13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (4426)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara út á þær götur að telja atkvæði né fara út í að segja frá orrustum við síðustu kosningar, en halda mig að málefninu.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að framlög hvers staðar njóti sín réttilega. Réttlætið er alltaf fallegt hugtak, en ég vil nú nefna dæmi um skiptinguna eftir fyrirmælum Alþ. Íbúar Dalasýslu verzla við kaupfélagið á Borðeyri og kaupfélagið í Borgarnesi. Verzlanirnar gefa svo upp vörumagnið, sem þær selja, og er svo mikill hluti þess, sem þær gefa upp, ekki talið til góða til þess staðar, sem það er framleitt í. Dalamenn verzla við 3 önnur kaupfélög, svo að þá má flestum ljóst vera, hvert réttlæti er í þessu. En þetta má nú laga einnig með því að Alþ. skipti helming fjárins á milli búnaðarsambandanna, en þau gætu svo aftur skipt fénu réttilega upp, og er þetta eina úrræðið, sem nú er fyrir hendi og teljast má þolanlegt. Ég hafði lengi vel von um, að hv. 2. þm. Árn. mundi fylgja þessu frv., en það fór líkt fyrir honum og manninum, sem vaknaði við smiðjueldinn og sagði við það tækifæri: „Hér vissi ég lengi, að ég mundi lenda.“

Ég vil segja það um hv. 1. þm. Reykv., að ég skil ekki, hvaðan hiti sá er kominn, er kenna mátti í ræðu hans. Honum tókst vel að leika vandlætingarmann, en ég er ekki fjarri því, að hv. þm. muni nú viðurkenna með sjálfum sér réttlætið, og hef ég grun um það, að hann verði ekki eins fjarri því rétta sem nú eftir þá íhugun. Þetta er tilfinningamál og metnaðarmál, hvort bændur eiga að vera fjár síns ráðandi eða ekki. Svo er og um allan félagsskap og er ekki að furða, þótt bændur brenni og svíði það, ef öll fjárráð eru af þeim tekin, og ég held það sé lakast af slæmu, að fyrrv. landbrh. skyldi stuðla að því, að grundvellinum var kippt undan bændum í þessu efni, og það veit ég, að hv. þm. fellur þungt, og ég trúi því, að hv. 1. þm. Reykv. muni að athuguðu máli draga úr andstöðunni gegn þessu frv. og taka á þessu máli með sínum venjulega skilningi.

Ég geri nú ráð fyrir, að þetta mál verði nú útrætt af minni hálfu og læt svo skeika að sköpuðu.