25.02.1947
Neðri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (4278)

174. mál, veiting prestakalla

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. — Mig langar til að gera nokkrar aths. við þær tvær ræður, sem hér hafa verið fluttar gegn þessu frv.

Mér virtist grunntónn þeirra ræðna vera sá, að þetta frv. gangi beinlínis í einræðisátt, einkum ræðu hv. 2. þm. Rang., en báðir töldu þeir frv. skerðingu á lýðræðisréttindum í þjóófélaginu.

Ég hygg, að báðir þessir hv. þm. misskilji algerlega gildi lýðræðisins og hvað lýðræði í raun og veru er, hafi þeir haldið þetta. Lýðræði er í því fólgið, að sameiginlegum málum sé stjórnað að vilja eða í það minnsta ekki gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar. Og það getur verið fullkomið lýðræði í landi, þó að embættismenn þess séu ekki kjörnir. Í ýmsum lýðræðisríkjum heims þekkist slíkt fyrirkomulag ekki. Ég get ekki séð, að það hafi mikið gildi fyrir lýðræðið, hvort ein embættismannastétt er valin eftir þeim reglum, sem gilt hefur um prestastéttina. Það þekkist í Bandaríkjunum, að dómarar séu kjörnir. En nú hygg ég, að þessir tveir hv. þm. teldu það ekki til þess að auka lýðræðisréttindin í landinu, ef ætti að hafa héraðsdómara kjörna. En séu þeir ekki þeirrar skoðunar, að það sé ekki til þess að auka lýðræðið að hafa slíka dómara kjörna, þá falla þau ummæli um sjálf sig, að það sé skerðing á lýðræði að afnema prestskosningar. Ég held, að þessi meginrök gegn því að afnema prestskosningar, að álíta, að þar sé verið að skerða lýðræðið, séu algerlega á misskilningi byggð. Hitt er svo allt annað mál, að á sínum tíma, meðan ríkisvaldið var í erlendum höndum og æðsta stjórn ríkisins var í Danmörku, þá var það einn liður í baráttu okkar Íslendinga fyrir því í fyrsta lagi að vera óháðir þessu danska valdi og í öðru lagi fyrir lýðræðisréttindum að öðlast rétt til þess að hafa einhver áhrif á skipun þeirra embættismanna, sem taldir voru einna þýðingarmestir.

Önnur meginröksemd, sem fram hefur komið gegn þessu frv., var sú, að með því væri gengið á rétt safn. aðanna sjálfra. Í því sambandi hefur verið bent á, að vald safnaðarins til þess að kjósa sér prest væri svo þýðingarmikið, að hann mundi vafalaust vilja halda þeim rétti. Ég vil þá í því sambandi minna á það, að söfnuðir, í það minnsta hin síðari ár, hafa alls ekki notað sér þennan rétt eða vald, sem þeir hafa samkvæmt l. Söfnuðirnir hafa því aðeins vald til þess að hafa áhrif á prestskosningar, að prestskosningin sé lögmæt. Þetta vald hafa söfnuðir hér á landi yfirleitt alls ekki notað sér, svo að það verður ekki sagt, að það sé sérlega mikið frá þeim tekið, jafnvel þó að þessu yrði breytt, eins og gert er ráð fyrir í frv.

Eins og nú er, hefur pólitískur ráðh. síðasta orðið, ef kosningin hefur ekki verið lögmæt, og um langflestar embættaveitingar prestakalla á síðustu árum hafa pólitískir ráðh. haft síðasta orðið. Gegn þessu hafa ekki heyrzt raddir, hvorki frá hv. þm. Borgf. né hv. 2. þm. Rang., og hefði það verið ástæða til, ef slíkt væri hættulegt á annað borð, að ráðh. skipaði í þessi embætti. Ráðh. hefur getað beitt valdi sínu við langflestar prestskosningar hin síðari ár eða áratugi. Hins vegar hefur sú regla yfirleitt verið að skipa þann prest í embætti, sem flest atkv. hefur hlotið við kosningu, þó að það hafi ekki verið skylda ráðh.

