13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (4420)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Hermann Jónasson:

Það er víst nokkuð til í því, sem 2. þm. Árn. sagði um þetta mál, að meðferð þess hefði verið smáskítleg. Það er merkilegt, að nokkurri stétt skuli sýnd þau vinnubrögð, sem í þessu máli hafa verið unnin gagnvart bændum, og að þeir skuli ekki fá að ráða sjálfir, hvernig aukagjaldi, sem þeir greiða til sameiginlegra þarfa sinna, er varið. Eins og lögin eru nú, eru þau alls ekki framkvæmanleg, því að það er ekki hægt að finna uppruna vörunnar og þar af leiðandi ekki hægt að skila gjaldinu til búnaðarsambandsins, sem varan er framleidd í, og í öðru lagi er með þeim drepið það sjónarmið, sem átti upphaflega að ná með gjaldinu. Nú er gjaldið sent heim í búnaðarsamböndin eftir framlagi hvers sambands og sú skipting notuð sem agn á bændur á Suðurlandi, vegna þess að Búnaðarsamband Suðurlands hefur mesta umsetningu, og með þessu agni er reynt að fjarlægjast sem mest hinn upprunalega tilgang, sem var fyrst og fremst sá að efla félagslíf og félagssamtök bænda.

Það eru fölsk rök hjá hv. þm., að félagsskapur bænda þyrfti ekki á þessum peningum að halda. Þeir þurfa þeirra til að halda uppi félagsstarfsemi sinni. Ef bændur eiga að standa þannig að vígi í lífsbaráttunni, að þeir séu ekki verr settir en aðrar stéttir, þá verða þeir að efla félagsskap sinn. Hv. þm. segir, að ef þeir þurfi hús, þá megi veita fé til þess úr ríkissjóði. Ég held, að þessi hv. þm. ætti að hugsa um 26 milljóna veginn sinn, sem hann lofaði kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar, áður en hann lofar bændum peningum í húsbyggingu í höfuðstaðnum. (EE: Alþingi lofaði því, en ekki ég). Hann stóð fyrir því og gerði sig góðan á því í kosningabaráttunni á Suðurlandsundirlendinu í síðustu kosningum. Þess vegna er það eðlileg afleiðing að útvega þessar 26 milljónir áður en hann fer að lofa peningum í þessa húsbyggingu. Það er vitað mál, að ríkissjóður hefur í mörg horn að líta, og ekki líklegt, að hann geti veitt fé í að byggja þetta hús, enda er vafasamt, að það sé eðlilegt, að hann geri það, það er meira að segja óeðlilegt, heldur á bændastéttin að kosta það hús, sem hún þarf yfir að ráða til að geta eflt samtök sín.

Ég skal svo ekki á þessu stigi orðlengja frekar um þetta mál, en ég vænti þess, að þar sem hér er borin fram miðlunartill. um þau sjónarmið, sem ríkt hafa í þessu máli, þá fái frv. samþykki í þessari d. Það vekur nokkuð undrun mína, að þar sem borið er fram þetta sáttasjónarmið, þá skuli hv. 2. þm. Árn. tala um þetta mál eins og hann gerði við þessa umr. Það eru þó hans umbjóðendur, sem hafa gengið manna lengst í að krefjast, að þeir fengju aftur þá peninga, sem þeir leggja í þennan sjóð með því gjaldi, sem greitt er af þeirra afurðum, því að mér datt ekki annað í hug en hann hefði það víðan sjóndeildarhring, að hann sæi, að þetta er sanngjarnt. Og þá dettur mér í hug það, sem sagt var um hann í fyrra, að sjóndeildarhringur hans væri ekki alltaf of stór. En án þess að fara út í það nánar, þá hélt ég, að hann væri það óbundinn og hefði það mikla víðsýni, að hann vildi ganga inn á þetta sáttaboð, sem hér er boðið.

Þetta er eitt af þeim málum, sem orðið hefur nokkurt hitamál, og er það ekki óeðlilegt. Ég er einn af þeim, sem telja hiklaust, að þetta fé eigi að fara til stéttarsambandsins, en ég vil þó sætta mig við að láta helminginn fara til búnaðarsambandanna, og ég tel litla von um sættir í þessu máli, ef ekki er hægt að sættast á þessum grundvelli, þar sem reynt er að mætast á miðri leið.

Ég skal svo ekki eyða frekar orðum að þessu sinni. Ég sé, að ýmsir ætla að tala hér, og gefst þá tækifæri til að tala aftur í sambandi við það.