starfsemi síldarútvegsn. má geta þess, að hún telur eina orsökina til þess, að síldarverðið á faxasíld hefur farið niður úr öllu valdi, vera þá, að síldarútflutningurinn hafi verið óskipulagsbundinn, svo að það getur verið nauðsynlegt, að n. framkvæmi þessa löggildingu, ef á þarf að halda. Einn lið vil ég geta um sérstaklega, en það er 12. gr., þar segir svo: „Til þess að standast kostnað af störfum faxasíldarn. og framkvæmd þessara l., getur n. ákveðið með samþykki ráðh., að greitt verði í sérstakan sjóð 2% af andvirði seldrar faxasíldar.“ Um þessa gr. er það að segja, að ég geri ráð fyrir því, að mörgum muni detta í hug, að hér sé um nýjan skatt á síldarútgerðina að ræða, en svo er ekki. Í þeim l., sem nú gilda um síldarútvegsn., er svo ákveðið, að 2% af andvirði seldrar síldar skuli fara til að standa undir störfum n., og liggur í hlutarins eðli, að þó að hér sé um að ræða sérstaka n., þá er ekki óeðlilegt, að 2% af andvirði seldrar faxasíldar fari til að standast kostnað af störfum þessarar nefndar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í einstaka liði frv., en vil segja það að lokum, að frv. er flutt vegna þess, að flm. og mörgum öðrum er ljós þörfin á því, að frekari ráðstafanir séu gerðar til hagnýtingar á þeim miklu auðæfum, sem hér eru í Faxaflóa. Við álítum, að frv. eins og þetta mundi tryggja frekar nýtingu í sambandi við síldveiðar þessar, og mund það skapa landsmönnum meira fé og meiri atvinnu við Faxaflóa. Ég vil svo vænta þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.