07.03.1947
Neðri deild: 88. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (4321)

188. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Með frv. þessu er farið fram á að breyta 3. mgr. 3. gr. l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands. Þegar þessi l. voru sett, þá þótti nokkuð orka tvímælis um, hvaða mannvirki skyldu falla undir fríðindi l., og þá einnig, hvaða tímatakmark skyldi sett um byggingu mannvirkjanna, sem hlunnindanna áttu að njóta. Ég var nokkuð við samninga riðinn um þetta mál og man þá einnig vel eftir því, að sérstaklega var rætt um, hvort ekki væri ástæða til að fella undir l. þau hraðfrystihús, sem reist höfðu verið, eftir að dýrtíðin var verulega tekin að hækka, en þó hafði verið lokið við fyrir 1. jan. 1944, en við þann dag er miðað í sjálfum l. Það varð ekki verulegur ágreiningur um þetta. Menn stóðu ekki fast á rétti þeirra húsa, sem höfðu verið reist fyrir þennan dag, en það var heldur ekki nein veruleg andstaða um það að gefa þeim þessi fríðindi, ef á því máli hefði verið nægilega fast haldið. Nú hefur það komið í ljós eftir að þessi l. voru sett, betur en a.m.k. mér þá var ljóst, að mikil og meiri sanngirni en ég hafði gert mér grein fyrir mælir með því að veita fríðindi l. einmitt þeim frystihúsum og beitugeymsluhúsum, sem byggð voru, eftir að dýrtíðin var verulega tekin að aukast, enda þótt ekki væri lokið við þau fyrir þann dag, sem l. annars miða við. Þessi frystihús voru reist af brautryðjendum á þessu sviði. Sumir þeirra voru það vel efnum búnir, að þeir hafa komizt fram úr þessu, en aðrir voru svo heppnir að vera búnir að ljúka við sitt frystihús, áður en dýrtíðin hækkaði verulega. En einstaka menn eru þarna á milli, og hygg ég, að þar sé ekki um mörg frystihús að ræða, heldur séu þau fá, en ég tel mikla sanngirni í því, að löggjafinn standi ekki í veginum fyrir því, að þessi frystihús fái notið fríðinda þessara l. Ég tel óþarft á þessu stigi málsins að færa fyrir þessu litla frv. fleiri rök en gert er í grg. að viðbættum þessum fáu orðum. Vil ég leyfa mér að mælast til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjhn.