31.01.1947
Neðri deild: 64. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Landbn. hefur nú athugað nokkuð þetta frv. enn á ný milli 2. og 3. umr. og flytur nokkrar smávægilegar brtt. sameiginlega á þskj. 343. Fyrst er brtt. við 37. gr. varðandi bætur.

Sannleikurinn er sá, að við gerum tæplega ráð fyrir, að í l. sé hægt að taka út yfir öll atvik. sem kunna að verða fyrir hendi í sambandi við bætur. því að þau eru mörg, og verður það að útfyllast nokkuð með reglugerð. En þessi brtt., sem við flytjum hér, er að nokkru leyti flutt í samráði við framkvæmdastjóra varnanna, og 1. brtt. er það aðeins að bæta inn í á eftir orðunum „reisa bú“: „eða eru að byrja fjáreign,“ þ.e.a.s. að bæta við það, sem fyrir er, þeim mönnum, sem byrja fjáreign á tímabilinu, sem á milli ber, því að þeim getur undir sumum kringumstæðum fjölgað, þó að niðurskurður sé ákveðinn, á því þriggja ára tímabili, sem á milli ber.

Þá er b.-liður. Hann fjallar um það, að þeir sem hætta búskap eða flytja burtu af fjárskiptasvæðinu þetta þriggja ára tímabil, fái ekki neinar bætur, og er það í sjálfu sér það, sem við höfum alltaf ætlazt til, að yrði í framkvæmd.

Við 38. gr. er öllu meiri breyt., og er aðalbreyt. sú, að ekki sé skylt að láta líflömb í bætur af ríkisins hálfu fyrir meira, en 70% af bótaskyldri fjártölu, og sé útvegað fimm sjöundu af þeim haustið, sem fjárskipti verða, en það, sem til vantar, næsta haust á eftir. Enn fremur, að sé ekki hægt að útvega lömbin svo fljótt, þá beri að greiða afurðatjónsbætur fyrir þau, er til vantar. á fyrsta ári, á sama hátt og fyrir er mælt í 40. gr. Þá er enn fremur sú brtt., að framlag ríkisins skuli greitt upp í verð lambanna, en ekki skuli skylt að greiða það, fyrr en ári eftir, að fjárskipti fóru fram. Þetta er að nokkru leyti byggt á því, að nefndin, sem þessum málum stjórnar, telur óhagstætt að þurfa að taka upp allar bæturnar sama haustið og fjárskipti fara fram. Þetta ætti ekki að koma að mikilli sök vegna þess, að hjá þeim bændum, sem skorið er niður hjá, ættu að vera öllu rýmri ástæður það haustið, sem niðurskurður fer fram, heldur en næsta haust á eftir. Þá eru örðugleikarnir meiri og því réttara að borga bætur ríkisins þá.

Í þriðja lagi er svo brtt. við 39. gr., sem fjallar um það, að í stað þess, að það er heimilt að borga uppeldisstyrk vegna vanhalda, þar sem menn verða að bíða, þangað til fara fram fjárskipti, og aðstaðan er þannig að öðru leyti, að það eru ekki góðir möguleikar til mjólkurframleiðslu, þá sé skylt að veita uppeldisstyrkinn á þeim stöðum, en ekki eingöngu heimilt. Vænti ég þess, að hv. dm. geti fallizt á þessar brtt. og þurfi ekki miklar umr. um þær að verða.

Þá skal ég aðeins segja nokkur orð um brtt. sem ég flyt einn á þskj. 305. Hún er um það að breyta nafninu á þeirri n., sem ætlazt er til, að hafi með höndum stjórn þessara mála, en hún á samkvæmt frv. að heita sauðfjársjúkdómanefnd, og er það í sjálfu sér klúðurslegt nafn. N. gekk lengi undir nafninu mæðiveikinefnd, en því hefur verið breytt, eftir að fleiri sauðfjársjúkdómar, en mæðiveikin komu inn í löggjöfina. Ég legg til, að nafninu verði breytt í sauðfjárvarnastjórn, og það er byggt á því, að sú stofnun, sem þessi n. stjórnar, hefur frá upphafi gengið undir nafninu sauðfjárvarnir, og það nafn er prentað í öllum skjölum, sem frá henni ganga, auk þess, eins og tekið er fram í fyrirsögninni. er frv. fyrst og fremst l. um varnir fyrir okkar sauðfé, varnir milli héraða og varnir þess, að okkar sauðfé verði þessum ægilega sjúkdómi að bráð. Ég kann betur við að kalla þessa n. stjórn — sauðfjárvarnastjórn — en hitt, að kenna hana beint við sjúkdóminn, mæðiveikinefnd, sauðfjársjúkdómanefnd. Náttúrlega er það smekksatriði, hvort menn fella þessa brtt. eða ekki, og skal ég ekki hafa um það fleiri orð.

Varðandi brtt. 340 þá skal ég ekki neitt um hana segja, fyrr en hv. flm. hafa gert grein fyrir sinni skoðun, en hvorki hún né mín till. voru bornar upp í landbúnaðarnefnd.