12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (4349)

227. mál, kola- og saltverzlun ríkisins

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. — Ég þarf ekki mikið að svara ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann játaði, að það væri rétt með farið hjá mér, að undanfarið hafi oft orðið vart við skort á þessum vörum, og hefur það valdið útgerðinni hinum þyngstu búsifjum, en hann gerði tilraun til að koma ábyrgðinni yfir á ríkisvaldið að verulegu leyti, það, sem aflaga hefði farið, hafi ekki verið að kenna innflytjendunum, heldur því, að ríkisvaldið hafi ekki fullnægt þeim þætti, sem því var ætlaður. Nú fer því fjarri, að ég vilji kenna innflytjendunum um þetta að öllu leyti sem einstaklingum, heldur skipulaginu eða öllu heldur skipulagsleysinu. Það hefur átt verulegan þátt í því, að ástandið er ekki eins gott og það ætti að vera og þarf að vera, en mér kemur á óvart, að því skuli haldið fram, að ríkið hafi gegnt sínu hlutverki illa. Ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. veit það eins vel og ég, að ef ríkið hefði ekki gengið í þessi mál, hefðu líklega engin kol eða salt fengizt hingað í langan tíma. Ég held því, að hið opinbera hafi sýnt hinn mesta dugnað í þessum málum. Allar framkvæmdir í þeim hafa hvílt á sendiráðunum í London og Washington, svo að ádeila hv. 3. þm. Reykv. er á sendiráðin, og kemur mér sannast að segja á óvart, að hv. þm. skuli ámæla þeim, ég vil segja ágætu mönnum, sem gegnt hafa sendiherrastörfum á þessum stöðum. Hafi ríkið ekki beitt því, sem það hefur getað, verður það að bitna á þessum sendiráðum, og það hygg ég, að sé ekki réttmætt.

Auðvitað hefur skorturinn, sem oft hefur verið á þessum vörum, átt rót sína að rekja til erfiðleika á útvegun vörunnar, en sumpart til þess, að flutningur og dreifing vörunnar innanlands hefur ekki notið neinnar heildarstjórnar. Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni, að fleiri en einn kolafarmur hefur verið keyptur til landsins í einu, en svo liðið langur tími svo, að ekkert var keypt. Þetta stafar af samtakaskorti þeirra, sem inn flytja, að þeir hafa ekki haft samtök með sér um það, á hvaða tíma varan skuli keypt. Þá hef ég líka haldið því fram án þess að ásaka neinn sérstakan innflytjanda, að ekki hafi verið séð nægilega fyrir þörfum smáverzlana utan Reykjavíkur, og gæti ég nefnt um það mörg dæmi, ef ég vildi lengja með því umr. En það er ekki við því að búast, þegar verzlunin er rekin af einstaklingum, að þeir hugsi mikið um það. Verzlunin er rekin með það fyrir augum, að hún sé sem ódýrust í rekstri og skili hæfilegum hagnaði, en minna hugsað um að fullnægja þörfum smærri verzlana, þar sem það veldur sérstökum kostnaði, en oft hægt að koma vörunni út á gróðavænlegri hátt.

Þá taldi hv. 3. þm. Reykv., að verzlunin hafi verið útgerðinni hagstæð og af þeim sökum sé ekki ástæða til breyt. En ég er ekki viss um, að útgerðin sé þeirrar skoðunar, því að varla hefði útgerðarmönnum þá dottið í hug að fara að taka þessa verzlun í sínar hendur, en það er kunnugt, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna gerði ráðstafanir til þess að fara að reka þessa verzlun, og að það var ekki gert, stafaði af því, að ekki var hægt að hafa hana eins víðtæka og útgerðarmenn hefðu kosið vegna skorts á fjármagni og af fleiri orsökum. En þessi staðreynd sýnir, að útgerðarmönnum finnst verzlunin ekki hagkvæm eins og hún er rekin nú.

