09.12.1946
Efri deild: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (4412)

104. mál, byggingarsjóður íbúðarhús o.fl.

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem við flytjum hér, ég og hv. þm. Str., er flutt sem nokkurs konar viðauki við l., sem hér voru samþ. á Alþ. í fyrra, og það er sérstaklega þrenns konar hlutverk, sem þessu frv. er ætlað.

Það fyrsta er það, að eins og frv. í fyrra var samþ. frá þinginu, sem eru l. nr. 44 frá 1946, þá hefur það reynzt svo, að byggingarsamvinnufélögunum, sem til eru, hefur gengið illa að fá lán. Það er von um það, að það mundi ganga betur með því, að þeim væri steypt saman í einn byggingarsjóð, sem svo aftur láni félögunum, og þó sérstaklega þegar heimild er til þess að safna þar sparifé fyrir væntanlegum íbúðarhúsum.

Önnur viðbótin er sú, að gengið er út frá, að sett verði á stofn byggingarmálanefnd ríkisins, og henni er ætlað að hafa íhlutun um það og ráða því, hvaða byggingar gangi fyrir í landinu og hvaða byggingar verði látnar sitja á hakanum. Það er að vísu svo, að í l., sem ég nefndi, frá síðasta þingi er heimild fyrir ríkisstj. til þess að skammta byggingarefni, en það hefur ríkisstj. ekki notað sér, enda nær sú heimild ekki nema til skömmtunar á byggingarefni. En hér í frv. er gert ráð fyrir, að ákvæði um þetta eigi einnig að ná til vinnunnar, þannig að þegar maður ætlar að byggja hús, verði hann að gefa upp, hve marga verkamenn hann ætlar sér að hafa. Er þetta gert til þess, að hægt sé að koma í veg fyrir, að menn séu gripnir frá nauðsynlegri vinnu og settir í vinnu, sem síður er nauðsynleg. — Ég býst t.d. varla við, að til sé í landinu sá maður, sem teldi í alvöru, að meiri þörf sé að byggja hér í Reykjavík kirkju, þegar þær kirkjur, sem fyrir eru, standa hálftómar níu helgidaga af hverjum tíu, þegar messað er, heldur en að byggja íbúðarhús yfir menn, sem ekki hafa þak yfir höfuðið. En með því skipulagi, sem hefur verið, þá hefur þetta orðið svo, að fjármunum og vinnuafli hefur verið varið til þess, sem minna er nauðsynlegt, en það, sem meira er nauðsynlegt, látið sitja á hakanum.

Þá er í þriðja lagi gert hér í frv. ráð fyrir því, að ríkið komi upp stofnun, sem sé fyrir þá, sem þurfa að byggja í kaupstöðum og kauptúnum, svipaður ráðgjafi og teiknistofa landbúnaðarins er ráðgjafi búnaðarbankans fyrir þá, sem þurfa að byggja í sveit. Það er vissa fyrir því, að það er ákaflega erfitt og dýrt að fá allar þær teikningar, sem nú er talið nauðsynlegt að hafa, þegar byggð eru hús. Þetta kemur stundum fram hjá því opinbera, svo að það væri nú kannske ekki alveg tryggt, að sú ráðstöfun, sem hér er gert ráð fyrir, kæmi að gagni. Það t.d. sýndi sig, þegar átti að fara að leggja ljósalagnir í Hallgrímskirkju nú fyrir nokkru síðan, að þá voru lagnirnar vitlaust teiknaðar og það varð að láta verkamennina fara og láta verkfræðinga teikna lagnirnar að nýju, og ekki hefur þar verið byrjað á vinnu síðan. Slíkt getur oft komið fyrir. En verra er, ef einstaklingar þurfa að borga of fjár vegna svona mistaka, eins og fremur verður, ef mistök eiga sér stað slík sem þessi undir núverandi fyrirkomulagi í þessum efnum, en ef þeir fá teikningarnar fyrir kostnaðarverð, eins og hér er gert ráð fyrir.

Í þessu þrennu tilliti er í þessu frv. gert ráð fyrir, að bætt verði við eða skerpt ákvæði þeirra l., sem samþ. voru í fyrra um þessi byggingarmálefni. Og ég vona, að hv. þd. og hæstv. Alþ. í heild geti orðið sammála um efni þessa frv. og að það megi verða hér samþ. og koma að gagni fyrir þá menn, sem þurfa að byggja. — Ég vil svo gera að till. minni, að þessu frv. verði vísað til heilbr: og félmn. að lokinni þessari umr.