Ef á að ræða þetta mál sem hagsmunamál kirkjunnar, þá eru á því tvær hliðar. Hv. andmælendur frv. hafa viljað halda því fram, að með þessu frv. væri gengið nokkuð á hagsmuni kirkjunnar sem stofnunar og safnaðanna. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar, og það er alls ekki neitt slíkt, sem fyrir mér og meðflm. mínum vakir. Það er að vísu rétt, að verði frv. að l., er réttur safnaðanna minnkaður frá því, sem nú er, en það er ekki tekinn af þeim annar réttur en sá, sem þeir hafa ekki notað sér um mörg ár eða áratugi. Og í raun og veru er veitingarvald ríkisvaldsins ekki aukið mikið frá því, sem verið hefur um langan tíma, svo að þessi breyting á aðferð við veitingu prestakalla hefur þegar lengi verið fyrir hendi.

En ég vildi líta á þetta mál sem hagsmunamál kirkjunnar sem stofnunar frá nokkuð öðru sjónarmiði séð. Við megum ekki gleyma því, og á það lagði ég nokkra áherzlu í framsöguræðu minni, að það er mikið hagsmunamál fyrir prestastéttina sem slíka, að hún eigi þess kost að geta flutt sig til milli embætta eftir venjulegum leiðum, sem gilda um önnur embætti, svo sem lækna og dómara. Það er mikið réttlætismál fyrir eldri presta, sem lengi og samvizkusamlega hafa gegnt embætti í rýrum prestaköllum, að þeir geti átt þess kost samkvæmt venjulegum embættaveitingum að geta flutt í betri og hægari prestaköll án þess að leggja á sig að ganga út í kosningarhríð í fjarlægum héruðum — sem sumum prestum mun oft hafa verið um geð — og innan um ókunnugt fólk. Ég sé ekki, að það sé neitt hagsmunamál fyrir prestastéttina að hafa það kosningarfyrirkomulag, sem verið hefur í gildandi l., og ég hygg, að einmitt prestastéttinni sé það kosningarfyrirkomulag mjög hvimleitt og því hvimleiðara, eftir því sem tímarnir hafa liðið fram. Ég álít það mikið hagsmunamál fyrir prestastéttina og kirkjuna sem stofnun, að það fyrirkomulag verði framvegis, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég álít, að það megi ekki gleyma að meta það, að það er mikið hagsmunamál fyrir prest að eiga kost á réttlátum frama í stéttinni, auk þess sem ég álít það til mikilla bóta fyrir stéttina og starf þeirra manna, sem þar um ræðir, að verða leystir undan þeirri venju að þurfa svo að segja að berjast og oft leiðinlegri baráttu fyrir hverjum frama, sem þeir vilja ná á embættisbrautinni.

Þá var það eitt atriði í ræðu hv. þm. Borgf., sem ég vildi minnast á. Hann gat um, að við flm. mundum fljótlega, eftir að frv. var fram komið, hafa séð okkur um hönd vegna samvizku okkar og þess vegna borið fram brtt. ásamt hv. þm. V-Sk. Þessi ummæli hv. þm. eru á misskilningi byggð. Okkur hafði, eins og samtöl okkar við. hv. þm. V-Sk. og fleiri bæði innan þings og utan bera vitni, aldrei komið til hugar að útiloka prófast eða sóknarnefnd frá að láta álit sitt í ljós um umsækjendur. Við höfðum talið nóg að ætla biskupi að afla sér álits prófasts og sóknarnefnda. En þar sem við höfðum orðið varir við, að þetta var misskilið, varð að ráði,. að við ásamt hv. þm. V-Sk. tækjum af öll tvímæli um vilja okkar í þessu efni. Þess vegna kom fram þessi brtt., svo að það er ekki ný skoðun frá okkar hálfu, sem fram kemur í brtt., heldur er einungis þar að ræða um áréttingu á frv. sjálfu og leiðrétting til samræmis við það, sem við höfðum ætlazt til. Það er því ekki rétt skilið, að ég hafi borið upp neinar breytingar á þessu frv. Ég lét orð falla um það, að ef einhver hv. þm. vildi koma með till. um það, að söfnuðurinn hefði meira vald um val prestsins en gert er ráð fyrir í frv., en þó ekki úrskurðarvald, þá værum við til viðtals um það. Annað sagði ég ekki.