25.03.1947
Neðri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (4331)

205. mál, héraðshæli

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 551 og ég hef leyft mér að flytja ásamt þrem öðrum þm., hefur að geyma tvær mikilvægar breyt. frá því, sem verið hefur um sjúkrahúsabyggingar. Í fyrsta lagi, að byggð séu sjúkrahús fyrir eitt eða fleiri héruð, þannig að þeim sé skipt í deildir, svo þau geti tekið á móti sjúklingum, geti tekið við konum, sem þurfa að fæða og ekki geta komizt til ljósmóður, þannig að þær geti fætt heima, geti verið vistheimili fyrir gamalmenni og einnig heilsustöð fyrir viðkomandi hérað.

Það má segja, að þótt alltaf hafi verið þörf fyrir þetta í hverju einasta héraði, hefur sú þörf farið vaxandi á síðari árum, eftir því sem fólkinu hefur fækkað í héruðunum, því að nú eru engir á heimilunum til þess að annast sjúklinga, ef veikindi ber að höndum, eins og hvarvetna á sér stað.

Okkur flm. virðist, að við svo búið megi ekki sitja og ódýrara sé að byggja slíkt hæli sameiginlega fyrir allar þær greinar, sem hér er um að ræða, en að byggja sitt í hverju lagi, eins og hefur verið og raunverulega er í stærri bæjum. Þess vegna er hér um að ræða breyt. á skipulagi, sem getur haft mikla breyt. í för með sér á heilbrigðismálum landsins.

Hin breyt. er um að hækka hlutfallið, sem ríkissjóður greiðir til slíkra hæla, þannig að greitt verði úr ríkissjóði 2/3 kostnaðar eins og til heimavistarbarnaskóla í landinu, og er sízt minni þörf að byggja slík hæli og að ríkissjóður leggi fram jafnmikinn skerf til byggingar þeirra eins og til barnaskóla.

Að öðru leyti hefur verið gerð rækileg grein fyrir tilgangi þessa frv. í grg, þess, og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið við þessa umr., ef ekki gefst sérstakt tilefni til, og óska ég, að því verði að umr. lokinni vísað til heilbr.- og félmn.