19.02.1947
Neðri deild: 77. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (4253)

164. mál, skipun innflutningsmála

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Ég vildi nú leyfa mér að víkja að nokkrum atriðum, sem fram komu í framsöguræðu hjá hv. 4. þm. Reykv. Mér fannst óviðfelldið það, sem hann sagði um hin svo kölluðu heildsalamál. Síðan farið var að ræða þessi mál, hefur ekki fallið dómur í hæstarétti nema í einu þeirra, og hann gekk út frá því, að hlutaðeigandi heildsölufyrirtæki hefði ekki gert sig sekt um hegningarvert athæfi. Þetta kemur bert fram í forsendum dómsins. Ég hugsa ekki, að það hafi verið ætlun hv. flm. að koma með órökstuddar getsakir, en honum bar að vita, að í rekstri og dómsniðurstöðu áðurgreinds máls kom það greinilega fram, að heildsölufyrirtækið hafði ekki leynt starfsaðferðum sínum fyrir íslenzkum yfirvöldum.

Mér finnst, að þetta frv. á þskj. 376 sé flutt og rökstutt á þann hátt, að sá áhugi, sem hv. flm. hefur á þessum málum, missi nokkuð marks. Ég held, að þessum málum sé hvergi fyrir komið á þann hátt í nágrannalöndum okkar, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Í grg. er ekki minnzt einu orði á reynslu annarra þjóða í þessum efnum, og ég hefði óskað, að það hefði komið fram í grg. og framsöguræðu hv. flm. Hv. flm. tók sem dæmi um, hvað verzlanir græddu mikið, hve mikla skatta þær greiddu. En flm. gat ekki um það, hvernig farið er í skattálögum með fyrirtæki, sem hafa mikla verzlun. Það er erfitt að vinna hér á landi fyrir einstaklingsfyrirtæki, eins og skattaákvæðum er háttað, enda hafa komið fram fleiri raddir um, að þau væru óréttlát.

Í byrjun ársins 1939 var allt að fara í auðn og kaldakol á landi hér, og þá var fé sótt til verzlunarstéttarinnar og lánardrottna hennar í útlöndum, og vita allir hv. þm., að af þessu leiddi, að verzlunarstéttin varð fyrir stórmiklu áfalli vegna gengislækkunar. Þarf ekki fleiri orð þar um.

Nýsköpun kostar meira en framleiðslutæki. Til þess að reka framleiðslutæki þarf einnig útgerðarvörur og rekstrarfé. Af því leiðir aftur aukna starfsemi verzlunarstéttarinnar og aukna fjármagnsþörf hennar.

Jón Sigurðsson forseti ræðir aftur og aftur um það, hve mikil nauðsyn sé að fá verzlunina inn í landið og gera hana frjálsa. En nú kemur prófessor við háskólann og vill keyra allt í viðjar og í hendur ríkisins.

Ég vildi hafa minnt á þetta með nokkrum orðum, því að það andar skilningsleysi og kulda í garð þessarar stéttar, og hv. flm. virðist hafa mestan áhuga á að koma á landsverzlun og útiloka um leið alla samkeppni og frjálsræði.

Þá vildi ég og minna á það, að höfuðmenn samvinnuhreyfingarinnar í Svíþjóð og Danmörku hafa haldið fram svipuðum sjónarmiðum og heildsalar í viðskiptamálum.

Ég mun nú ekki fara miklu lengra út í efnishlið þessa frv. nú við 1. umr., en ég undrast, að þetta frv. skuli hafa komið fram, þar sem vitað er, að í málefnasamningi núv. ríkisstj. er gert ráð fyrir m.a. gagngerðri umbyltingu á þessum málum. Á þetta hefur hæstv. viðskmrh. þegar bent, en að sjálfsögðu hefði það ekkert skaðað, þó að hv. flm. hefði komið fram með frv. um þessi atriði, ef það hefði bætt eitthvað úr þeim ágöllum, sem nú eru, en því fer víðs fjarri.

Ég hef áður minnzt á, að ég óskaði, að hv. flm. hefði getað bent á eitthvað sambærilegt við sitt skipulag og gert samanburð við önnur lönd. En ég vil minna á, að það er ekki lengra síðan en árið 1944, að haldin var í Ameríku ráðstefna um verzlunarmál, og sátu hana fulltrúar frá 52 þjóðum. Þar var einróma samþ. að halda fram frjálsri verzlun og losna við tollmúra, svo sem frekast væri unnt, því að þeir eru ein aðalorsök þeirra vandræða, sem eru í verzlunarmálum. Hið almenna viðhorf hjá öllum þessum þjóðum var að vinna sem öflugast að frjálsri verzlun.

Grundvöllur þessa frv. er sá að veita örfáum aðilum einkasöluaðstöðu, en það eykur aðeins gallana á núv. fyrirkomulagi þessara mála. Ríkisstj. veitir þessi forréttindi á þann hátt, sem ég tel ósamrýmanlegan lýðræðishugsjóninni. Frv. og grg. þess eru byggð á misskilningi og vanþekkingu frá mínu sjónarmiði, þótt ég ætli mér nú ekki að nota sterkari orð gegn hv. flm., og ég held, að hv. flm. hafi flutt þetta frv. án þess að athuga málið frá praktísku sjónarmiði.

Ég mun fylgja þessu máli til n., sem líklega verður hv. fjhn., sem ég á sæti í, og mun ég svo skila áliti einn eða með öðrum hv. þm. við 2. umr. málsins.

Mörg önnur atriði mætti minnast á í þessu sambandi, og er það þá ekki sízt fskj., sem fylgir frv., en eins og sú skýrsla kemur fram, er hún röng, og hefði ég getað búizt við því af hv. flm., sem er skýr hagfræðingur, að hann sæi þær misfellur, og eru misfellurnar almennt villandi fyrir menn, sem ekki þekkja til þessara mála, og harma ég, að með þessum hætti er ráðizt með hörku að verzlunar stéttinni, en ég staðhæfi, að eins miklar vörur hefðu ekki flutzt til landsins á stríðsárunum og raun ber vitni um, ef ekki hefði notið við dugnaðar og þekkingar verzlunarstéttarinnar, en t.d. gegnum persónuleg sambönd hennar fengust nægilegar vörur og leyfi í ýmsum tilfellum, sem annars hefði ekki orðið. Nei, viðskiptamálin verða ekki leyst með neins konar landsverzlun.