25.02.1947
Neðri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (4275)

174. mál, veiting prestakalla

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason.):

Herra forseti. — Svo sem kunnugt er, er núverandi skipun um veitingu prestakalla þannig, að í hvert skipti, sem prestakall losnar, fer fram kjör í hlutaðeigandi sóknum um umsækjendur, og telst kosning lögmæt, ef þátt tekur í kosningu helmingur atkvæðisbærra manna í sókninni og helmingur þeirra greiðir einum umsækjanda atkvæði sitt. Á hann þá rétt á veitingu fyrir embættinu. Þetta prestskosningafyrirkomulag er gamalt hér í landi, frá árinu 1885. Hafði Alþ. þá um alllangt skeið háð harða baráttu við dönsk stjórnaryfirvöld fyrir því, að meðlimir prestssóknanna fengi nokkra íhlutun um veitingu prestakalla. Eftir nokkurra ára baráttu fékk Alþ. fram vilja sinn, og voru l. um þessi efni staðfest árið 1886. Samkvæmt þeirri skipan fóru kosningar þá fram í heyranda hljóði, og áttu allir sóknarmeðlimir kosningarrétt, er greiddu til prests og kirkju. Var kosning talin gild, ef helmingur atkvæðisbærra manna greiddi atkv. og einhver umsækjenda fékk helming greiddra atkv. Er þetta ákvæði enn í gildi, svo sem áður er á minnzt, og á það rót sína að rekja til fyrstu prestskosningal. frá 1885. Þessi skipan hélzt óbreytt til ársins 1907, en 3 árum áður hafði verið kosin n. til þess að endurskoða þessi l., og á þingi 1907 náði frv. fram að ganga um þetta efni. Helztu breyt., sem þá voru gerðar, voru þær, að söfnuðunum skyldi heimilt að velja um alla umsækjendur, en ekki aðeins 2, ef 3 sæktu um prestakall, eins og fram að þessu hafði tíðkazt. Önnur breyt. var sú, að kosningarréttur skyldi ekki lengur því skilyrði háður, að sóknarmeðlimir hefðu goldið til prests eða kirkju, og þriðja breyt. var sú, að kosningar skyldu fara fram leynilega. Gengu allar þessar breyt. í lýðræðisátt. — Næst voru breyt. gerðar á l. árið 1915, sem voru miklu minni en þær, sem gerðar voru 1907. Varð þar m.a. sú breyting á, að kosning skyldi fara fram, jafnvel þótt aðeins einn umsækjandi gæfi sig fram. — Núgildandi l. um veitingu prestakalla eru því frá 1915.

Það má fullyrða, að gildar ástæður lágu til þess, að almenningur háði baráttu fyrir því á árunum fyrir 1885 að fá íhlutun um veitingu prestakalla. Íslendingar lutu þá dönskum yfirvöldum, ekkert lýðræði var til í landinu, og má segja, að þessi barátta hafi verið lýðræðisbarátta, barátta fyrir auknum áhrifum almennings á skipun þeirra mála, sem hann taldi þýðingarmikil. Embættismenn voru í þá daga ráðnir af landsstjórninni, sem kosin var af dönsku stjórninni, en prestarnir voru þeir embættismenn, sem almenningur átti mest saman við að sælda, og var því ofur eðlilegt, að hann vildi hafa áhrif á það, hverjir hlutu þau embætti.

Hitt ætti aftur á móti að vera ljóst, að nú eru þær aðstæður, sem voru fyrir hendi fyrir 1885, löngu burtu fallnar, þar eð þessi mál eru nú í höndum almennings. Landið hefur ekki alllengi lotið erlendu valdi, auk þess sem stjórnarfyrirkomulag okkar er lýðræðislegt og ríkisyfirvöldin kosin á lýðræðislegan hátt, og ætti því ekki að þurfa að óttast, að ríkisvaldinu sé misbeitt í vali embættismanna eða l. framkvæmd á ranglátan hátt gagnvart almenningi. Þær þýðingarmiklu ástæður, sem lágu fyrir því, að þessi skipun var upp tekin um veiting prestakalla fyrir hálfri öld, eru því fyrir löngu burtu horfnar, enda gildir sama fyrirkomulag og nú er á veitingu prestsembætta ekki um nokkur önnur embætti hliðstæð í þessu landi.

