09.01.1947
Efri deild: 47. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (4416)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Frv. þetta, er hér liggur fyrir, kemur nálægt málefni, sem mikið hefur verið rætt um áður í þessari hv. d. á fyrra þingi. Sé ég því ekki ástæðu til þess að rifja upp það mál og hefja umr. um það. Það er ekkert, sem gefur tilefni til þess nú við 1. umr. Á þessu þingi var borið fram frv. í Nd., sem að nokkru leyti fór í líka átt og þetta, en það náði ekki fram að ganga. Þótt þetta frv. hafi líka forsögu og frv., sem flutt var í Nd., er það þó mjög í öðru formi. Hér er gert ráð fyrir að breyta þessum l. þannig, að í staðinn fyrir að búnaðarsamböndin fái allan sjóðinn til umráða, eins og nú er, þá verði helmingur sjóðsupphæðarinnar látinn ganga til stéttarsambands bænda, en hinn helmingurinn til búnaðarsambandanna. En eins og frv. var í Nd., þá átti helmingurinn að ganga til Búnaðarfélagsins og það að hafa ráðstöfunarrétt yfir því.

Málið, sem hér liggur fyrir, er svo einfalt, að ég tel, að það þurfi ekki meiri útskýringu. Ég vænti þess, að að þessum umr. loknum, sem ég vona, að ekki verði langar, verði málinu vísað til hv. landbn. og 2. umr. Mun ég svo ekki mæla frekar fyrir þessu máli að sinni.