16.10.1946
Efri deild: 3. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (4389)

1. mál, brúargerðir

Flm. (Gísli Jónsson):

Ég hef einnig flutt hér á þskj. ? breyt. við brúalögin og ætla að fara aðeins nokkrum orðum um þetta mál. Fyrst er a-liður. Þar er gert ráð fyrir, að teknir séu inn fjórir nýir töluliðir. Ég sé ekki ástæðu til að ræða það frekar, því að að sjálfsögðu er þetta bundið því, að frv. á þskj. 6 sé samþ. Verði það samþ., verða þessar brýr einnig teknar inn á brúalög. Hið sama gildir um b-lið, að þar koma fjórir nýir töluliðir, og verði d-liður á þskj. 6 samþ. og sá vegur, sem þar getur um, tekinn í þjóðvegatölu, þá koma þessar brýr einnig inn á brúal. Loks er c-liður, töluliður eitt. Þessi á er þegar á þjóðvegi, og er því réttmætt, að hún sé tekin inn á brúalög. Annar til fjórði töluliður, brýr í Suðurfjarðahreppi, eru hins vegar bundnir því, að b-liður á þskj. 6 nái samþykki, og verða þá þessar brýr teknar inn á brúalög. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar. Ég vil biðja hv. samgmn. að taka þetta mál til rækilegrar athugunar, en ég óska, að málinu verði vísað til hennar.