31.01.1947
Neðri deild: 64. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Jón Pálmason):

Út af þessari ræðu hv. þm. Ak. vil ég taka það fram, að það er siður en svo frá minni hálfu eða nokkurs manns, að þetta sé hugsað sem tilhneiging til þess að vera með neinar hnífsstungur í hann eða hans embætti. Mörg meginatriðin í þessu frv. eru þannig stíluð, að það á að leita til hans sem yfirmanns þessara mála, og það er síður en svo, að það sé verið nokkurn hlut að niðurlægja hann eða hans embætti, hvorki með þessu nafni eða öðrum. sem fram koma í þessu frv. Þetta er þess vegna óþarfa viðkvæmni hjá hv. þm. Ak. Hann getur getið því nærri, hvort við í landbn. viljum vera með nokkrar árásir eða átölur á dýralæknalöggjöf eða dýralæknastétt landsins, þar sem við fyrir fáum dögum fluttum frv. um að fjölga í þeirri stétt.

Hér er aðeins um að ræða yfirstjórn þeirra mála, sem þetta frv. fjallar um, og það er ekkert óeðlilegt, að hún heiti sauðfjárvarnastjórn, og það raskar ekkert virðingu eða metnaði hv. þm. Ak., enda væri það með öllu óviðeigandi. Varðandi till. hv. þm. Skagf. um breyt. á nafni á þessum sjúkdómum, þá er það breyt. á þeirra eigin till., sem var samþykkt við 2. umr. og lítið bætti úr vegna þess, að það átti bezt við, að nafnið á þessari n. væri kennt við sinn uppruna.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða þetta mál mikið. Það má t.d. nefna, að garnaveiki er engu siður nautgripasjúkdómur, en sauðfjársjúkdómur. Nautgripir eru að vísu búfé, en með orðinu fé er alltaf í sveitamáli átt við sauðfé. Að öðru leyti skal ég láta þetta hlutlaust.