13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (4419)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Þetta frv., er hér liggur fyrir, er hagsmunamál bænda, en þó annað meira áberandi við það nú, að það er orðið mjög mikið tilfinningamál, eins og frsm. drap á. Það er svo með mig, þó að ég hafi ekki treyst mér til að fylgja meiri hl. n., að afstaða mín í málinu er algerlega ofsalaus. Ég var upphaflega á móti stofnun þessa sjóðs, faðir hans var orlofslöggjöfin, en þetta varð svo fæðingin, og vegna þess að ég var á móti þessu öllu og taldi það til lítilla heilla, hef ég viljað leiða hjá mér þær deilur, sem um þetta hafa staðið, og allt það róstur, sem af þeim hefur leitt. En úr því sem komið er, tel ég þessu fé bezt varið eins og nú er, að það gangi beint til búnaðarsambandanna, eða get að minnsta kosti ekki forsvarað það að taka það af þeim. Þetta er frá þeim komið, og það án þess að bændur hafi verið að því spurðir. Þetta eru næm rök og skýr, sem standa óhaggandi í þessu máli, þó að við forsorgararnir hér á Alþ. séum að velta með þessa fáu skildinga og deila um þetta mál, sem er smáskítlegt í heild. — Þó að ég hafi sagt, að búnaðarsamböndin ættu rétt á þessu fé, þá er á engan hátt játað, að stéttarsambandið þurfi ekki fjárins með. Nei, þvert á móti tel ég, að bæði stéttarsambandið og Búnaðarfélagið vinni að svo miklu þjóðþrifastarfi, að þau eigi skilið meira fé til umráða en þau nú hafa. Það er því mín skoðun, að búnaðarsamböndunum veiti ekki af því, sem þau nú fá, en stéttarsambandinu og Búnaðarfélaginu eigi að bjarga með fjárframlögum úr ríkissjóði. Þegar heiðurssamsæti á að halda, taka þátt í því bæði ríkir og fátækir. Þess vegna ættu forráðamenn ríkissjóðs að hafa það hugfast, þó að við séum morgunsvæfir, að þá er Alþ. alltaf í þakkarskuld við íslenzkan landbúnað, því að hann og hann einn hélt okkur blaktandi um aldir. Það er vegna þess, er ég hef hér talið, og vegna afstöðu umbjóðenda minna, sem ég fylgi ekki þessu frv. Ég veit, að búnaðarsamböndin heima í héruðunum eru févana, en hafa hins vegar fjöldamörg áhugamál, sem nauðsyn er að hrinda í framkvæmd, en til þess þarf auðvitað fé, og þar sem þessi sambönd hafa einu sinni fengið þennan sjóð til umráða, þá tel ég ekki rétt að svipta þau ráðstöfunarrétti yfir honum.

Þó að ég viti, að þetta frv. er af góðum toga spunnið og eigi að verka eins og vatn á eldinn, þá verð ég nú að segja það eins og er, að mér finnst það hvorki vera fugl né fiskur. — Ég læt svo útrætt um þetta að sinni.