27.11.1946
Efri deild: 21. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (4394)

86. mál, landshöfn og fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Fyrir nokkrum árum sat hér á rökstólum mþn. í sjávarútvegsmálum, eins og flm. gat um, og átti hún að gera till. um skipun hafnarmála og semja l. um málefni útgerðarinnar. Þetta gerði n. og skilaði frv. um hafnargerðir og lendingabætur, sem samþ. var og afgr. sem l. Þetta var mikið spor í áttina frá því, sem áður var. Þá kom það fram í þessari mþn. í sjávarútvegsmálum, að það bæri að vinna að því, að nokkrar hafnir yrðu gerðar að sérstökum landshöfnum, sem ríkið kostaði að öllu leyti og ræki vegna þess, hve almenna þýðingu þær hafa fyrir fiskveiðar landsmanna, sérstaklega þær hafnir, sem lágu vel við fiskimiðum og fleiri sækja að en heimamenn og þar sem kauptúnin eru þess ekki umkomin að afla fjár til stórkostlegra mannvirkja. Menn voru þó ekki á einu máli um það, hvaða staðir yrðu teknir, nema um einn stað: Njarðvík eða Keflavíkur- og Njarðvíkurhöfn, sem allir voru á einu máli um, að byrjað yrði á, vegna þess, hve þýðingarmikil sú stöð er, og vegna þess, að um mörg undanfarin ár hafa farið þar fram ýtarlegar rannsóknir. Aðrir staðir voru Höfn í Hornafirði, Rif á Snæfellsnesi, Skagaströnd og nokkrir fleiri, en þetta voru fyrst og fremst þeir staðir, sem komu til greina. En um alla þessa staði var það sameiginlegt, að nauðsynlegar rannsóknir lágu ekki fyrir, til þess að hægt væri að hefjast handa á þeim grundvelli, sem fyrir lá. Um annan staðinn, Höfn í Hornafirði, var borið fram frv., eins og flm. tók fram, og afgr. með rökst. dagskrá, vegna þess að heppilegra þótti að fresta málinu, þangað til ýtarleg rannsókn lægi fyrir. Nú er mér kunnugt um það, að það hefur farið fram ýtarleg rannsókn á mörgum þessum stöðum á s.l. sumri, en vegna þess, að aldrei hafa verið jafnmikil verkefni fyrir hendi hjá vitamálastjóra og nú, og eins vegna þess, að hann var fáliðaður, þá hefur ekki enn unnizt tími til þess að skila árangrinum af þessum rannsóknum. Þannig hef ég ekki fengið í mínar hendur neinar upplýsingar um þær rannsóknir, sem gerðar voru á Hornafirði, og heldur ekki um það, sem gert var í Þórshöfn, en ég veit þó, að á þeim stöðum tveimur hefur þessum rannsóknum verið flýtt eins og mögulegt hefur verið. Þar við bætist svo þriðji staðurinn, sem ég vil líka telja, að eigi að vera í fremstu röð, og skal ég ekki segja, hver á að vera fyrstur af þessum þremur. Þess vegna vildi ég, um leið og ég er mjög samþykkur því, að þetta mál fari til n., óska þess, að það verði ekki afgr. eitt út af fyrir sig, áður en nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir, heldur verði beðið eftir upplýsingum, og ég segi þetta ekki einasta um þennan stað, heldur einnig um hina, sem þar koma til álita jafnframt, bæði Rif og Þórshöfn. Ég hefði talið, að þær upplýsingar væru svo nærri, að þær ættu ekki að tefja málið, og vegna þess, í hvaða röð málið er afgr., tel ég rétt og sjálfsagt að þessar upplýsingar lægju fyrir.

Það er að vísu í þessu frv., sem hér hefur verið lagt fram af hv. 8. landsk. og fleirum, gert ráð fyrir ákveðinni upphæð til þessara mannvirkjagerða, en ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að þessi upphæð sé langt fyrir neðan það að svara til hins raunverulega. Í 1. gr. segir: „Til hafnarmannvirkja teljast: Hafnargarðar, hafskipa- og bátabryggjur, verbúðir, dýpkanir, uppfyllingar, dráttarbrautir, vélar o.fl., sem nauðsynlegt má teljast við byggingu og rekstur hafnarinnar.“ Svo er, til að greiða þennan kostnað, gert ráð fyrir 2 millj. kr. í næstu gr. á eftir. Eftir því sem ég þekki til, bæði um kostnað við mannvirkjagerð af þessu tagi og einnig um það, hvernig högum er háttað á Hornafirði, þá tel ég mega slá því föstu, að þessi upphæð sé langt fyrir neðan það, sem ætla mætti, að gæfi nokkurn verulegan árangur.

