19.02.1947
Neðri deild: 77. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (4254)

164. mál, skipun innflutningsmála

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta verður aðeins stutt aths. Það var eitt atriði í ræðu hv. viðskmrh., að hann skýrði frá því, að meiri hl. Alþfl. hefði óskað eftir því, að frv. þetta yrði ekki flutt. Mér komu þessi ummæli hæstv. ráðh. mjög á óvart, og munu þau valda misskilningi. Það mætti á þeim skilja, að atkvgr. hafi farið fram um þetta í flokknum, en um það er ekki að ræða, en hins vegar var rætt um frv. í flokknum, og minnist ég þess, að fjórir þm. flokksins orðuðu þetta, en aðrir ekki.

Fáein orð um ræðu hv. 3. þm. Reykv. Það er fjarri mér að fara hér með neinar getsakir, en það, sem ég vildi segja, er, að það er erfitt að halda l. um verðlags- og gjaldeyriseftirlit, eins og skipun þeirra mála er nú háttað, og ég sagði, að fyrir nokkrum árum hefði verið höfðað mál vegna brota á þessari löggjöf, og dómar hafa fallið, en aðeins eitt þessara mála hefur komizt til hæstaréttar og dómur fallið í því, en hinum málunum hefur ekki verið skotið í hæstarétt, heldur dæmd af sakadómaranum í Reykjavík. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það andaði köldu í frv. í garð verzlunarstéttarinnar. Ég man nú ekki til þess, að nokkurn tíma, er till. hafa komið fram um nýtt skipulag verzlunarmála, aukin innflutningshöft og verðlagseftirlit, hafi ekki verið sagt, að það andaði köldu í garð verzlunarstéttarinnar. Það hefur verið jafnan sagt, að það andaði mjög köldu, og er það mjög hæversklegt, en stundum hafa það verið kallaðar beinar ofsóknir, og tilgangur þessa frv. er ekki sá að ofsækja neina stétt, en frv. felur í sér margt til bóta í því efni að koma á hagkvæmari skipan innflutningsmálanna.

Hv. þm. sagðist furða sig á, að þetta frv. kæmi hér fram, og vísaði þar til stjórnarsamningsins. Um þetta var aldrei samið, heldur skyldi athuga, hvernig þessum málum gæti verið betur fyrir komið, á ódýrari og hagkvæmari hátt. Annað er vafalaust ekki í þessu máli, en ég taldi rétta skoðun mína þrátt fyrir stjórnarsamninginn, og engum dettur það í hug, að þm. megi ekki bera fram frv. vegna hans.

Hv. þm. sagði, að. fáir fylgdu frjálsri verzlun, aðrir en verzlunarmenn sjálfir, og að verzlunarráðstefna hefði samþ. að afnema tolla um víða veröld, og er það rétt spor í áttina til frjálsrar verzlunar og einnig að afnema kvótafyrirkomulagið. En verzlun verður ekki algerlega frjáls, fyrr en í fyrsta lagi, að tollar og kvótar eru afnumdir, í öðru lagi, að ekkert eftirlit er með innflutningi, í þriðja lagi, að ekkert eftirlit er með gjaldeyri, og í fjórða lagi ekkert verðlagseftirlit., Í viðræðum um viðskiptamál hér á landi mætti oft ætla, að verzlunin væri alveg frjáls, en þótt innflutningurinn yrði frjáls, þá er gjaldeyririnn það ekki og þetta hvort tveggja ekki fyrr en allt verðlagseftirlit er afnumið, en málsvarar þess eru vart til.