25.02.1947
Neðri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (4277)

174. mál, veiting prestakalla

Pétur Ottesen:

Ég skal nú ekki hafa mörg orð um þetta frv. En ég vildi þó nota tækifærið nú við l. umr. og segja nokkur orð. Ég tel, að það orki mjög tvímælis, hvort eigi að stíga það spor aftur á bak, sem hér er ráð fyrir gert. Og það hefur runnið upp fyrir flm., að hér stæðu þeir ekki föstum fótum. Það hefur ekki borið við áður, svo að ég muni, að flm. hafi borið fram brtt. við sitt eigið frv., áður en frv. var tekið fyrir. Svo fljótt hefur samvizkan slegið þá, og þeir hafa hlýtt kalli hennar með því að draga úr því, sem ákveðið var í fyrstu.

En ég get þó ekki tekið undir það með hv. 2. þm. Rang., að þessi breyting fullnægi mér, þó að hún yrði samþ., og ekki heldur þó að það yrði samþ., að biskup, prófastur og sóknarnefndir ættu að hafa úrskurðarvald í þessum málum. Nei, það er engin vissa fyrir því, að þeir yrðu sammála, og þá þurfa að vera ákvæði um það, hvernig þá eigi að fara að.

Ég get ekki fallizt á það, að þorri safnaðarmanna geti ekki að jafnaði lágt rökstuddan úrskurð á embættishæfni umsækjenda. Mér finnst undarlegt, að í landi, sem hefur lýðræðið að hyrningarsteini undir sínu þjóðskipulagi, skuli því jafnframt haldið fram, að þannig sé ástatt fyrir almenningi, sem á að velja sér trúnaðarmenn, að brjóta þurfi lýðræðisvenjur og það sé honum ofætlun að leggja þar á rökstuddan úrskurð. Það þarf að gæta þess, að við val presta koma til greina allt aðrar ástæður en við aðrar embættaveitingar. Eins og hv. flm. tók fram, standa prestar í mjög nánu sambandi við það fólk, sem þeir eiga að þjóna, og stendur það ekki í sambandi við dægurmáladeilur á öðrum sviðum, sem oft valda ágreiningi. Frá sjónarmiði trúaðra manna verður þetta samband að vera náið, og til þess að sá árangur náist, sem heppilegur er og nauðsynlegur, er áreiðanlega bezt, að söfnuðurinn geti fengið að velja sér þann mann til starfsins sjálfur, sem á að þjóna þessu mikilsverða hlutverki. Ég held því, að þetta frv. sniði ekki af þá vankanta í sambúð prests og safnaðar, sem nú eru, heldur mundu þeir þvert á móti aukast, og veit ég, að það er fullkomlega meining flm. frv. að bæta úr þessu grundvallaratriði, sambúð prests og safnaðar, en ég sé ekki, að það verði gert með þessu móti, og sé ég ekki, að nein rök hafi fram komið því til sönnunar, hvorki í grg. eða hjá hv. flm. í hans fyrstu ræðu.

Þá vildi ég minnast á það, sem talað er um í grg. á móti kosningum, að inn í þær spinnist ýmsir annarlegir hlutir, sem ekki komi þeim við, t.d. pólitík. Nú kann það að vera, að pólitík hafi slæðzt inn í kosningarnar á stöku stað, en þá er þess að gæta, að þeirri hættu er ekki bægt frá með þessu frv., þegar pólitískur ráðh. á að hafa síðasta orðið um þessar veitingar, og um það vildi ég aðvara þá, sem að þessari till. standa. Það eru mörg dæmi þess, að gildandi fyrirmæli um embættaveitingar eru brotin. Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að embætti eru veitt, án þess að þeim sé slegið upp, og því skyldi það ekki eins geta komið fyrir um þessi embætti, og hvar er sá varnagli, sem sleginn er samkvæmt þessu frv.? Það hefur oft komið fyrir, að það frumskilyrði, að embættunum sé slegið upp, hefur verið brotið, og það hefur verið látið óátalið. Í mesta lagi hefur verið skrifað um það í blöðin og síðan látið við svo búið sitja.