Það, sem fyrst þarf að gera, er að fá dýpkun, og möguleikar opnast, þegar ríkið fær dýpkunarskip, að geta hafizt handa um framkvæmdir, en þó ber þess að gæta, að margir bíða, því að þörfin er brýn víða, en að sjálfsögðu mundi Höfn í Horna. firði verða einn af þeim stöðum, sem fyrst kæmu til álita. Auk þessa, sem ég hef nefnt, verður að kaupa höfninni eitthvert land, og ég vil, af þessu tilefni, skýra frá því, hvernig gengið hefur að afla lands til landshafnarinnar í Njarðvíkum og Keflavík. Það hefur verið lögð á það mikil áherzla af ýmsum þm., að ekki yrði hafizt handa um mannvirkjagerð eins og þessa, nema áður væri tryggt, að land fengist keypt; a.m.k. nokkurn veginn nægilegt land til framkvæmdanna. Þess vegna var það, að þegar hafnar voru byrjunarframkvæmdir í Njarðvíkum, þá var landeigendum tilkynnt, að ef ekki næðust samningar við þá um landakaup, þá mundi ekki verða haldið áfram framkvæmdum og hætt því, sem byrjað var á. Þegar þessi mál voru rædd við sjútvn. þessarar d. og fjvn., þá var frekar talið ólíklegt, að þetta mundi gerast með samningum heldur en með mati, vegna þess að reynsla er fengin af því víða, að landverð með mati getur farið hátt, og þá er ríkissjóður bundinn við kaupin, ef mat hefur verið látið fara fram, og þess vegna er eingöngu um samningaumleitanir að ræða. Þær samningaumleitanir eru þannig, að það land, sem er að vestanverðu við landshöfnina, svo kölluð Ytri-Njarðvík, 30–40 ha., var fáanlegt fyrir nokkuð á aðra millj. kr. Þá var eftir að kaupa landið í Keflavík og Innri-Njarðvík, og var það sízt minna, en það land, sem þar var, var fáanlegt fyrir rúmlega 1 millj. kr. Þessu var svarað þannig, að landið yrði ekki keypt þessu verði, og hefur það orðið til þess, að nú hefur verðtilboðið lækkað nokkuð, eða ofan í helming þessarar upphæðar, og geri ég ráð fyrir, að um það takist samkomulag, en það þýðir, að landakaup fyrir höfnina munu í upphafi nema sjálfsagt eitthvað á aðra millj. kr., og þó er ekki tekið nema það, sem nauðsynlegt er til þess að geta séð höfninni fyrir hæfilegu landi. Ég get þessa vegna þess, að ég tel víst, að einnig í Hornafirði þurfi að kaupa land, — og þurfi að kaupa land, þarf einnig til þess fé. En mér skilst, að sumt af því landi, sem þar kemur til greina, eins og t.d. Áley, sé í einkaeign, en í frvgr., eins og hún er, er ekki getið um það, að neitt fé sé ætlað til landakaupa. Ég held þess vegna heppilegast, ekki einasta fyrir þennan stað, heldur einnig fyrir aðra staði og fyrir þá heildarstefnu, sem tekin hefur verið í þessu máli, að einn hlypi ekki fram fyrir annan í þessum efnum. Ég segi þetta ekki flm. til lasts, en mér fyndist það liggja beinast við í þessum málum, að þau væru öll leyst í heild, vegna þess að þá væri hægt að slá föstu öllu því, sem að afgreiðslu málsins lýtur, hvaða staður kæmi fyrstur, og síðan, í hvaða röð aðrir kæmu, og þá væri hægt að gera sér grein fyrir, hversu mikið fé mundi til þess þurfa.

Ég er sammála hv. flm. um það, að Hornafjörður er einn af þeim stöðum, sem virkilega þarf að gera eitthvað fyrir og það mjög verulega, því að bæði er, að hann er eini staðurinn á ákaflega löngu svæði, þar sem viðlit er að koma höfn, og eins hitt, að þar fyrir utan eru mjög auðug fiskimið, sem hafa verið notuð af bátum og fiskiskipum víðs vegar að, sérstaklega af Austf jörðum. En eins og ég sagði, hefði ég frekar kosið, að upplýsingar, sem mér skildist á hv. frsm., að væru nærri, kæmu fram og lægju fyrir, áður en gengið yrði frá málinu, því að mér finnst það allóviðkunnanlegt að setja fram frv. með tölum og upphæðum, sem eru alveg fyrirsjáanlega mjög mikið fyrir neðan það, sem greinilega þarf að nota í þessu skyni.

Hér er svo einnig slegið föstu, að það skuli reisa fiskiðjuver á þessum stað og ríkið skuli gera það, og alveg tiltekið, hver stjórn þess skuli vera og hvað mörg tonn af flökum hraðfrystihúsið frysti og úr hvað mörgum tonnum af fiski niðursuðuverksmiðjan geti soðið niður. Er ekki nema gott um þetta að segja, ef hv. flm. vilja sjá um það, að þetta verði gert þar. En mér er það alveg ljóst, að ef farið er út í þetta á einum stað, þá muni margir fleiri á eftir koma. Ef ríkið gerir þetta í Hornafirði, þá munu margir aðrir staðir, sem til greina koma, gera kröfur til ríkisins um, að einnig hjá þeim verði reistar þessar byggingar.

Um verðlag bygginganna er mér ekki kunnugt, hvort upphæðin, sem þarna er nefnd, 4 millj., sé hæfileg eða ekki. Ég geri ráð fyrir, að hv. flm. hafi athugað það mál í sambandi við fyrirkomulag eða rekstur bygginganna, því að það virðist vera mjög grannt athugað og nákvæmlega tiltekið um öll afköst verksmiðjanna. En ég vil benda á það, að ef l. yrðu sett um byggingu verksmiðja eins og þessara, þá er athugandi, hvort ekki er varasamt að slá föstu í l., eins og gert er í þessu frv., hvað verksmiðjan skuli vera stór og hvað hún skuli vinna úr mörgum tonnum o.s.frv., því að þá er engin heimild til þess að breyta þarna neinu um. En ég hef sem sagt ekkert við málið að athuga í sjálfu sér, en ég hef aðeins þetta að athuga við meðferð og gang þess, að ég tel ekki á þessu stigi rétt, að frá því sé gengið, fyrr en aðrir sambærilegir staðir hafa verið athugaðir nákvæmlega og upplýsingar liggja fyrir um þá, helzt alla.