23.05.1947
Efri deild: 144. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (4409)

86. mál, landshöfn og fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Björn Kristjánsson:

Það er vafalaust, að íbúar Austur-Skaftafellssýslu hafa mikla þörf fyrir að fá góða höfn í Hornafirði, og það er líka víst, að góð höfn þar mundi hafa mikla þýðingu fyrir allan Austfirðingafjórðung vegna sjósóknar á vetrarvertíð, og er ég því velviljaður þessu frv. Hins vegar er það vitað, að fram hafa komið nokkrar fleiri óskir um byggingu landshafna á öðrum stöðum á landinu, og flutti ég frv. um eina slíka á Þórshöfn á Langanesi á þinginu 1945. Jafnframt er það og vitað, að langan tíma mun taka að byggja þá einu landshöfn, sem lögákveðin hefur verið, og að ekki munu verða byggðar aðrar landshafnir, á meðan hún er ófullgerð. Sýnist því ekki aðkallandi nauðsyn að lögfesta nú þegar hafnargerð þá, sem hér um ræðir, og tel ég réttara að fresta því, meðan rannsakað er, hvaða staðir aðrir geti komið til greina í þessu sambandi. Á þessum forsendum segi ég nei.