10.01.1947
Neðri deild: 51. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Skagf. drap á ýmis atriði í sambandi við frv. þetta í ræðu sinni, og hann gat þess, að engin ástæða væri til þess að ásaka sendimanninn fyrir það, að hann flutti inn sjúkt fé. Ég veit ekki, hvern er hægt að ásaka fyrir það, ef ekki þann, sem flytur inn kindur, sem vitað er að voru sjúkar.

Ég vildi gera aths. við afstöðu hans til innflutnings karakúlfjárins. Ég vil minna á það, að á búnaðarþingi árið 1953 komu fram tvær till., önnur um það, að flytja inn karakúlfé, en hin um að dreifa því meðal bænda. Þessar till. höfum við, og þessi hv. þm. var þarna á búnaðarþinginu og veitti þeim stuðning, svo að honum ætti að vera þetta minnisstætt.

Um það, að kenna sjúkdóminn við það fé, sem hann barst með, ja, við það sé ég ekkert að athuga. Hv. þm. vildi svo vera láta sem þetta væri eitthvert latneskt heiti, en svo er það alls ekki. Við skulum segja, að einhver veiki hefði borizt með svarthöfðafénu og því verið nefnd svarthöfðapest eða eitthvað slíkt. Mér virðist, að það hefði verið ágætt nafn, og sama máli gegnir um hina svonefndu karakúlsjúkdóma.

Hvað flutning brtt. snertir, þá er mér það raunar ljóst, að hún getur alls ekki staðizt.