13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (4425)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Þetta skal vera aðeins stutt, og ég ætla ekki að draga mig mikið inn í umr. um þetta mál, en lýsa hér afstöðu minni í stuttu máli. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. N–M., sem forsvarar frv., að hann rabbaði um það, að ýmis búnaðarsambönd væru að draga sér gjöld fyrir vörur, sem ekki væru af þeirra svæði, og væri því ekki öruggt, að hver fengi sitt. Það kann að vera, að rétt sé að athuga þessa lagasetningu nánar, en hv. þm. sagði meir, að þeir, sem verri aðstöðu hefðu, fengju þar með meiri möguleika til þess. Gott og vel, þá skil ég mætavel kýtinguna og tilfinningahitann, sem verður, er þetta mál er á dagskrá, ef bak við þetta er tog á milli héraða, hvort sótt er með sanngirni eða ósanngirni. Ég á þar ekki sérstaklega við Sunnlendinga, en eðlilegast er, að þeir beri mest úr býtum, sem mest framleiða, og Sunnlendingar hafa lagt margt gott til góðra hluta. Ef svo á að jafna á milli þess lakasta og þess bezta, þá koma nú nokkuð mörg málsatriði fram. Við miðum við það sama handa öllum landsins börnum, að þeim líði öllum vel, samanber lögin um almannatryggingar. Ísland er svo byggt, að óhyggilegt má teljast, a.m.k. sums staðar, og vegna þjóðarinnar sjálfrar er þörf að tryggja útfærslu málanna. Og ef á allt er litið, þá er mér ekki að lá sem fulltrúa Sunnlendinga, að ég ætlist til, að þeir njóti síns réttar og að búnaðarsamböndin megi nota féð til beinna nota. Það kom einkum fram hjá hv. þm. Str. um þetta, hvað féð skiptist ójafnt niður, og hv. þm. virtist vilja gera sér hátíðarmat úr þessu. Hið réttláta er gott, en hvaða rök eru þetta? Ég er alveg hissa á forustumönnum þjóðarinnar, að þótt öll búnaðarsamböndin nema tvö mæli í móti, að ekki megi athuga þetta nánar: Ég álít, að það megi skiljast, að sunnlenzkir bændur eru það duglegir og til þeirra er fyrst kallað og þeir skilja, að sjálfs er höndin hollust, og það má kalla smáskítlegt, ef hv. þm. vilja svo setja orð mín. (HermJ: Hv. þm. kallaði þetta svo, að það væri smáskítlegt). Það er góður eiginleiki að kunna að sækja og verja, þótt smáskítlegt sé, og öll meðferð málsins byrjaði svo, orlofsféð byrjaði svo og margt síðar, og til þess að sýna ekki hlutdrægni, þá er ofurkappi hleypt í þetta mál, sem er ekki sambærilegt bændastéttinni. Það mætti á margan veg um þetta segja. Hér er ekki um kjósendadekur af minni hendi að ræða, en ég set mig á hærri sjónarhól en á Langanes eða Strandafjöll til að þvo skítinn.