13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (4421)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Magnússon:

Flestir af þeim, sem talað hafa í þessu máli, hafa lagt höfuðáherzlu á, að þetta væri fyrst og fremst tilfinningamál. Þetta er sjálfsagt alveg rétt. Einn fremsti rithöfundur Íslands hefur sagt, að Íslendingum verði öll mál tilfinningamál, og er nokkuð til í því, enda verð ég að segja, að það er lítil ástæða til, að þetta mál verði tilfinningamál, nema Íslendingum verði öll mál tilfinningamál. Ég held sem sé, að það orki ekki tvímælis, að l. um búnaðarmálasjóð séu sett ekki fyrst og fremst til þess, heldur í því skyni einu að verða íslenzkum landbúnaði til framdráttar. En þegar á að ákveða, á hvern hátt búnaðarmálasjóði sé bezt varið, þá hélt ég, að það lægi næst að gera það með þetta sjónarmið fyrir augum, hvernig honum verði bezt ráðstafað þannig, að þessum tilgangi verði náð, að koma að sem mestu gagni fyrir íslenzkan landbúnað. Þetta á að skoða frá köldu skynsemisjónarmiði, en ekki vera með neitt tilfinningagutl eða væl um það, að íslenzkri bændastétt sé sýnd lítilsvirðing með því, að þingið ákveði, að samtök, sem bændur ráða einir yfir, skuli skera úr um það, hvernig þessu fé skuli ráðstafað.

Ég verð að segja, að það eru afar einkennileg rök, sem fram eru færð fyrir þessu frv. Hv. þm. Dal. kom með tvær höfuðröksemdir, að mér skildist, annars vegar það, að þingið mætti ekki skemmta skrattanum, eins og hann orðaði það, með því að vera á móti þessu frv. Hin rökin voru þau, að þetta frv. mundi vera eitthvert fljótharðnandi sement, sem mundi líma saman hina nýstofnuðu ríkisstj., svo að engin hætta væri á, að sprungur kæmu í þessa byggingu. Ég skal fúslega játa, að það gæti verið til mikils gagns fyrir íslenzka bændastétt, ef þessi ríkisstj., sem nú hefur verið mynduð, á langt líf fyrir höndum. En hv. þm. Dal. gleymdi að færa rök fyrir, hvers vegna þetta mál mundi verða þetta ágæta bindiefni fyrir hæstv. ríkisstj., og ég hygg, að það sé flestum ofvaxið að finna, hvernig það ætti að verða. Það er því nauðsynlegt, að hv. þm. geri grein fyrir því, ef þetta á að ráða einhverju um afstöðu þm. til málsins.

Það mátti heyra, að hv. þm. Str. fannst þessar röksemdir ekki alveg nægar, sem fram voru fluttar af hv. þm. Dal., frsm. Kom hann þess vegna með röksemdir, sem honum fannst sjálfsagt, að væru mjög veigamiklar. Fyrst var sú röksemd, að bændastéttinni væri sýnd mikil lítilsvirðing með l. um búnaðarmálasjóð, eins og frá þeim er gengið, af þeirri ástæðu, að þeir fengju ekki sjálfir að ráða, hvernig því væri varið. Hverjir ráða í búnaðarsamböndunum? Vill hv. þm. Dal. svara því, þegar hann tekur næst til máls? Eru það ekki bændur, sem ráða þar? Það er a.m.k. mikils verður fróðleikur fyrir þingið, ef hv. þm. sýnir fram á, að einhverjir aðrir en bændur ráði í búnaðarsamböndunum.

Hv. þm. lét skína í það, að samþykkt l. um búnaðarmálasjóð, eins og þau eru, væri mjög að óvilja bændastéttarinnar. Ég hef það fyrir satt, að hv. þm. Str. hafi á þingmálafundum s.l. vor eytt a.m.k. helmingi ræðutíma síns til að tala um þessar tvennar lagasetningar, sem fram fóru á næsta þingi á undan, búnaðarráð og búnaðarmálasjóð, og hann mun hafa ætlað sér að vinna fylgi á röksemdum sínum í þessum málum og þessum málum einum. Hvernig svöruðu kjósendur þessari áskorun hans? Mér skilst, að það muni ekki hafa verið neitt sérlega heppileg beita, sem hann ætlaði að nota. A.m.k. sýndu kosningaúrslitin, að hv. þm. hefur ekki unnið mikið fylgi á að tala um þessi mál, enda er það vitað, að það þýðir ekki fyrir hv. þm. Str. að tala á þennan hátt, því að engin lagasetning á síðari árum hefur mælzt eins vel fyrir í sveitum og þessar tvær lagasetningar, um búnaðarráð og búnaðarmálasjóð. Sigur Sjálfstfl. í nálega öllum sveitum landsins nema kjördæmi hv. 1. þm. N-M, stafar af því, að flokkurinn stóð að þessari lagasetningu. (BK: Þrátt fyrir það). Úr því að hv. þm. N-Þ. skýtur þessu fram, hvað var það þá annað, sem Framsfl. gerði fyrir sér, sem varð til þess, að bændurnir féllu svo frá honum við síðustu kosningar?

