23.05.1947
Efri deild: 144. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (4406)

86. mál, landshöfn og fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég get orðið við tilmælum hæstv. forseta um að lengja ekki umr., því að ég þarf litlu við að bæta, þar sem hv. 6. landsk. gerði grein fyrir þeim rökum, sem til málsins liggja, og svo var ég búinn að gera grein fyrir málinu við 1. umr. En ég vildi með örfáum orðum lýsa því, að mér þykir þessi afstaða meiri hl. n. einkennileg og óheppileg fyrir þann atvinnuveg, sem hér er um að ræða.

Ég vil enn fremur benda á, að þegar málið var fyrst flutt, þá var því vísað frá vegna ófullnægjandi undirbúnings og lagt til, að það yrði undirbúið betur. En nú flytur meiri hl. frávísunartill. á allt öðrum rökum og það rökum, sem alls ekki geta haldið, vegna þess að þar er gengið fram hjá aðalatriðinu í þessu máli, en það er, að hér er um að ræða fiskihöfn fyrir heilan landsfjórðung, og er því ekki nema sjálfsögð sanngirniskrafa, að ríkið byggi hana. Þetta sjónarmið var líka ríkjandi í sjútvn. Nd. fyrir ári síðan, en það á bara ekkert skylt við sjónarmið þessarar dagskrártill.

Ég mun nú verða við tilmælum forseta og stytta mál mitt, enda er nú komið að þinglausnum og vitað mál, að það eru ekki umr., sem ráða úrslitum mála á Alþingi þessa síðustu daga. Þar kemur annað til.