Þá ræddi hv. 3. þm. Reykv. um verðjöfnun á kolum og andmælti henni eindregið, og skildist mér, að hann væri þar að andmæla henni sem minni skoðun. En nú stendur ekkert um þetta í frv., en ég varpa því aðeins fram í grg. til athugunar. Ég er ekki að gerast talsmaður þessarar skoðunar, en vitað er, að hún mun eiga allmarga formælendur. En ég varpa henni aðeins fram til athugunar, hvort hún muni eðlileg eða ekki, en erfitt mun að framkvæma hana, nema ríkið hafi með verzlunina að gera. Ég tek því ummæli hv. þm. um þetta atriði ekki sem andmæli til mín.

Hv. 3. þm. Reykv. taldi, að frv. þetta væri fram borið vegna almenns áhuga míns á að þjóðnýta sem mest af verzluninni. Rétt er það, að ég er þeirrar skoðunar og minn flokkur, síðan hann var stofnaður, að verzlunin, og þá sérstaklega innflutningsverzlunin, sé þann veg bezt komin, að ríkið annist hana sem mest. En þetta frv. er ekki einungis borið fram af þeim sökum. Ríkisverzlun er misjafnlega hagkvæm, en á þessu sviði er hún það alveg sérstaklega. Hinar ýmsu vörutegundir eru misjafnlega vel fallnar til þjóðnýtingar, en þessar standard-vörur eru alveg sérstaklega vel fallnar til þess. Verzlun með þær er tiltölulega einföld, þær krefjast mikils fjármagns, og það er þannig, að bankarnir „finansera“ næstum algerlega verzlunina með þær, og er því eðlilegt, að það fjármagn renni beint til ríkisins. Hv. 3. þm. Reykv. spurði þess og sagðist hafa saknað, að grein væri fyrir því gerð, hvernig ætti að afla fjármagns og húsakosts til þessarar verzlunar, og virtist hann draga í efa, að þetta væri framkvæmanlegt. Ég veit ekki vel, hvað hefur vakað fyrir hv. þm. Verzlunin hefur haft og mun enn um skeið fá fjármagn frá bönkunum, og sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að það renni til ríkisins eins og einstaklinga. Hús og tæki eru til og jafnvel til meiri verzlunar og starfsemi en nú er. Ríkið verður að hafa með höndum erfiðasta hluta þessarar verzlunar, og er því ekki nema eðlilegt, að það hafi líka þann auðveldari hluta hennar, þann hlutann, sem arðvænlegur er.

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. 3. þm. Reykv. frekar né að fara að gera þessa umr. að almennum rökræðum um einstaklingsverzlun og ríkisverzlun. Ef einhvern tíma á fyrir okkur hv. 3. þm. Reykv. að liggja að ræða þetta nánar, sem ég er fús til, þá mun gefast betra tækifæri síðar. Hér er ekki hið almenna skipulag til umr., heldur er aðeins um sérstakar vörur að ræða, vörur, sem eru sérstaklega vel lagaðar til þess, að ríkið annist að mestu eða öllu leyti verzlunina með þær. Hvaða ástæða er til þess, að þessi aðili annist ekki dreifinguna, en láti einstaklinga hafa hana með höndum og njóta hagnaðarins af dreifingunni? Í stríðinu var það svo, að einstaklingar gátu ekki annazt útvegun vörunnar né útvegun nauðsynlegra flutningatækja, og ég heyrði hv. 3. þm. Reykv. ekki koma með nein rök, sem mæltu gegn því, að það væri eðlilegt, að ríkið annaðist að öllu leyti dreifingarþáttinn, úr því að það annast hinn vandasamasta þátt hennar. Úr því að ástæða þykir til að þjóðnýta hinn vandasamasta hlutann, þá ætti ekki síður að taka dreifinguna innanlands í hendur hins opinbera. Fyrst ríkið verður að sjá um flutninginn til landsins, þá ætti það einnig að sjá um hinn vandaminni þáttinn og njóta um leið hagnaðarins. En aðalatriðið er, að dreifingunni innanlands verði komið í viðunandi horf.