19.02.1947
Neðri deild: 77. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (4252)

164. mál, skipun innflutningsmála

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt þegar við þessa umr. að láta nokkur orð fylgja þessu frv. Hv. flm. sagði að vísu, að það væri flutt af honum, og ég get bætt því við, að meiri hl. þingfl. Alþfl. óskaði, að frv. yrði ekki flutt að svo stöddu. Ástæðan til þess er sú, að í samningi þeim, sem gerður var, er núv. stj. var mynduð, er kveðið á um það, hversu lausn þessara mála skuli hagað.

Það er rétt að viðurkenna það, að dreifing vara er mjög dýr, svo sem sést á fskj. á þskj. 376, og er ekki undarlegt, þó að mörgum finnist gott að fá þennan kostnað lækkaðan. Það er nú vissulega svo, að í verzlunarstétt eru svo margir menn starfandi, að vera mætti, að fækkun þeirra mundi lækka kostnaðinn nokkuð. En menn greinir mjög á um leiðir til þess að bæta úr þessu. Alþfl. hefur bent á landsverzlun, Framsfl. hefur bent á samvinnuverzlanir, sem hann telur jafnvel, að mundu koma að enn betri notum, Sjálfstfl. hefur aftur haldið fram frjálsri verzlun, og þó að hv. flm. drægi í efa, að hún væri til, þá er ekki meira en um hálft ár, síðan talað var um að gefa verzlunina frjálsa. Hér er því um að ræða hin ólíkustu sjónarmið, sem verður að samræma. Það er vitað fyrir fram, að ekki er til meiri hl. á Alþ. fyrir landsverzlun, og það er því ekki til neins að bera fram frv. um það, en vitanlega raskar það ekki þeirri skoðun Alþfl., að hún sé bezt. Aðalatriðið er, að til þess að koma einhverju fram, verður að vera fullt samkomulag. Og það þýðir ekkert að bera fram allt of einstrengingsleg frv., sem hafa enga þýðingu í praksís.

Ég vil minna á það, að í málefnasamningi þeim, sem gerður var, er núv. ríkisstj. var mynduð, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórnin leggur á það áherzlu, að innflutningsverzluninni verði háttað svo, að verzlunarkostnaðurinn verði sem minnstur. Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu, hvort sem þar er um að ræða einstaklinga eða félög. Sérstök innkaupastofnun á vegum ríkisins verði sett á stofn, og annist hún innkaup til ríkisstofnana (vita-, hafna-, vega- og brúargerða, verksmiðja, opinberra bygginga, sjúkrahúsa, skóla o.fl.). Sú deild fjárhagsráðs, sem hefur með höndum veitingu innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, skal taka til athugunar og rannsókna, á hvern hátt takast mætti að haga innkaupum og vörudreifingu á sem hagkvæmastan hátt fyrir þjóðina í heild, einnig með hliðsjón af samningum við erlend ríki um sölu íslenzkra afurða.“ Þetta er sú leið, sem þeir flokkar, er að stj. standa, hafa hugsað sér að fara, og mun Alþfl. halda sér við þetta samkomulag og leggja á það áherzlu, að það verði haldið. En þetta frv. felur í sér meira en þarna er talað um, og er því ekki samkomulag um það. Því vildi ég fyrir hönd Alþfl. lýsa því yfir, að þó að hann sé að efni til samþykkur þessu frv., telur hann sig bundinn af samkomulagi því, sem gert var um ríkisstj., og mun taka afstöðu til frv. eftir því. Flokkurinn mun svo gera það upp við sig á sínum tíma, hvort hann getur fallizt á það samkomulag, er gert verður um þessi mál í ríkisstj., eða ekki.

Þetta frv. hefur auðvitað sína kosti og sína galla. Það hefur þá kosti, að það fækkar innflytjendunum og gerir auðveldara að hafa eftirlit með þeim og draga úr álagningu. En það hefur líka sína ókosti og þá mjög augljósa. Það er ekki víst, að hægt sé að segja við marga menn, sem hafa stundað þessa atvinnu um langan tíma, að nú skuli þeir hætta. Það verður að fara mjög gætilega, til þess að ýmsir menn yrðu ekki ósæmilega fyrir barðinu á því opinbera. Þó að það, sem næst, fari eftir því, hve hart er að gengið, þá má ekki fara of geyst og láta þegnana bíða tjón af.

Fleira mætti telja, en ég mun ekki að þessu sinni ræða fleiri atriði frv. En þingfl. Alþfl. telur sig bundinn af því samkomulagi, sem gert var við stjórnarmyndunina, og mun halda sér við það, unz sá árangur næst, sem hann getur unað rið, eða næst ekki, og hætta þá þátttöku í ríkisstj.