Hv. þm. Str. var mjög að tala um smáskítlegan hugsunarhátt í þessu máli, og beindi því til hv. 2. þm. Árn., að hann gerði sig sekan um smáskítlegan hugsunarhátt, kjósendaveiðar og þar fram eftir götunum. En hvað hefur hann verið að gera? Hvað hefur hann verið að stunda nema kjósendaveiðar? En sá er munurinn á hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. Str., að hv. 2. þm. Árn. veit, hvers bændurnir óska í þessum málum, en hv. þm. Str. hefur lent í andstöðu við bændastéttina, en hv. þm. Árn. er vissulega í fullu samræmi með sína afstöðu við vilja mikils meiri hluta bændastéttarinnar.

Hv. þm. Str. var að tala um það einnig, að stéttarsamtök bænda þurfi fjár við, og þess vegna sé nauðsynlegt, að löggjafinn sjái þeim fyrir einhverju fé til þess að standa straum af nauðsynlegum stéttarútgjöldum. Ég efast um, að hv. þm. Str. geri bændastéttinni nokkurn greiða með því að vera að slá á svona strengi. Það hefur, sem betur fer, verið búið svo að bændastéttinni undanfarin ár, að hún þarf ekki aðstoð þingsins til að standa undir nauðsynlegum útgjöldum við stéttarfélag. Bændastéttinni er ekkert meiri vorkunn en öðrum stéttum að standa undir útgjöldum við stéttarsamtök sín, og það er enginn vandi fyrir þennan félagsskap að ná inn nauðsynlegum tekjum vegna stéttarfélags síns án íhlutunar löggjafarvaldsins.

Ég sagði áðan, og ég held, að því verði ekki mótmælt, að þessi löggjöf væri sett til framdráttar íslenzkum landbúnaði. Og ef við lítum á, hvers íslenzkur landbúnaður þarf mest, þá hygg ég, að ekki verði skiptar skoðanir um, að það, sem mestu máli skiptir til að landbúnaðurinn geti blómgazt og átt framtíð fyrir hendi, er, að ræktunin geti aukizt sem mest. En hvaða stofnun er það, sem landbúnaðurinn beitir fyrir sig í sambandi við ræktunarmál? Ég veit ekki betur en að það séu búnaðarsamböndin. Ég veit ekki betur en að búnaðarsamböndin séu félagsskapur, sem fyrst og fremst er falið það hlutverk að styðja bændur til að koma ræktunarmálum sínum í það horf, að landbúnaðinum geti vegnað vel. Ég hygg, að ekki verði bent á, að búnaðarmálasjóði, sem á að verða landbúnaðinum til framdráttar, verði betur varið á annan hátt en þann að láta búnaðarsamböndin ráðstafa honum. Það er vitanlega grófasta rökvilla, sem hægt er að flytja, og sem betur fer sjaldgæft að heyra slík rök, þegar því er haldið fram af hv. þm. Str., að með þessu lagaákvæði sé valdið tekið af bændunum. Þeim er fengið það í eins ríkum mæli og auðið er. Það er ekki hægt að gefa þeim fullkomnara vald yfir þessu fé en gert er með þessum hætti. Hitt má deila um, hvort þetta sé skattur á bændur eða neytendur. Því var haldið fram af hv. þm. Str. og mörgum flokksbræðrum hans, þegar veltuskatturinn var lagður á, að hann væri neyzluskattur, en um það er ekki ástæða til að ræða hér. En hvort sem hér er um að ræða skatt á neytendur eða framleiðendur, þá er það tvímælalaust, að svo framarlega sem menn telja æskilegt, að nauðsynlegt sé að styðja og auka ræktun landsins, þá verður þessum sjóði ekki annars staðar betur fyrir komið en í búnaðarsamböndunum og þau ráðstafi honum síðan sjálf.