10.01.1947
Neðri deild: 51. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það er orðið svo langt síðan umr. um þetta mál var frestað, að það er víst úr minni liðið mörgum og þá einnig fyrir mér farið að fyrnast það, sem fram kom við þá umr. En úr því að hæstv. forseti hefur gefið mér orðið, vil ég gera nokkra grein fyrir þeim aths., sem fram komu þá, en skal þó aðeins stikla á stærstu atriðunum.

Það, sem ágreiningi hefur valdið, er fyrst og fremst það, sem snertir langstærsta atriðið, innflutning sauðfjár. Ég hef haldið því fram, að innflutningur fjár til þess að prófa, hversu það mundi þola veikina, sé í raun og veru að vinna gegn því, sem að er stefnt í frv. með fjárskiptunum. Ég benti á það í upphafi. að það væri á misskilningi byggt, eftir að búið væri að ákveða að hafa fjárskipti, að þá væri óeðlilegt að vera að káka við annað og láta þetta bíða, þar til séð væri, hvernig færi um það mál. Ég hef alltaf haft trú á því, að þetta væri líklegasti möguleikinn til framgangs þessa máls, þó að mér detti ekki í hug að halda fram, að það sé 100% öruggt, ef mætti kalla það svo, heldur að þetta væri líklegasta leiðin til þess að fá einhverju áorkað. Það hefur einnig sýnt sig, að þetta hefur orðið ofan á og allir hafa fallizt á þetta. Sá innflutningur, sem hefur verið reyndur nú, gefur vissulega ekki tilefni til þess, að haldið sé áfram lengur fyrst um sinn á þeirri braut, því að eins og þingheimi er kunnugt. hefur farið svo, þó að því væri heitið að beita hinni ýtrustu varkárni og fullur vilji allra, sem að þessu stóðu, að ekki gætu hlotizt slys af, þá hefur reynslan orðið sú, að þær kindur, sem fluttar voru inn í haust, voru sýktar, þegar þær komu, af sjúkdómi, sem yfirdýralæknirinn sagði, að væri óþekktur hér á landi. Og þó að þessi sjúkdómur sé ekki talinn einn af hinum alvarlegustu erlendis, er engin vissa fyrir því, að hann gæti ekki orðið alvarlegur, þegar hann bærist í fé, sem aldrei hefur fengið þennan sjúkdóm áður. Af þessari eðlilegu ástæðu svo og þeirri ábyrgðartilfinningu, sem á að vera hjá mönnum, sem hafa starf með höndum eins og yfirdýralæknirinn, ákvað hann, að þessum kindum skyldi lógað. Hefði ekki verið fylgt þarna strax þessum fyrirmælum, þá er auðséð, hvað af því hefði getað hlotizt, og yfirleitt tel ég, að það væri skynsamlegt fyrir alþm. að leggja sér á minni ummæli Magnúsar heitins Einarssonar dýralæknis. að menn skyldu forðast að káka við innflutning búfjár, því að við værum svo vel settir hvað það snerti að vera lausir við marga sjúkdóma. sem herjuðu í öðrum löndum. Ég held því, að það væri full ástæða til að feila niður ekki aðeins þær breyt., sem n. hefur orðið sammála um, heldur einnig 7. kafla, sem við hv. 1. þm. Skagf. leggjum til, að gert verði.

Þá vil ég aðeins, úr því að það hefur orðið nokkurt orðaskak um það, minnast á þá till. okkar hv. 1. þm. Skagf. og hv. 8. þm. Reykv., um það að breyta til og nota ekki karakúlnafnið, heldur nafnið „sauðfjársjúkdómar“. Þessu hefur verið mótmælt af hv. þm. A-Húnv., og aðalrök hans fyrir því voru þau, að þetta nafn hefði verið notað hér nokkuð og eðlilegast væri að kenna hvern sjúkdóm við uppruna sinn. Nefndi hann þar til móðuharðindin, svartadauða og spönsku veikina. Þetta er raunar rétt, og ég hef t.d. ekkert á móti því, að spánska veikin sé tengd við Spán, en þetta er bara íslenzkt mál, íslenzkt orð, sem alþýða manna hefur búið til og hefur fæðzt með þjóðinni og er eðlileg íslenzka. Hitt, þetta karakúlnafn er í rauninni ekkert. ég veit ekki, hverrar þjóðar mál það er.

Ég kann ekki við að festa slíkt nafn í lagamáli. Ef aftur á móti hv. þm. A-Húnv. og n. hefðu komið með annað nafn eða þýðingu á þessu, sem hefði fallið inn í íslenzkt mál, er síður en svo, að ég hefði haft á móti því, heldur talið það eðlilegt. En þetta orðskrípi, þó að það hafi verið notað, kann ég ekki við að festa í lagamáll, en mundi þó á hinn bóginn, þótt við nm. höfum lagt til, að orðið „sauðfjársjúkdómar“ væri notað sem samheiti fyrir þessa sjúkdóma, mundi þó, ef íslenzkumaður kæmi með annað nafn, geta fallizt á það fyrir mitt leyti, ef það félli í okkar mál. Þetta er mín ástæða fyrir því, að ég felli mig ekki við þetta nafn, kann sem sagt ekki við að festa það í lagamáli. Þetta er í sjálfu sér ekki stórt atriði, en smekklegt get ég ekki kallað það.