13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (4383)

249. mál, búfjárrækt

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég mun ekki flytja langt mál um þetta frv., sem landbn, flytur hér á þskj. 809.

Núgildandi 1. um búfjárrækt eru frá 1930 og eru eðlilega orðin úrelt á ýmsan hátt. Það hafa komið mörg ný atriði fram varðandi búfjárrækt síðasta hálfan annan áratug, og er því eðlilegt, að löggjöf þessa þurfi að endurskoða og breyta á ýmsan hátt. Það er með þetta fyrir augum; sem þessi endurskoðun á búfjárræktarl. hefur farið fram. Var hún fyrst framkvæmd af ráðunautum Búnaðarfélags Íslands og síðan lögð fyrir búnaðarþing í vetur, sem fór rækilega gegnum frv., gerði við það ýmsar breyt. og afgreiddi það síðan með samkomulagi eða a.m.k. að sumu leyti með samkomulagi. Stjórn Búnaðarfélags Íslands óskaði eftir því, að landbn. Nd. vildi koma málinu á framfæri, og varð n. við því. En þótt n. flytji frv. öll hér, þá má ekki skilja það svo, að hún muni telja sig skuldbundna til að fylgja málinu í öllum einstökum atriðum, heldur eru allir nm., sem áskilja sér rétt til að bera fram brtt. undir meðferð málsins og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég skal sömuleiðis geta þess, að það er ekki hugmynd landbn., að þetta frv. verði afgr. á því þingi, sem nú situr, störfum þess er svo langt komið. En n. taldi sérstaklega heppilegt, að frv. yrði prentað, svo að almenningur gæti kynnt sér málið, af því að hér er um stóran lagabálk að ræða, sem ýmis nýmæli eru í, fyrir næsta þing, en þá er það hugmynd n., að mál þetta verði flutt á ný og tekið þá til rækilegrar meðferðar. Af þeirri ástæðu, sem ég hef hér nefnt, sé ég ekki ástæðu til að rekja málið í einstökum atriðum, skýra frá helztu nýmælunum o.s.frv., en tel heppilegra að gera það, þegar málið kemur fyrir Alþ. aftur, sem væntanlega verður í upphafi næsta þings. Með það fyrir augum, sem ég hef hér sagt, vil ég láta máli mínu lokið að þessu sinni.

Ég geri ekki ráð fyrir, að landbn. óski eftir, að málið verið tekið til meðferðar aftur á þessu þingi, því að höfuðtilgangurinn er nú, að menn geti kynnt sér þennan lagabálk fyrir næsta Alþ.