13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (4418)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það hefur dregizt að gefa út nál. í þessu máli, sem lá fyrir Alþ. á síðasta ári, en nú liggur það hér fyrir. Þetta nál. er þannig, að þrír nm., þeir hv. 9. landsk. (GÍG), hv. 1. þm. N-M. (PZ) og ég erum sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt, en tveir nm., þeir hv. 7. landsk. (ÁS) og hv. 2. þm. Árn., hafa óbundnar hendur um afstöðu sína til málsins.

Það er um þetta mál að segja, að það hefur verið mikið rætt um það og ritað, þó ekki þetta frv., heldur um búnaðarmálasjóðinn. Það tæki of langan tíma að rekja þá sögu hér, enda er hún deildinni kunn. Þegar búnaðarmálasjóður var stofnaður, var í upphafi svo ákveðið, að búnaðarþing ráðstafaði sjóðnum, en með samþykki landbrh. Þessu var síðan breytt þannig, að sjóðurinn gengi beint til búnaðarsambandanna í hlutfalli við framlög þeirra. Í vetur kom svo fyrir till. um að breyta þessu enn, og átti sjóðurinn eftir því að renna að hálfu leyti til Búnaðarfélags Íslands, en hinn helmingurinn til stéttarsambands bænda. Þessari till. var vísað frá í Nd., við 2. umr. með rökst. dagskrá. Því var það, eftir að þetta hafði skeð í Nd., að við hv. þm. Str. (HermJ), hv. þm. Barð. (GJ) og ég tókum okkur saman um að flytja frv. það, er hér liggur fyrir, sem nokkurs konar málamiðlun, er allir gætu unað við.

Hér er ekki um stórmál að ræða hvað peningaupphæðina snertir, þar sem ekki er um að ræða nema 300 þús. kr. eða þar um, en hitt er annað, að þetta er orðið mjög viðkvæmt mál og mikið metnaðarmál og mjög verið um það deilt bæði milli manna og flokka. Nú töldum við flm., að ekki væri ástæða til þess, að menn klóuðust þannig lengur, og bárum því þetta frv. fram, sem við álítum, að geti verið málamiðlun, þar sem í því er gert ráð fyrir, að helmingur hins umrædda sjóðs renni til búnaðarsambandanna, en hitt fái stéttarsamband bænda til ráðstöfunar. Þarna er einmitt gengið fram hjá Búnaðarfélagi Íslands, en um þann aðila hefur styrinn aðallega staðið. Ég held, að ef þetta frv. nær fram að ganga, yrðu flestir ánægðir með þá lausn, nema ef til vill nokkrir ofstopamenn, sem mundu þá áfram ýfa stélfjaðrirnar. Það vakir fyrst og fremst fyrir okkur flm. að sefa þá úlfúð, sem verið hefur í þessu máli, og ef kyrrð hefði verið komin á í málinu, þá hefði ég ekki viljað láta vekja það upp að nýju. En það er víst, að sami styrinn hefði haldizt, þó að þetta frv. hefði ekki komið fram, en vonir til, að með því megi stilla til friðar. Ég tel illa farið, ef ekki verður samkomulag um þetta frv. að minnsta kosti milli þeirra, sem styðja núv. ríkisstj., því að þótt þetta sé ekki stórmál, þá ýfir það samvinnuhuginn, þegar harðvítugar deilur standa um jafnvel smávægileg atriði. Auk þess skemmtir það stjórnarandstæðingunum, en veikir okkar aðstöðu. Ég vænti því, að hv. d. líti á nauðsyn þessa máls og líti á það af sanngirni.