Þá ber og á það að líta, að á þessu fyrirkomulagi eru mjög margir gallar. Í fyrsta lagi er það mjög vafasamt, að þorri atkvæðisbærra safnaðarmanna sé fær um að dæma um hæfni umsækjenda um prestsembætti eftir þá stuttu kynningu, sem safnaðarmenn hljóta að hafa af umsækjendum, þegar prestskosning fer fram. Má því fullyrða, að það hafi oft komið fyrir, að kosning hafi farið öðruvísi en hún hefði farið, ef hinir atkvæðisbæru hefðu haft nánari kynni af prestsefnunum. Þess má og geta, að þegar um er að ræða hæfni prests til að gegna embætti, skipta persónulegir mannkostir hans og skoðanir verulegu máli, en um þetta er að sjálfsögðu ekki hægt að fá vitneskju nema eftir náin kynni sóknarmanna og umsækjenda, sem ekki er hægt að fá eftir stutta dvöl umsækjenda meðal væntanlegra kjósenda. Skiptir hér um allt öðru máli en þegar um er að ræða kosningar á stjórnmálasviðinu, þar sem þeir, er bjóða sig fram, hafa áður haft mikinn blaðakost til að kynna skoðanir sínar og ýmis önnur tæki til að koma sér á framfæri. — Sá galli er á þessu fyrirkomulagi, og hann tel ég mjög veigamikinn, að mjög erfitt er fyrir starfandi presta að skipta um verkahring. Prestar úti um land verða oft að sitja í sama brauðinu við rýran kost, sumpart sökum þess, að þeir treysta sér ekki eða hafa ekki geð í sér til þess að ferðast í fjarlæg prestaköll til þess að reyna að fá náð fyrir augum væntanlegra kjósenda þeirra, og er þeim gert því erfiðara fyrir sem þeir eru samvizkusamari og eru umfangsmeiri störfum bundnir gagnvart sínum sóknarbörnum. Af þessari ástæðu veldur þessi skipan því, að erfitt er að koma því fyrir, að starfandi prestar hljóti réttlátan embættisframa, þannig að þeir geti flutzt úr rýrum embættum til þeirra, sem betri eru, samkvæmt starfshæfni þeirra. — Þá má á það benda, að prestskosningar með núverandi fyrirkomulagi valda oft illdeilum milli umsækjenda og innan safnaðanna. Þá kemur og það til, að þetta fyrirkomulag má misnota. Er þess skemmst að minnast, er prestskosningar stóðu fyrir dyrum hér í Reykjavík, að mjög mikið kvað að því, að menn gengju í tiltekinn söfnuð, þ.e. dómkirkjusöfnuðinn, til þess eins að geta greitt atkv., og lá það orð á, að ef þessi kosning hefði ekki farið eins og hún fór, hefðu þeir hinir sömu farið aftur úr söfnuðinum. Getur ekki leikið á tveim tungum, að þetta er í hæsta máta óeðlilegt.

Í því frv., sem hér liggur fyrir og flutt er af hv. þm. N-Ísf. (SB) og mér, er gert ráð fyrir því, að horfið verði frá þessu prestskosningafyrirkomulagi og prestsembætti veitt eins og hver önnur embætti hér á landi. Þó er gert ráð fyrir því, að leitað skuli umsagnar biskups um umsóknir og að hann láti í ljós álit sitt á því, hverjum eigi að veita embættið. Við gerum ráð fyrir því, að biskupinn sé rödd kirkjunnar og safnaðanna gagnvart veitingarvaldinu og nægilegt, að hans rödd heyrðist, enda gengið út frá, að hann mundi og gæti haft samráð við aðra kirkjunnar aðila, þ.e. prófasta og sóknarnefndir.

Eftir frv. er ekki gert ráð fyrir, að veitingarvaldið snúi sér beint til prófasta og sóknarnefnda og leiti álits þeirra um umsóknirnar, heldur skuli biskupi afhentar umsóknirnar, og skal hann láta í ljós rökstutt álit á þeim. Þótti réttast, að frá honum kæmi það álit, en síðar hafa komið fram raddir um að breyta 2. gr. þannig, að álits annarra aðila verði og leitað. Því hefur hv. þm. V-Sk. flutt ásamt okkur flm. frv. brtt. við 2. gr., um það, að enn fremur verði leitað álits héraðsprófasts í viðkomandi héraði og sóknarnefndar um umsóknirnar. Af þessu er ljóst, að það var ekki tilætlun okkar að útiloka söfnuðina frá því að. geta haft umsagnarrétt um þá umsækjendur, sem koma til með að sækja um embættið. Vel getur komið til mála að hafa íhlutunarrétt safnaðanna meiri en hér er .gert ráð fyrir, en ég legg á það áherzlu, að hér sé um mikilvægt mál að ræða, og þarf mikillar athugunar við, ef leita á til allra þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, og komi fram eindregnar óskir frá hv. þm. um aðra og meiri íhlutun safnaðanna, þá erum við flm. til viðræðu um það.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn., og óska, að hún taki málið til nákvæmrar athugunar og ræði það við biskup og aðra þá aðila, sem hlut eiga hér að máli.