Ég held því, að hér sé ekki nægilega um búið, og ég er hræddur um, að þetta yrði frekar til að auka erfiðleikana en til þess að sníða af vankantana, og ég er hræddur um, að þetta yrði ekki lengi búið að standa, áður en það sprengdi þjóðkirkjuna. En varðandi óánægju af kosningum, þá grær venjulega fljótt um heilt fyrir minni hlutanum. En með þessari skipan held ég, að fáir eða engir mundu geta séð við afleiðingunum. Og ég er hræddur um, að það sé ekki til að styrkja trú manna á lýðræðið, ef svo væri að farið, sem hér er ráð fyrir gert, áhrifin gætu náð langt út fyrir það svið, sem þau ná nú til.

Í sambandi við brtt. á þskj. 442 má benda á það, að það getur líka verið óþægilegt að framfylgja þeim ákvæðum, sem þar eru, sérstaklega ef farið er inn á þá stefnu, að þessir þrír aðilar eigi að gera út um þetta. Af því gætu líka hlotizt óþægilegir árekstrar. Prófastur er oft einn af umsækjendum og því óhætt að slá striki yfir hann.

Þá er líka hætt við, ef biskup ætti að hafa úrskurðarvaldið, að óþægilegir árekstrar gætu orðið af úrskurði hans og valdið óánægju í sambúð hans og presta, þegar hann á að gera upp á milli þeirra.

Ein ástæðan fyrir þessu frv. er talin sú, að prestar geti sett mannorð sitt í hættu í kosningum. Ég sé nú ekki, að úr þessu sé bætt með þessu frv., því að eftir því, sem hv. flm. hélt fram, þá hlýtur þessi skipan ekki síður að vera hættuleg mannorði prestanna. Þegar biskup eða pólitískur ráðherra á að leggja dóm á hæfileika þeirra, fæ ég ekki annað séð en það sé ekki síður hættulegt mannorði þeirra. Svo held ég líka, að þessi ásteytingarsteinn verði ekki hættuminni, heldur hættumeiri fyrir viðkomandi prest, eftir að slík breyting væri komin á.

Eins og hv. 1. flm. hefur rakið hér, þá var það fyrir um 60 árum síðan, að það þótti mikill vinningur í sjálfstæðisbaráttu okkar að ná úr höndum valdhafanna því valdi að ákveða söfnuðum prest, þó að það væri með nokkrum takmörkunum, þannig að valdhafarnir gátu dæmt vissan hluta umsækjenda úr leik, þannig að það voru ekki nema sumir umsækjendur, sem komu undir dóm atkvæðanna. Þetta þótti samt sem áður mikill vinningur. En ég ætla, að þrem árum eftir, að stjórn var flutt inn í landið, hafi það verið álitið, að það ætti frekar að rýmka um þetta gagnvart söfnuðunum. En síðan 1907 hefur frekar þroskazt en sljóvgazt tilfinningin fyrir því að byggja okkar stjórnarfyrirkomulag upp á lýðræðisgrundvelli.

Hins vegar kemur það nú svo undarlega fyrir mínar sjónir nú á árinu 1947, þegar við að fullu höfum endurheimt sjálfstæði okkar og erum að byggja upp skipulag okkar á slíkum grundvelli, að þá skuli koma fram frv., sem gengur alveg í þveröfuga átt. Og með tilliti til þess, að þótt annar háttur sé hafður á með skipun annarra embættismanna í landinu, þá gerði ég í upphafi ræðu minnar grein fyrir því. Ég tel álver eðlilegt, að stjórnarvöldunum sé t.d. falið að skipa sýslumenn og lækna og þess háttar embættismenn, en ég tel hins vegar, að sambandið milli prests og safnaðar sé grundvallað á þeirri sérstöðu, að ef má telja eðlilegt og sjálfsagt, að stjórnarvöldin veiti önnur embætti og slíkar embættaveitingar séu byggðar á grundvelli þjóðskipulagsins, þá tel ég jafneðlilegt og sjálfsagt, að valið á presti, sem á að þjóna söfnuði, sé í hendi safnaðanna sjálfra og engra annarra.